Lyktin af súrmatnum var vandamálið á Kanarí

Björn Viðar Ásbjörnsson segir erfitt að flytja matvörur á milli …
Björn Viðar Ásbjörnsson segir erfitt að flytja matvörur á milli landa núna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorramatnum sem komst ekki í gegnum tollinn á Kanarí var fargað vegna lyktar. Bjóða átti upp á þorramatinn á þorrablóti Íslendingafélagsins á Gran Canaria í kvöld. Björn Viðar Ásbjörnsson, sölu- og markaðsstjóri DHL, segir erfitt að flytja matvæli á milli landa akkúrat núna vegna kórónuveirunnar, Covid-19.

Björn Viðar segir að ástæðan hafi ekki verið ófullnægjandi gögn af hálfu DHL, þegar Ferðavefur mbl.is leitaði svara. Björn Viðar segir málið ótrúlega leiðinlegt og fylgdist hann vel með þróun mála í gær.

„Við getum því miður ekki stýrt tollayfirvöldum í hverju landi fyrir sig. Það eru mismunandi tollareglur. Eins og ástandið er núna er erfitt að senda matvæli,“ segir Björn Viðar og á þar við veiruna Covid-19. Sending Íslendingafélagsins á þorramatnum var á röngum tíma og röngum stað, eins og Björn Viðar kemst að orði. 

DHL ber ekki ábyrgð á matarsendingum og segir Björn Viðar að fyrirtækið leitist ekki eftir því að senda matvæli sem getur verið mjög flókið vegna síbreytilegra laga. Fyrirtækið stoppar þó ekki slíkar sendingar. 

„Við erum að senda kringum jólin og það gengur nánast áfallalaust fyrir sig,“ segir Björn og segir að önnur Íslendingafélög hafi einnig nýtt sér þjónustu þeirra. 

Aðspurður segist Björn Viðar ekki vera með það nákvæmlega á hreinu hvernig samskiptum þjónustudeildar DHL og Íslendingafélagsins hafi verið háttað. Hann segir þó að búið er sé að taka ákvörðun um koma til móts við Íslendingafélagið og endurgreiða sendingakostnaðinn.

Ekki er um ákveðna verklagsreglu að ræða heldur vill fyrirtækið einfaldlega sýna samúð í verki.   

Þorrablót Íslendingafélagsins á Gran Canaria fer fram í kvöld, miðvikdagskvöld. Formaður Íslendingafélagsins sagði í gær að stjórnin ætlaði að gera gott úr málinu og bjóða upp á kjötsúpu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert