Á Kilimanjaro með dóttur sinni

Helga María Heiðarsdóttir, land- og jöklafræðingur, er að klífa Kilimanjaro, …
Helga María Heiðarsdóttir, land- og jöklafræðingur, er að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, um þessar mundir með dóttur sinni Alexöndru.

Helga María Heiðarsdóttir, land- og jöklafræðingur, er að klífa Kilimanjaro, hæsta fjall
Afríku, um þessar mundir með dóttur sinni Alexöndru. Hún segir fjallgöngur mikið ævintýri og að allir ættu að skoða þann möguleika að ganga á fjöll. Þó að ekki sé nema bara í stökustu rólegheitum. Enda er hún á því að allir ættu að njóta náttúrunnar eins vel og mögulegt er.

Helga María starfar fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn þar sem hún er leiðsögumaður í lengri og styttri ferðum bæði hér á landi og erlendis. Hún er einnig þjálfari og leiðsögumaður hjá Náttúruhlaupum þar sem hún aðstoðar fólk við að læra að njóta þess að hlaupa úti í náttúrunni með Hlaupasamfélagi Náttúruhlaupa. 

Helga María var lengi vel einstæð móðir og segir hún að þá hafi góð heilsa og útivera skipt hana miklu máli. Enda vildi hún vera til staðar fyrir dóttur sína, sama hvað.
„Í dag er ég gift og á eina dóttur sem er 15 ára og eina 11 ára stjúpdóttur. Ég var lengi vel einstæð móðir eða frá því dóttir mín Alexandra var tveggja ára þar til hún varð níu ára. Það hafði mikil áhrif á mig og hreyfiáhuga minn að reyna að vera góð fyrirmynd fyrir hana.
Hún þvældist mikið með mér og fór t.d. fyrst í klettaklifur tveggja ára. Eins hefur hún gengið mikið með mér á fjöll. Í dag er hún í unglingadeild björgunarsveitanna og erum við á leiðinni á Kilimanjaro saman um þessar mundir.“

Helga María vildi vera góð fyrirmynd fyrir dóttur sína, í …
Helga María vildi vera góð fyrirmynd fyrir dóttur sína, í góðu formi og sterk.

Mikil heimspeki fólgin í hreyfingu

Helga María segir að áhuga hennar á útivist megi rekja til þess að hún hafi áhuga á mörgu og sé mikill grúskari í eðli sínu.

„Ég man sem dæmi eftir því að keyra hringveginn með mömmu og pabba, eitt skiptið þegar við vorum að elta sólina, þar sem ég horfði út um gluggann og velti fyrir mér hvernig náttúran og umhverfið hefði orðið til. Svo það má segja að aðdráttarafl jarðar hafi haft mikil áhrif á mig allt mitt líf enda endaði ég að lokum í háskóla að læra jarðfræði. Þegar ég byrjaði svo í björgunarsveit um tvítugt og fór í fyrsta skiptið upp á jökul og í alvöru fjallgöngu
að vetri til varð ekki aftur snúið, ég vissi að þetta væri eitthvað sem ég vildi aldrei vera án.“

Hún segir að maður geti lært heilmikið á lífið og í raun sé mikil heimspeki fólgin í hreyfingu.
„Fjallganga er sem dæmi eins og lífið sjálft. Við þurfum að taka eitt skref í einu og sjá hvert það leiðir okkur. Stundum lendum við í einhverju á leiðinni sem við þurfum að takast á við áður en við getum haldið göngunni áfram, það er ekki sjálfsagt að komast á toppinn en ef allir gera sitt besta aukast líkurnar á því. Það eru margar svona skemmtilegar pælingar í útivistinni!“

Hver er ástæða þess að svo margir leita í náttúruna upp úr miðjum aldri að þínu mati?
„Ég held að ástæðurnar séu margar. Meiri frítími þar sem námi er oft lokið og börn orðin sjálfstæðari og fólk getur því varið meiri tíma í hreyfingu og útivist. Margir upplifa að formið breytist hratt á miðjum aldri, fólk fær þessa þörf fyrir að leika sér aftur, enda langt síðan þau
voru börn að hlaupa um og í útivistinni er hægt að sameina hvorttveggja hreyfingu og leik.

Eins gæti þetta verið löngun til að tengjast náttúrunni aftur og jafnvel sjálfum sér eftir að hafa týnt sér aðeins í skóla/vinnu og streitunni sem fylgir samfélaginu sem við lifum í í dag.
Þessi leitun í einfaldari tíma frá því við vorum börn.“

Helga María á Base Camp á Everest fjalli.
Helga María á Base Camp á Everest fjalli.

Helga María segir að margt hafi breyst frá þeim tíma þegar hún fór fyrst á fjöll.
„Ég man þá tíma þegar ég byrjaði hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem jöklaleiðsögumaður þegar ég var rúmlega tvítug. Þá voru ferðirnar mikið ævintýri. Við bjuggum í tjöldum í Skaftafelli, höfðum eitt hústjald sem skrifstofu og matsal og notuðum tjaldstóla til að bjóða viðskiptavinum okkar sæti á. Vinnan snérist um að taka 1-2 jöklagöngur á dag eða fara upp á Hvannadalshnúk sem var mjög vinsælt á þessum tíma bæði hjá Íslendingum og útlendingum. Ef skórnir okkar blotnuðu þá vorum við bara í blautum skóm þar sem það var í raun engin aðstaða fyrir okkur að þurrka þá. Þetta voru æðislegir tímar. Þó að ég samgleðjist leiðsögumönnum yfir að aðstæður þeirra hafa stórbatnað með árunum!“

Aukin þjónusta eitthvað sem allir njóta góðs af
Hún er sammála þeim sem halda fram að það hafi orðið gífurlegar breytingar á umgengni fólks við náttúruna í kringum 2010 í kjölfar þess að ferðaiðnaðurinn tók verulegan kipp og fólk byrjaði að líta á Ísland sem áhugaverðan viðkomustað.
„Breytingarnar urðu miklar og því miður ekki allar góðar og ekki allir á eitt sáttir. Það hefur þó verið frábært að finna hvernig þjónustan í landinu hefur aukist og tel ég að allir njóta góðs af því að geta tekið klósettstopp reglulega á hringveginum og náð sér í kaffi eða jafnvel fengið heitan mat langt fram eftir kvöldi. En aukinn fólksfjöldi þýðir auðvitað aukið álag á náttúruna okkar. Ég hef tekið eftir því að göngustígar hafa myndast á svæðum þar sem fyrir áratug við gengum eftir GPS-tæki og margar náttúruperlur heimsæki ég ekki nema þegar ég er leiðsögumaður, vegna fólksfjölda. En sem betur fer er landið okkar stórt og það eru mun fleiri staðir á landinu þar sem enginn fer og því auðvelt að komast í ósnortna náttúru og hlaða batteríin.“

Hvaða ráð áttu fyrir þá sem langar að prófa útivist meira en hafa aldrei gert slíkt?
„Ég myndi ráðleggja þeim að fara út og gera eitthvað með engar væntingar í huga eða markmið. Náttúran gefur svo mikla orku og fljótlega verður fólk viðþolslaust ef það kemst
ekki reglulega út að hreyfa sig og þá verður útivistin orðin að stórum þætti í lífi fólks.
Ég mæli með því að fólk skrái sig í hópa sem sérhæfa sig í því sem það hefur áhuga á. Það er gott að byrja t.d. að skrá sig í fjallgöngu-, hlaupa- eða hjólahópa. Þar kynnist fólk öðrum í sömu hugleiðingum og fær leiðsögn um það hvernig er best að stunda þá útivist sem það hefur áhuga á.

Helga María á gönguferð í Albaníu.
Helga María á gönguferð í Albaníu.

Þetta á ekki að snúast um það hver er bestur eða fer hraðast, þetta er fyrir flestum áhugamál og á að gefa okkur gleði en ekki taka hana frá okkur. Það er nóg um það sem
veldur okkur streitu svo að áhugamálin fari nú ekki að gera það líka að mínu mati.
„Að njóta en ekki að þjóta,“ er skemmtilegt máltæki og gott fyrir byrjendur að hafa í huga. Enda til hvers að flýta sér á fallegum degi, ég mæli miklu frekar með að njóta hvers skrefs.“


Platar sjálfa sig stundum út að hlaupa

Helga María segir það ekkert leyndarmál að forfeður og mæður okkar voru mikið út í náttúrunni, bæði við störf, ferðalög og leik.
„Það má því segja að útivist sé í genunum okkar. Náttúran gefur okkur svo mikið, mér hefur oft fundist eins og hún hlaði einhver batterí innan í mér og mamma sagði stundum við mig þegar ég var aðeins yngri og átti slæman dag hvort ég þyrfti ekki að fara að komast upp á fjall eða jökul.
Það gefur okkur mikla orku að hreyfa okkur og tekur ekki frá okkur. Jafnvel þó að okkur finnist við ekki hafa neina orku og við viljum helst bara liggja í sófanum er besta ráðið til að hressa sig við að skella sér út í göngutúr um hverfið sitt. Stundum þegar ég er eitthvað þreytt og nenni ekki út að hlaupa þá plata ég sjálfa mig; segist bara ætla út í göngutúr og fer þá vanalega í hlaupafötin. Áður en ég veit af er ég byrjuð að hlaupa og á þá jafnvel bara
frábæran hlaupatúr. Svo kem ég heim og þríf allt húsið!“

Helga María segir að hún gæti ekki lifað án náttúrunnar.
„Ég dáist að núátúrunni, jörðinni og himingeimnum. Ég gæti aldrei lifað án náttúrunnar og gæti t.d. ekki búið í stórborg þar sem væri mjög langt að fara til að komast út í náttúruna.
Því miður er manneskjan hægt og rólega að gleyma því hvaðan við komum og hve mikið við getum gert fyrir náttúruna og hve mikið hún getur gert fyrir okkur. Ég held að ef allir myndu fara daglegan göngutúr í skógi eða annarri náttúru væri heimurinn aðeins betri.“

Það hefur margoft verið skrifað um það hvernig útivera dregur úr streitu og ég er sko sammála því! Ef það er mikið að gera hjá mér og ég er að vinna í mörgum verkefnum á
sama tíma finn ég það að ég verð að komast út og núllstilla mig. Hreinsa hugann og svo er eins og hlutirnir leysist bara mjög auðveldlega eftir það. Núvitund er orð sem flestir ættu að þekkja þar sem það hefur verið mikið í umræðunni, en það er einmitt ástandið sem ég upplifi þegar ég er úti í náttúrunni. Það er líka einstaklega gaman að vera með fólki út í náttúrunni, þar skiptir staða og starf engu máli og allir eru á sama plani í göngu- eða hlaupaskónum sínum. Samtölin eru öll svo miklu einlægari og auðvelt að tala saman um allt og ekkert. Ég hef lært mjög mikið af slíku spjalli og til dæmis var ég einu sinni leiðsögumaður í ferð með eðlisfræðingi sem tók þátt í að hanna kjarnorkuofna og vann við ráðgjöf hjá CERN, og lærði ég mikið í eðlisfræði á okkar spjalli. Ég hef oft sagt það og meina það, að þótt ég sé leiðsögumaður læri ég samt alltaf eitthvað nýtt í hverri ferð.“

Helga María er mikil útivistarkona og elskar að ganga á …
Helga María er mikil útivistarkona og elskar að ganga á fjöll.


Ein eftirminnilegasta gangan var upp á Mt. Triglav
Ertu alltaf í góðu formi?
„Ég vil halda mér heilbrigðri og í fínu formi og reyni því að iðka heilbrigðan lífsstíl. Ég geri það með því að taka lýsið mitt, borða ávexti og lágmarka streitu. Ég hef mikla trú á
styrktaræfingum og teygjum og ég hef notað styrktaræfingar frá Birgi þjálfun en þær get ég gert hvar sem er í heiminum. Þær taka stutta stund en skila sér fljótt í auknum styrk.
Ég vil helst vera í ákveðnu fjallaformi sem mætti kalla Hvannadalshnúksform. Nafnið vísar til þess að ég vil geta gengið á Hvannadalshnúk um næstu helgi án þess að æfa fyrir það og ég reyni að halda mér alltaf í ágætis hlaupaformi.
En annars finnst mér bara gaman að vera úti í náttúrunni að hreyfa mig og skiptir þá hraði eða íþrótt litlu máli.“


Hún segist ekki hafa tölu á þeim fjöllum sem hún hefur gengið á, síðastliðin 15 ár, en segir að hún haldi að hún hafi gengið á sirka eitt fjall í viku á Íslandi að meðaltali.
„Ein eftirminnileg ganga var upp á Mt. Triglav sem er hæsta fjall Slóveníu. Sú ferð er eftirminnileg þar sem við Belinda vinkona þurftum að klifra upp síðustu 400 metrana eftir
Via Ferrata, sem þýðir Járnstigi, sem er sport sem ég hef mjög gaman af. Ég stundaði klettaklifur hér áður, þar sem ég hef ekki tíma til að halda mér í klifurformi samhliða öðru sem ég er að gera þá hentar þannig klifur mér mjög vel. Í Via Ferrata-klifri eru allar tryggingar til staðar og því hægt að einbeita sér að klifrinu og að njóta.
Svæði sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér þessa stundina eru Dólomítarnir og Himalaja. Ég var einmitt að koma heim af skíðum í Dólomítunum en hef einnig leitt gönguferð þar,
klifrað og hlaupið og verð einmitt leiðsögumaður í náttúruhlaupaferð þar síðastliðið haust.“

Helga María ásamt félögum á göngu.
Helga María ásamt félögum á göngu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert