Of þungur flugþjónn tapaði máli gegn Malaysia Airlines

Flugþjóninum var sagt upp störfum árið 2017 fyrir að vera …
Flugþjóninum var sagt upp störfum árið 2017 fyrir að vera 1 kílói of þungur. AFP

Flugþjónn sem var rekinn frá Malaysia Airlines fyrir að vera of þungur tapaði máli sínu gegn flugfélaginu, en hann höfðaði mál á grundvelli ólögmætrar uppsagnar. 

Ina Meliesa Hassim, sem hafði unnið fyrir flugfélagið í 25 ár, var um 63 kíló þegar henni var sagt upp árið 2017. 

Samkvæmt reglum fyrirtækisins þarf BMI-stuðull flugþjóna að vera innan heilsusamlegra marka.

Hassim er aðeins 158 sentimetrar á hæð og mátti því í mesta lagi vera 62 kíló til þess að falla innan þess sem talið er vera heilsusamlegt miðað við BMI-stuðulinn. Hún fór í mál við flugfélagið vegna uppsagnarinnar en föstudaginn 14. febrúar var dæmt í málinu og niðurstaðan sú að þetta hafi ekki verið ólögmæt uppsögn hjá Malaysia Airlines.

„Dómurinn er fullviss um að fyrirtækið hafi gefið kröfuhafa fjölda tækifæra til þess að fara að kröfum fyrirtækisins. Og þrátt fyrir ítrekuð tækifæri til að standast þær kröfur hafi kröfuhafa ekki tekist að komast niður í ákjósanlega þyngd,“ segir í dómnum

Malaysian Airlines breytti kröfum sínum um holdafar flugþjóna árið 2015 og var þá þeim flugþjónum sem ekki voru í kjörþyngd samkvæmt BMI-stuðlinum gefið tækifæri til þess að bæta sig.

Til þess að komast niður í ákveðna þyngd var starfsfólk skráð í prógramm og gefnir 18 mánuðir til þess að léttast. Í því fólust meðal annars leiðbeiningar frá lækni og var starfsfólki gert að vera vigtað reglulega á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert