„Er bæði týnd og fundin“

Tónlistarkonan Hera Hjartadóttir segir áhugavert að ferðast til Nýja Sjálands.
Tónlistarkonan Hera Hjartadóttir segir áhugavert að ferðast til Nýja Sjálands. mbl.is/Saga Sig

Hera Hjartardóttir tónlistarkona hefur verið að vinna að nýrri plötu í þrjú ár, sem er tíunda plata hennar og sú fyrsta sem gefin er út á vínil. Hún hefur ferðast mikið undanfarin ár en er nú nýkomin aftur til Íslands frá Nýja-Sjálandi. 

Hún stendur á tímamótum í dag. Segist vera bæði týnd og fundin, en finnst gott að vera komin aftur heim þótt hún viti ekki hvert framtíðin muni bera hana. 

„Það er yndislegt að búa á Nýja-Sjálandi og svo margt sem er svipað þar og á Íslandi. Ég get nefnt dramatíska náttúru. Fólkið er yfirleitt afslappað en hásumar er í kringum jólin og það kallast „silly season“ þar sem allt er í gangi; bæði strandferðir og lautarferðir. Það er líf og fjör í bænum og fullt af viðburðum um jólin. Síðan eru áramótin og sumarfríin ofan á allt saman.“

Foreldrarnir vildu prófa eitthvað nýtt

Hera segir ástæðu þess að hún flutti fyrst út til Nýja-Sjálands þá að foreldrar hennar vildu prófa eitthvað nýtt.

„Árið 1991 ákváðu foreldrar mínir að flytja utan og búa á allt öðrum stað í eitt ár. Þau þekktu fólk frá Nýja-Sjálandi sem hafði verið að vinna á Íslandi og pabbi fékk vinnu í gegnum þau. Þá var ég sjö ára og það var mikið ævintýri að vera á leiðinni hinum megin á hnöttinn. Ég sá fyrir mér að fuglarnir myndu þá fljúga á hvolfi og man hvað það var skrýtið að svanirnir væru svartir.

Mamma pakkaði aðallega stuttbuxum, sumarfötum og bókum fyrir okkur, á leið í sólina, en svo kom vetur á Nýja-Sjálandi og við fórum stundum í öllum fötunum að sofa. Ég man svo vel eftir kuldanum. Húsin eru ekki jafn vel einangruð og á Íslandi og því finnur maður mikinn mun á sumri og vetri. Sólin þar er hæst í norðri og þar er kaldur sunnanvindur frá suðurhveli. Christchurch var talin breskasta borg heims um það leyti sem við fluttum þangað og fjölmörg hús byggð sem sneru í sömu átt og á Englandi, margar götur eru nefndar eftir stöðum og fólki frá Englandi. Við bjuggum á Mountbatten street í New Brighton fyrst þegar við komum til Nýja-Sjálands.

Þetta voru 10 mánuðir á Nýja-Sjálandi árið 1991, en afi dó skyndilega og við pökkuðum saman og komum aftur til Íslands til að vera með fjölskyldunni. Árið 1995 fluttum við svo alveg út, þá voru mamma og pabbi komin með heimþrá til Nýja-Sjálands og pabbi fór aftur í sömu vinnuna þar, þá var ég 12 ára.“

Var skrýtna stelpan frá útlöndum og lenti í einelti

Heru fannst umhverfið skemmtilegt þótt lífið hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir hana. 

„Ég man hvað þetta var skemmtilegt umhverfi fyrir barn og hvað við ferðuðumst mikið um suðureyjuna, eyddum sumarfríum á ströndinni syndandi með selum og snorklandi eftir paua-skeljum. Það var mikið af fjöllistafólki í vinahópi mömmu og pabba, þar á meðal Arabella Churchill, barnabarn Winstons Churchills, og maðurinn hennar hann Haggis. Ég fór svo til þeirra og spilaði á Glastonbury-hátíðinni í Bretlandi mörgum árum seinna.

Ég fékk alveg einstaklega mikinn stuðning frá foreldrum mínum, sem 15 ára unglingur var ég farin að semja ljóð og lög og byrjuð að taka upp plötu í tölvunni heima með pabba. Jafnaldrar mínir voru ekki nógu gömul til að koma á staðina sem ég var að spila á en mamma og pabbi fóru með mér út um allt. Ég kom fram á kabarettkvöldum á bar sem heitir Wunderbar í Lyttelton, ásamt dragdrottningum og Elvis-eftirhermum. Fólkið á staðnum var margt rússneskir sjóarar og alls konar skrautlegt og skemmtilegt fólk. Sem dæmi kenndi töframaðurinn Mister Moon mér ýmislegt í framkomu. Eins spilaði ég á mörgum „open mic“-kvöldum hér og þar í borginni. Þetta var í rauninni besti skóli sem hægt er að hugsa sér og er ég endalaust þakklát fyrir þetta ótrúlega uppeldi. Ég fór líka í leiklist og tók þátt í mörgum skemmtilegum sýningum.

Á sama tíma fannst mér ég ekki passa alveg inn í skólakerfið. Ég lenti í einelti, var skrýtna stelpan frá útlöndum og leið því oft illa. Ég borðaði nestið mitt ein inni á klósetti. Krakkar geta verið grimmir.

Hera segir að hún hafi aldrei passað inn í skólakerfið …
Hera segir að hún hafi aldrei passað inn í skólakerfið sem barn í Nýja Sjálandi og hafi lennt í m.a. einelti. mbl.is/Saga Sig

Ég fór í kaþólskan skóla þar sem allir gengu í skólabúningum sem er algengt í mörgum skólum á Nýja-Sjálandi. Mínar bestu minningar frá staðnum eru rétt áður en ég kláraði en þá var ég farin að halda reglulega tónleika utan skólans og spilaði svo oft á tröppunum í frímínútum í sólinni.“

Hvar bjóstu?

„Ég bjó í Christchurch, á suðureyjunni. Sú borg hefur lent í hræðilegum hamförum. Í febrúar árið 2011 varð svakalegur jarðskjálfti og 80% af miðbænum hrundu. Það breytti í rauninni öllu; í kjölfarið kynntist ég góðum hópi af tónlistamönnum og listamönnum. Ég tók þátt í og skipulagði fjölda viðburða og tónleika utan kassans þar, en við misstum flesta tónleikastaðina og borgin var í molum.

Þar mynduðust hins vegar sterk tengsl. Við stofnuðum fyrirtækið Fledge sem var með það að markmiði að halda utan um og skapa tækifæri fyrir listamenn og tónlistarmenn í borginni. Ég vann þá mikið í samvinnu við Christchurch City Council og Creative New Zealand-listastofnunina sem var einnig að reyna að halda listinni lifandi. En margir fluttu á brott eftir jarðskjálftana.“

Þegar kemur að uppáhaldsstöðum hennar í borginni kemur fjölmargt upp í hugann. 

„Hagley park er garður í miðri Christchurch, stærsti innanbæjargarður á Nýja-Sjálandi. Þar er svo fallegt að ganga og skoða meðal annars rósagarðinn og Monkey Tree, sem hægt er að klifra upp. Grenið liggur utan við tréð eins og veggir og það er algjört undraland að ganga inn í tréð.

Þar er líka hægt að sigla á Avon river í gegnum garðinn. Ég mæli með að finna „punting on the avon“, þar sem manneskja sem er klædd í fatnað frá Edwards-tímanum ýtir flatbotna bát með töng. Mjög falleg og rómantísk upplifun. 

Mér þykir líka alltaf vænt um ströndina í Brighton og Sumner, og Port Hills þar sem er hægt að ganga og horfa yfir Christchurch.

Undanfarin þrjú ár hef ég líka eytt miklum tíma í litlum bæ sem heitir Akaroa sem er í um það bil 90 mínútna ökufjarlægð frá Christchurch. Akaroa er sjávarþorp þar sem flestar göturnar heita frönskum nöfnum. Umhverfið þar er rólegt og fallegt, fuglasöngur sem er engu líkur. Þar er allt fullt af kaffihúsum og veitingastöðum. Litlir höfrungar synda í fjörunni nálægt bænum. Þar þekkjast allir og bærinn tekur á móti mörgum skemmtiferðaskipum á hverju sumri svo þar er fólk frá öllum heimshornum.“

Hvernig myndir þú skipuleggja draumadag í borginni?

„Ef það væri um helgi myndi ég byrja daginn á að heimsækja Riccarton Bush Market þar sem hægt er að smakka alls konar góðan mat og kaupa ferska ávexti og grænmeti beint frá bændum. Þar er einnig oft lifandi tónlist á sumrin og gott að setjast í grasið og bara njóta lífsins.

Svo myndi ég fara í Hagley Park í göngutúr og bátsferð. Ganga um í miðbænum þar sem mikið er af nýjum veitinga- og kaffihúsum. Ég mæli einnig með að fara á sýningu í Isaac Theatre Royal og ganga svo niður New Regent Street þar rétt hjá. Enda síðan á litlum vínbar sem heitir Vesuvios sem býður oft upp á lifandi tónlist.

Ef ég mætti síðan tvöfalda þennan draumadag myndi ég mæla með að keyra til Akaroa. Borða morgunmat á veitingahúsi sem heitir Ma Maison. Hann býður upp á æðislegt útsýni yfir sjóinn. Síðan myndi ég fara í siglingu að skoða eða synda með höfrungum. Allt í kring eru skemmtilegar gönguferðir (e. Arts Trail) með alls konar skúlptúrum og listaverkahúsum. Ef dagurinn mætti vera langur myndi ég einnig heimsækja Shamarra Alpacas-garðinn og bóka svo gistingu á Treecrop farm, sem er yndislegur staður þar sem einfaldleikinn er í fyrirrúmi, kertaljós í náttúrunni og hægt að fara í bað úti þar sem kindur ganga um í garðinum. Úrvalið er endalaust af góðum mat en Mandala er nýtt veitingahús sem ég get hiklaust mælt með.“

Alltaf verið að vara við veðrinu

Hera er ánægð með að vera komin aftur heim þótt hún viti ekki hversu lengi hún mun dvelja í landinu.

„Þetta er fyrsti veturinn sem ég hef upplifað án þess að ferðast í mörg ár. Það er skrýtið að sjá sólina svo lítið núna en í sumar fann ég fyrir svo mikilli orku. Mér finnst svo skemmtilegt að ferðast um landið og spila og sjá nýja staði í náttúrunni. Ég gekk Laugaveginn í fyrsta skiptið í sumar og það var alveg ótrúlegt. 

Hvers saknaðir þú mest við Ísland þegar þú bjóst úti?

„Fólksins og náttúrunnar, hef líka saknað þess að komast í íslenska hönnun, sjónvarpsefni, bækur og kvikmyndir. Ég elska íslenskt nammi og lakkrís!“

Ertu búin að setja þér markmið fyrir árið 2020?

„Næst á dagskrá hjá mér er að fara á Vestfirðina, þar sem ég er að spila á Þingeyri 23. janúar, á Suðureyri 24. janúar og Ísafirði 25. janúar. Þetta verður fyrsta skiptið sem ég kem vestur í 11 ár og ég hlakka mikið til. Það er reyndar endalaust verið að vara mig við veðrinu, en vonandi gengur það yfir með tímanum. Seinna mun ég fara til Bandaríkjanna að spila á SXSW-tónlistarhátíðinni í Austin, Texas. Það verður í mars í kjölfar þess að nýja platan mín kemur út. Ég hef verið að vinna með Barða Jóhannssyni sem framleiðir efnið mitt og spilar. Þetta hefur verið æðislegt ferli og mér finnst hálfótrúlegt að tónlistin sé að koma út. Það verða 11 lög á plötunni sem er tekin upp á Íslandi, Nýja-Sjálandi og í Bandaríkjunum. Lokahnykkurinn í vinnslu efnisins var í Englandi. Það koma fjölmargir listamenn að henni og ég er ótrúlega þakklát fyrir þessa útgáfu, en þetta er tíunda platan mín og sú fyrsta sem kemur út á vínil.“

Hera segir að uppeldið sem hún fékk hafi að mörgu …
Hera segir að uppeldið sem hún fékk hafi að mörgu leiti verið einstakt, en frekar óhefðbundið. mbl.is/Saga Sig
mbl.is