Talinn hryðjuverkamaður eftir að hann rakaði sig

Rob Allem rakaði sig í fluginu og olli þar með …
Rob Allem rakaði sig í fluginu og olli þar með hræðslu á meðal farþega. Skjáskot/Instagram

Hinn breski Rob Allam skaut farþegum skelk í bringu þegar hann rakaði sig um borð í flugvél á leið til Bandaríkjanna. Hinir farþegarnir töldu hann vera hryðjuverkamann þegar hann fór inn á baðherbergi með bakpoka og var þar í drjúga stund.

Allam var á leið frá London til bandarískrar borgar í vinnuferð. Flugferðin var um 9 tímar svo Allam ákvað að nýta tímann í að gera sig fínan um borð og rakaði skegg sitt inni á baði. 

Eftir um fimm mínútur var bankað á hurðina og hann kallaði fram að hann myndi haska sér. 

„Eftir nokkrar mínútur í viðbót var aftur bankað svo ég opnaði fram til að athuga og þar voru þrír flugþjónar, tvær konur og einn karl, með áhyggjusvip. Á þeim tímapunkti fannst mér bara fyndið að þau væru með áhyggjusvip á meðan ég var bara að hafa mig til,“ sagði Allam í viðtali við The Sun. 

Hann spurði þau af hverju þau hefðu bankað og þá sögðu þau að annar farþegi hefði séð hann fara inn á baðherbergið með tösku. Allam segist ekkert hafa fattað hvað var málið svo hann hló það bara af sér. 

„Ég meina þau sögðu að farþeginn hefði tekið eftir því að ég væri búinn að vera lengi þarna inni en sumir taka sér hálftíma í að kúka,“ sagði Allam. Hann og flugþjónarnir athuguðu hvort hin klósettin væru laus og fyrst þau voru það þá ákvað hann að klára í rólegheitum inni á baði.

Þegar hann var að klára að pakka aftur í bakpokann sinn var bankað í þriðja sinn. „Ég bað þau að vinsamlegast útskýra hvað ég væri að gera rangt og karlkyns flugþjónninn, sem var eldri maður á sextugsaldri, var mjög kurteis og afsakaði þau. Hann sagði: „Ég vil ekki pirra þig en þau eru hrædd af því þú lítur smá út eins og þú sért af arabískum ættum og þegar einhverjir ætla að fremja hryðjuverk þá þrífa þeir sig mjög vel og raka og klæðast betri fötum“,“ sagði Allam.

Hann var mjög hissa á þessari útskýringu og skildi áhyggjur farþeganna. Hann sýndi þeim svo síma sinn og dagatal þar sem fundurinn var bókaður og tölvupóstsamskipti fram og til baka. Einnig sýndi hann þeim skilaboð frá kærustu sinni sem er búsett í Colorado-ríki.

Allam finnst atvikið fyndið en er þó fegin að það hafi ekki orðið alvarlega en það varð.

mbl.is