Í 8 mánaða ferðalag með örstuttum fyrirvara

Íris Ösp Heiðrúnardóttir, ferðalög.
Íris Ösp Heiðrúnardóttir, ferðalög. Ljósmynd/Aðsend

Íris Ösp Heiðrúnardóttir ferðast mikið og víða. Hún er jógakennari, myndlistarkona og spilahönnuður. Ásamt því að kynnast nýrri menningu á ferðalögum leggur Íris Ösp, sem ólst að hluta til upp á Grænlandi, stund á ástríðu sína á ferðalögum. Jógaspilið hennar YOGER varð einmitt til í Víetnam í fyrra. 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Í raun eru öll lengri ferðalög til annarra menningarheima eftirminnileg, það eru ferðalögin sem ég læri mest af. Eftirminnilegt er til dæmis þegar ég fór í átta mánaða ferðalag í fyrra með aðeins tveggja vikna fyrirvara, eða þegar ég kynntist Masaai-fólki með því að búa með því í nokkra daga í þjóðgarði í Kenía. 

En að upplifa frekar dramatískan fellibyl á Kúbu er sennilega atvik sem hefur haft mikið að segja. Við Kaali, kærastinn minn, fórum til Kúbu í september árið 2017. Upprunalega var planið að vera þar í um það bil mánuð, spreyta okkur á spænsku ásamt því að ferðast um og kynnast landi og þjóð. Eftir einungis viku í Havana fengum við síðan þær fréttir að fellibylur, sem hafði fengið nafnið Irma, væri á leiðinni svo við þurftum að finna okkur öruggari gistingu í flýti og koma okkur í skjól. Í staðinn fyrir að ferðast um og skoða fallegar strendur og bæi vorum við því föst í Havana í lengri tíma en við ætluðum okkur. Það varð hins vegar til þess að við náðum að kynnast borginni rosalega vel og taka þátt í smá uppbyggingu á borginni út af eyðileggingunni sem fellibylurinn olli. Á meðan á öllu þessu stóð biðu fjölskyldur okkur heima með hjartað í buxunum því við vorum náttúrulega net- og sambandslaus í nokkra daga.“ 

Húsið sem Íris Ösp og Kaali bjuggu í á Kúbu.
Húsið sem Íris Ösp og Kaali bjuggu í á Kúbu. Ljósmynd/Aðsend
Kúba eftir Irmu.
Kúba eftir Irmu. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Búdapest og París eru tvær uppáhaldsborgir. Þær eru rosa ólíkar en uppfylla báðar mínar ferðaþarfir án þess að ég þurfi að ferðast lengi og langt. Ég hef ferðast nokkrum sinnum til beggja borga. París virðist alltaf ætla að koma mér á óvart og í hvert skipti sem ég heimsæki París verð ég meira ástfangin, finn fleiri litla leynistaði í borginni og verð síðan alltaf jafn hissa að hitta „Parísarbúann“ í sjálfri mér — fáguð og fansí! Í Búdapest eru allir mínir uppáhaldsveitingastaðir og eru þeir út af fyrir sig nóg ástæða til að fljúga þangað þó það væri ekki fyrir eina kvöldstund. Ég hef upplifað bæði sumar og vetur í Búdapest og er hún eins og tvær ólíkar borgir að vetri og sumri til.“ 

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Djúpavík á Ströndum býr yfir leyndardómum og ofurkröftum. Ég féll algjörlega kylliflöt fyrir staðnum þegar ég fór þangað fyrst. Þar fæddist sá draumur að ég myndi koma þarna einhvern veturinn, alein, og skrifa heila bók. Kannski rætist sá draumur einhvern tímann.
Ég hef ekki farið aftur í nokkur ár en ég lofaði sjálfri mér að stoppa lengur næst þegar ég fer.“

Íris Ösp með litlum vinkonum í Egyptalandi.
Íris Ösp með litlum vinkonum í Egyptalandi. Ljósmynd/Aðsend

Besti maturinn á ferðalagi?

Banh-mi, víetnamskar samlokur, mmm! Egypskur matur kom mér líka á óvart og ég elska líka allraþjóða dumplings. Ég elska að smakka nýjan mat og ferðast rosa mikið til nýrra landa nánast eingöngu til að smakka nýjan mat. Ég elska að smakka götumat á stöðum sem ég skil ekki tungumálið og finna veitingastaði sem bjóða ekki upp á enskan matseðil en „wine og dine á líka vel við mig. Eina reglan er að borða bara ítalskan mat á Ítalíu.“

Í Víetnam.
Í Víetnam. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Ég man í raun ekki eftir neinu sérstöku menningarsjokki þannig séð. Ég reyni að búa mig vel undir ferðalög, þótt ég hafi lítinn tíma til. Hins vegar upplifði ég smá sjokk þegar ég kom til Grænlands fyrst, árið 2009. Þar bjó ég í litlu þorpi sem unglingur og fannst erfitt að horfa upp á fullorðið fólk takast á við vandamálin sín á þann hátt sem ég hafði ekki sjálf séð á Íslandi. Ég held hins vegar að sú reynsla hafi kennt mér að heimsækja nýja staði með opnum hug.

Ég fæ reyndar alltaf hálfgert menningarsjokk þegar ég kem aftur til Íslands eftir að hafa verið í einhvern tíma á ferðalagi. Hraðinn og asinn í umhverfinu á Íslandi og hvernig fólk talar til og um hvert annað.“ 

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Þegar við dvöldum með Masaai-ættbálk í Kenía vorum við ekki á neinu lúxushóteli heldur þvert á móti. Í raun var það bara flugnanetið fyrir ofan rúmið okkar og moldarveggir sem voru okkar helsta vörn fyrir öðrum lífverum. Eina nóttina vöknuðum við við það að hýenur voru að slást beint fyrir utan húsið okkar. Við áttuðum okkur eiginlega ekki á hættunni fyrr en daginn eftir þegar við vöknuðum og heimamenn enn að jafna sig eftir átök næturinnar.“ 

Íris Ösp með Masaai-börnunum í þorpinu í Kenía.
Íris Ösp með Masaai-börnunum í þorpinu í Kenía. Ljósmynd/Aðsend
Fyrir utan húsið okkar í Kenía.
Fyrir utan húsið okkar í Kenía. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Heyrnartól, YOGER-spilastokkur, góð bók og súdókú. Reyndar er nauðsynlegt að taka varsalva með en ég virðist samt alltaf gleyma því.“

Íris Ösp segir jógaspilin Yoger ómissandi í flugvélina.
Íris Ösp segir jógaspilin Yoger ómissandi í flugvélina. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig dreymir um að heimsækja Norður-Kóreu og Sádi-Arabíu og fara til þeirra landa sem stangast á við mínar pólitísku skoðanir. Mig hefur líka alltaf langað að taka Síberíulestina og er í raun smá hissa að ég hafi enn ekki látið verða að því. Rosa hátt á listanum er síðan Suðurpóllinn því hvað er betra en stórar langar ísbreiður, mörgæsir og algert tímaleysi?“

Hvaða ferðalög eru á dagskrá?

„Ég er um þessar mundir að plana árlega land-art ferð með mömmu minni en í þetta skiptið ætlum við til Króatíu að hitta fleiri náttúru listamenn og skapa með þeim. Síðan er ég boðin í bæði fermingu og brúðkaup á Suður-Grænlandi í júní svo það verður notalegt að komast þangað að hitta fjölskyldu og vini en ég hef ekki farið til Grænlands síðan 2018 sem er óvanalegt fyrir mig.

Ég setti mér síðan það markmið að bæta við mig meiri jóga reynslu í ár og að læra að nudda, það langar mig að gera í Indlandi og Nepal svo ætli það sé ekki næsta langa ferðalag?“ 

Íris og Kaali sem er grænlenskur í grænlenskum þjóðbúningum í …
Íris og Kaali sem er grænlenskur í grænlenskum þjóðbúningum í brúðkaupi á Grænlandi árið 2018. Íris bjó á Grænlandi á árunum 2009 til 2016. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is