„Býr í Ósló en heimsækir Ítalíu reglulega“

Karl R. Lilliendahl setti upp áhugaverða ljósmyndasýningu á Mokka kaffihúsi …
Karl R. Lilliendahl setti upp áhugaverða ljósmyndasýningu á Mokka kaffihúsi haustið 2019. mbl.is/Edda Jónsdóttir

Ljósmyndarinn Karl R. Lilliendahl hefur sérstakt auga fyrir einlægum augnablikum. Hann er búsettur í Ósló í Noregi um þessar mundir en fer reglulega til borga eins og Bolognia,  Berlínar og Parísar svo dæmi séu tekin. Karl þykir hafa einstakt auga fyrir einlægum augnablikum eins og sjá má á ljósmyndum sem hann hefur tekið í gegnum árin. 

„Þótt ég starfi aðallega við framleiðslu, ráðgjöf og markaðssetningu um þessar mundir fyrir norsk fyrirtæki þá er myndavélin aldrei langt frá mér. Ég hef tekið ljósmyndir frá því fyrir fermingu og var alltaf eins og grár köttur hjá móðurbróður mínum sem var blaðaljósmyndari. Það var svo eftir að ég bjó á Ítalíu sem ljósmyndaferillinn minn tók stakkaskiptum. Ég öðlaðist nýja sýn á lífið í gegnum linsuna veturinn 2006-2007 þegar við fjölskyldan bjuggum í Bologna á Norður-Ítalíu. Þar kynntist ég ítalska mannlífinu vel og ferðast um landið til að taka myndir. Allar götur síðan höfum við heimsótt Ítalíu reglulega. Þegar ég er þar birtast fleiri myndir fyrir framan mig en annars staðar og ég upplifi oft að ég sé staddur í gamalli bíómynd eftir Bernardo Bertolucci þar sem tímalausar persónur birtast óvænt og ljósmynd fæðist í kjölfarið.

Ég hef líka verið töluvert í Berlín á undanförnum árum. Þar nýt ég þess að ganga um og taka myndir enda borgin falleg og mannlífið fjölskrúðugt.“

Óslóarbúar almennt vinalegt fólk

Karl segir gott að búa í Ósló, að umgjörðin utan um borgina og bæjarstæðið sé falleg. 

„Borgin stendur innst við Óslóarfjörðinn og er umkringd fjöllum. Þar er því stutt í náttúruna. Að mínu mati er Ósló allt í senn falleg, margbreytileg og fjölþætt. Ósló skartar meðal annars spennandi arkitektúr auk þess sem almenningsgarðarnir eru einstaklega fallegir. Óslóarbúar eru almennt vinalegt og hjálplegt fólk.“

Áttu þér uppáhaldsstað í borginni?

„Það eru margir staðir sem gaman er að heimsækja á ferð sinni um Ósló. Mér finnst til dæmis gaman að ganga um í Grünerløkka. Það hverfi minnir mann stundum á Berlín, þar sem mikið er af búðum með tímabilsfatnaði og í raun alls konar litlar verslanir og kaffihús.  

Ég bý miðsvæðis í Ósló í grennd við Aker brygge og finnst það skemmtilegt umhverfi. Svæðið í kringum höfnina hefur byggst upp á undanförnum árum og þar er meðal annars að finna flott söfn og gallerí.

Meðal annars Galleri Fineart sem hefur myndirnar mínar til sölu. Á sumrin nýt ég þess að sigla um Óslóarfjörðinn, fara á milli litlu eyjanna og njóta náttúrunnar.“

Ólík matarmenning sem fylgir fólkinu

Karl er á því að saga Óslóar og ekki síst innflytjendur hafi sett hvað áhugaverðast mark sitt á borgina. 

„Fólk flytur með sér matarmenninguna. Mér finnst alltaf gott að fá mér ekta miðausturlenskan kebab og svo er alltaf gott að fá sér pizzu á Olivia sem er ítalskur staður með útibú bæði á Aker brygge og við Bogstadveien, sem margir þekkja.“

Hvernig myndir þú eyða draumadegi í borginni?

„Ég myndi vera með fjölskyldunni þar sem við myndum ganga um borgina, fara á útimarkaði, kaffihús og njóta samverunnar saman.“

Ljósmyndir Karls frá Bolognia hafa verið vinsælar víða. Ekki síst þær sem sýna sterklegar konur í amstri dagsins. 

Spurður um áhuga hans á að sýna þann veruleika í ítölsku samfélagi segir hann:

„Mér finnst mikilvægt að sýna þessar flottu reynslumiklu konur og minna á hversu miklu þær hafa skilað til samfélagsins sem oft er svo karllægt í hugsun.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert