„Ekki gleyma hvernig þér líður eftir göngutúr úti!“

Gunna Stella kann vel við sig úti og tekur vanalega …
Gunna Stella kann vel við sig úti og tekur vanalega langa göngutúra sem hafa góð áhrif á líkama og sál að hennar mati.

Gunna Stella, heilsumarkþjálfi og kennari, er búsett á Selfossi. Hún sérhæfir sig í að hjálpa einstaklingum að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til að einfalda lífið, heilsuna og heimilið. Hún fer í langa göngutúra og segir mikilvægt að muna tilfinninguna þegar heim er komið eftir göngu, ef erfitt er að koma sér af stað.

Gunna Stella miðlar af eigin reynslu og aðstoðar einstaklinga við að breyta hugarfari sínu, auka sjálfstraust, einblína á nærandi mataræði og læra tímastjórnun svo eitthvað sé nefnt.

„Ég hef mikla löngun til að hjálpa fólki að einfalda lífið. Það skilar sér í betra og hamingjusamara samfélagi. Svo er auðvitað alltaf nóg að gera á stóru heimili. Ég er gift og á fjögur börn og elska að vera mamma. Það er svo fjölbreytt, gefandi en oft á tíðum líka erfitt hlutverk.“

Gunna Stella leggur sig fram um að huga að heilsunni og á þessum árstíma hugar hún vel að því að næra líkamann.

„Ég byrja flesta daga á því að drekka búst sem annaðhvort ég eða maðurinn minn býr til. Það er stútfullt af góðri næringu. Ég tek bætiefni sem er gífurlega mikilvægt. Til dæmis D-vítamín og Omega 3. Ég geri Pilates-æfingar heima eins oft og ég get. Mér líður best ef ég næ að gera Pilates 4-5 sinnum í viku. Ég fer einnig í göngutúra og passa upp
á að fá nægan svefn.“

Fjölskyldan á skíðum saman

Stundarðu útivist?
„Ég er ekki þekkt fyrir að vera mikill hlaupari. Þegar ég var krakki og unglingur æfði ég frjálsar íþróttir og keppti einna mest í spretthlaupi. Ég misskildi í kjölfarið hvernig langhlaup virka og þegar ég tók þátt í mínu fyrsta 800 metra hlaupi hljóp ég eins og ég væri að hlaupa spretthlaup og fékk blóðnasir af áreynslu. En ég hef hlaupið langhlaup eftir að ég varð fullorðin en ég verð að viðurkenna að ég finn ekki mikla gleði í því að hlaupa. Þess vegna vel ég að fara í langa og rösklega göngutúra.

Mér finnst yndilslegt að fara í göngutúra í kuldanum vel klædd. Þá fær maður svo mikið súrefni í lungun að dagurinn verður mun betri. Við fjölskyldan erum búin að vera að koma okkur upp skíðabúnaði. Við fórum fyrst með alla fjölskylduna á skíði fyrir tveimur árum. Þá var sá yngsti rúmlega tveggja ára. Það gekk rosalega vel og við ætluðum að verða hin mesta skíðafjölskylda. Mánuði seinna sleit maðurinn minn krossband á körfuboltaæfingu og því varð lítið úr því að við færum öll saman á skíði. Núna í janúar var í fyrsta skipti sem við fórum aftur öll saman á skíði í Bláfjöllum og það var yndislegt. Það var kalt, snjóaði smá. En ég upplifði svo mikið þakklæti. Mér fannst þetta yndislegt og sagði það aftur og aftur í huganum: Þetta er yndislegt.“

Fjölskyldan er farin að skíða saman og segir samveruna úti …
Fjölskyldan er farin að skíða saman og segir samveruna úti einstaka.

Ekki viss um að eitt mataræði henti öllum

Hvernig líður þér í náttúrunni?
„Mér líður rosalega vel í náttúrunni. Ég elska að vera úti þó svo að maður mætti gera meira af því. Það er hinsvegar þannig að kuldi og vetur skiptir ekki máli ef maður er vel búinn. Þegar ég geng um bæinn hér á Selfossi elska ég að fara upp á hólinn í bænum eða inn í skóglendið og upplifa náttúruna. Það er svo mikil kyrrð. Það er svo lífgefandi.“

Hvernig mælir þú með að fólk borði daglega?
„Ég er á þeirri skoðun að eitthvert eitt mataræði henti ekki öllum. Hver og einn þarf að finna hvað hentar honum best. Ég er hrifin af kenningu dr. Peter J. D’Adamo sem skrifaði bókina Rétt mataræði fyrir þinn blóðflokk og ég er sjálf í A-blóðflokki og það hentar mér gífurlega vel að borða lítið af mjólkurvörum, mikið af korni, grænmeti, hnetum og kjöt í hófi. Þeir sem eru í O-blóðflokki eru líklega þeir sem þrífast best á paleo- og keto-mataræði. Það er komið svo mikið af allskonar „kúrum“ að fólk er oft í vandræðum með að vita hvað er
best. En það er samt enginn heilagur sannleikur í þessu.

Ég held að allir þrífist best á því að borða hreinan mat, lítinn sykur og forðast að drekka orkudrykki og gosdrykki sem innihalda sykur og sætuefni. Við þurfum að passa upp á að næra líkama okkar vel. Þau okkar sem eiga dýr passa vel upp á að næra dýrin vel og gefa þeim fóður við hæfi. Við myndum ekki gefa þeim „rusl“.

Við þurfum að læra að bera virðingu fyrir okkur sjálfum og fóðra okkur vel. Ég segi oft við fólk á námskeiðum hjá mér að við þurfum að ímynda okkur að við séum bíll. Til þess að halda orku þurfum við að hafa rétt bensín. Það þýðir ekki að skella dísilolíu á bensínbíl. Þannig að það er ekkert skrítið að við upplifum orkuleysi og slen ef við nærum okkur ekki vel. Ég held að það sé ekkert eitt fullkomlega rétt hvað varðar mataræði en hreinn matur er alltaf bestur. Það er líka gott að halda 80/20 regluna. Það þýðir að það er gott að miða við að 80% af því sem þú borðar sé nærandi og gott fyrir líkama þinn. Ef þú gerir það þá er allt í lagi þó svo að þú borðir minna nærandi eða óhollan mat öðru hvoru.


Það eru þessi 20%. Þetta er rétt eins og ef þú setur óvart dísilolíu fyrir 500-kall á bílinn þinn en nærð að fylla hann af bensíni eftir að þú áttar þig á mistökunum þá mun það ekki hafa
skemmandi áhrif á bílinn. Allt er gott í hófi og þess vegna er mikilvægt að finna jafnvægi á milli þess að borða nærandi mat og óhollari mat.“

Forðast að sofa of lítið
Hvað forðastu að gera heilsunnar vegna?
„Ég forðast að sofa of lítið og borða of mikið af mat sem veldur mér orkuleysi. Ég sneiði sem mest hjá mjólkurvörum af því að mjólkurvörur valda mér mikilli þreytu. Ég drekk ekki orkudrykki eða gosdrykki. Undantekningin er ef ég fæ mér hvítöl á jólunum. Ég drekk ekki
of mikið af kaffi (1-2 bollar duga). Ég borða ekki unnar kjötvörur. Ég forðast aðstæður sem hafa neikvæð áhrif á andlega líðan mína. Ég horfi ekki á afþreyingarefni sem veldur mér
vanlíðan.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem eiga erfitt með að fara út á veturna?
„Passaðu að eiga góðan útivistarfatnað og ef það er erfitt að fara út í göngutúr, hugsaðu þá um hvernig þér mun líða eftir á. Þá er oft gott að loka augunum. Hugsa, hvernig mun mér líða þegar ég kem aftur heim og bera það svo saman við tilfinninguna ef þú færir ekki í göngutúrinn. Í flestum tilfellum hjálpar þessi æfing manni til að koma sér á fætur, drífa
sig í útifötin og fara út. Þú sérð ekki eftir því!“

Gunna Stella heilsumarkþjálfi, sérhæfir sig í að hjálpa einstaklingum að …
Gunna Stella heilsumarkþjálfi, sérhæfir sig í að hjálpa einstaklingum að minnka hraðann, njóta lífsins og finna leiðir til að einfalda lífið. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert