Þetta er ekki bara djammferð

Þórdís Helga Ríkharðsdóttir er 19 ára útskriftarefni í MS.
Þórdís Helga Ríkharðsdóttir er 19 ára útskriftarefni í MS. Ljósmynd/Aðsend

Útskriftarnemar úr Menntaskólanum við Sund fara til Krítar í útskriftarferð í sumar og er ferðin kolefnisjöfnuð. Þórdís Helga Ríkharðsdóttir er í forsvari fyrir útskriftaráð MS. Hún segir umhverfismál skipta miklu máli á meðal nemenda og starfsmanna. 

„Það eru eitthvað í kringum 160-170 manns að koma með í ferðina og er mikill stemmning innan árgangsins fyrir ferðinni,“ segir Þórdís Helga. 

„Kolefnisjöfnun er innifalin í ferðinni okkar þannig að við erum í raun ekki að borga neitt aukalega fyrir hana. Okkur finnst það virkilega jákvætt og fer það eftir umhverfisstefnu skólans en það er stefna skólans að vera leiðandi þegar kemur að vistvænum lífsstíl og fræðslu um þau mál. Það er stefna skólans að stuðla að vistvænum lífsmáta nemenda og starfsfólks. Þetta er gert með öflugri fræðslu fyrir alla, með því að sýna gott fordæmi þegar kemur að heilbrigðum lífsstíl, orkunotkun, úrgangsnotkun, endurvinnslu og aðgerðum til að minnka kolefnisspor okkar. Allar skipulagðar námsferðir nemenda og starfsfólks hérlendis og erlendis eru kolefnisjafnaðar.“

Þegar útskriftarferðin var skipulögð var leitað eftir tilboðum og besta ferðin valin. Þórdís Helga segir að nemendur safni fyrir ferðinni sjálfri og útskriftanemarnir hafi ekki fengið styrki til þess að fjármagna ferðina. 

„Við fengum tilboð frá nokkrum ferðaskrifstofum og voru verðin mjög mismunandi. Ferðin okkar til Krítar er tíu daga skipulögð ferð á vegum Tripical. Ferðin kostaði frá 169.990 fyrir fjögurra manna herbergi og svo hækkaði verðið örlítið ef maður vildi vera í þriggja eða tveggja manna herbergi.“

Boðið er upp á dagsferð til Santorini.
Boðið er upp á dagsferð til Santorini. Ljósmynd/Thinkstock

Eru einhverjar hefðir í útskriftarferðum MS?

„Það eru í raun engar hefðir í útskriftarferðum MS en það mun margt vera í boði á vegum ferðaskrifstofunnar eins og til dæmis dagsferðir gegn aukagjaldi sem munu fara í sölu á næstu vikum. En í dagsferðunum er til dæmis hægt að fara til Knossos, Chrissy Island, Santorini, fjórhjólaferðir, köfunarferðir og ferð í vatnsrennibrautagarð. Svo bjóða þau einnig upp á ferðir í dýraathvörf þar sem allur ágóði af dagsferðinni fer til athvarfsins. Samkvæmt ferðaskrifstofunni er þetta ekki bara djammferð og verða dagsferðir í boði á hverjum degi fyrir þá sem vilja.“

Er eitthvað sem þú ert sérstaklega spennt fyrir að gera í útskriftarferðinni?

„Ég er aðallega spennt fyrir ferðinni í heild og að fá að skemmta mér með svona stórum hópi af skólafélögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert