Ítalskur bær býður barnafjölskyldum lægri leigu

Bjóða lága leigu fyrir barnafjölskyldur.
Bjóða lága leigu fyrir barnafjölskyldur. Ljósmynd/Teora

Bæjaryfirvöld í bænum Teora í Campania á Ítalíu bjóða nú barnafjölskyldum fría leigu í tvö ár vilji þær flytja til bæjarins. 

Þetta er ekki fyrsti bærinn á Ítalíu sem reynir að laða til sín fleiri íbúa, en nokkur fjöldi fámennra bæja víða um Ítalíu hefur boðið húsnæði gegn lágu gjaldi til þeirra sem vilja flytja til bæjarins. 

Fyrirkomulag Teora er frábrugðið en í öðrum bæjum þar sem krafist er þess að fólk eigi börn áður en það sækir um og að fólk búi raunverulega á svæðinu allan ársins hring. Þetta er gert til þess að sporna við því að fólk kaupi hús á lágu verði til þess að nota þau sem sumarhús.

Þeir sem vilja nýta sér tilboð Teora munu fá 150 evrur á mánuði í tvö ár frá bænum til að greiða leigu. Vilji þeir heldur kaupa hús býður bærinn 5 þúsund evrur upp í þann kostnað. 

„Ég trúi ekki á það að selja tóm hús fyrir 1 evru án kröfu um að fólk búi í bænum,“ sagði Stefano Farina, bæjarstjóri Teora, í viðtali við CNN Travel

„Það fólk kemur bara í nokkra mánuði á ári sem ferðamenn. Það er ekki lausnin við vandamálinu. En að hefja búsetu í bænum og skrá börnin í skólann, það blæs nýju lífi í bæinn,“ sagði Farina. 

Stór jarðskjálfti reið yfir bæinn á 9. áratug síðustu aldar sem olli því að fjöldi fólks flutti úr bænum. Eftir skjálftann voru aðeins 1.500 íbúar eftir á svæðinu. Íbúafjöldinn hefur ekki náð sér síðan og samkvæmt Farina deyja um 20 manns í bænum á ári en aðeins tvö börn fæðast þar að meðaltali.

„Ég vil snúa þessari neikvæðu þróun við. Börnin eru framtíð okkar, nýjar fjölskyldur verða máttarstólkarnir í okkar smækkandi samfélagi, og því hvetjum við fólk með mörg börn til að sækja um,“ sagði Farina.

Greiðslurnar frá bænum dekka leiguna ekki alveg fyrir nýja íbúa en meðalleiguverðið er um 200 evrur á mánuði. Því yrði leigan fyrir barnafjölskyldurnar aðeins 50 evrur á mánuði. 

Ólíkt eignunum sem boðnar eru fyrir 1 evru víða annars staðar á Ítalíu eru húsin í Teora í góðu ásigkomulagi. 

mbl.is