Ekki landflótti í verkfallinu

Foreldrar virðast ekki vera að flýja verkföll.
Foreldrar virðast ekki vera að flýja verkföll. mbl.is/Colourbox

Margir foreldrar standa frammi fyrir því að þurfa að drepa tímann heima með börnum sínum vegna verkfalls Eflingar. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals-Útsýnar, segist ekki sjá mikla aukningu á fjölskylduferðum í kjölfar verkfallsins. Fram undan eru þó vetrarfrí grunnskólanema með tilheyrandi ferðalögum fjölskyldufólks. 

Það er ekki óhugsandi að einhverjir foreldrar hafi ákveðið að flýja land í verkfallinu. Þórunn segir til að mynda sífellt fleiri bóka ferðir með stuttum fyrirvara en þegar hún hóf að starfa í ferðaþjónustu. 

Margar fjölskyldur nýta vetrarfrí grunnskóla til þess að ferðast erlendis. 

„Við merkjum alveg vikurnar þar sem eru skólafrí og fólk er að fara utan, í sólina eða á skíði. Fólk fer á þessum tíma og nær sér í vítamín í kroppinn og hefur gaman saman,“ segir Þórunn og segir vetrarfríin vera búin að festa sig í sessi. 

Þórunn Reynisdóttir.
Þórunn Reynisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð hvort hún finni fyrir að fólk sé að halda aftur af sér þegar kemur að ferðalögum í ljósi þess að talað er um lægð í efnahagslífinu segist hún ekki finna fyrir því. 

„Ég held að þetta sé það síðasta sem fólk hættir við. Það hættir við margt annað eins og að endurnýja bílinn, breyta um húsnæði, fá sér nýjar gardínur eða eitthvað svoleiðis. Það fer frekar í sólina. Ég held að það sleppi gardínunum og flotta sófanum og svona, það má bíða,“ segir Þórunn um breyttar neysluvenjur Íslendinga. 

Þórunn segir að forgangsröðunin hafi breyst mikið að þessu leyti síðan hún byrjaði í ferðabransanum. Segir hún að það sé að stimplast inn í Íslendinga að dauðir hlutir skipti ekki máli. Meira máli skipti að verja tíma með fólkinu sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert