Lét höggin dynja á sætinu fyrir framan sig

Karlmaðurinn lét höggin dynja á sæti Wendi Williams.
Karlmaðurinn lét höggin dynja á sæti Wendi Williams. skjáskot/Twitter

Karlmaður um borð í flugi frá Louisiana-ríki til Norður-Karólínu-ríki í Bandaríkjunum lét höggin dynja á sætinu fyrir framan sig þegar konan sem í því sat hallaði því aftur. 

Konan, Wendi Williams, tók upp myndband þar sem sést hvernig maðurinn á bakvið hana lætur höggin dynja á sæti hennar. 

Williams birti myndbandið á Twitter og hafa spunnist umræður um það hvort það megi halla sæti sínu í flugvél. Málið er að sjálfsögðu hitamál og hafa mörg orð fallið í þeirri umræðu. 

Williams segir að höggin hafi byrjað þegar hún hallaði sæti sínu. Hann hafi ekki beðið hana kurteisilega um að rétta sæti sitt við. Williams rétti sæti sitt við þegar hún borðaði en að því loknum hallaði hún sætinu aftur og byrjuðu þá höggin að dynja aftur. 

Á Twitter hefur Williams lýst þessu sem líkamsárás en margir eru ósammála henni og segja karlmanninn hafa verið í fullum rétti að nota sæti hennar sem boxpúða. Þau voru um borð í flugi American Airlines og Williams segir að flugfélagið hafi sagt henni að hún hafi verið í fullum rétti að halla sæti sínu í fluginu.mbl.is