Veiran hefur áhrif á Tom Cruise

Tom Cruise leikur aðalhlutverkið í Mission: Impossible-myndunum auk þess sem …
Tom Cruise leikur aðalhlutverkið í Mission: Impossible-myndunum auk þess sem hann sinnir framleiðsluhlutverki. AFP

Útbreiðsla kórónuveirunnar COVID-19 hefur áhrif á störf kvikmyndastjörnunnar Tom Cruise. Framleiðsla á nýjustu Mission: Impossible-myndinni hefur verið hætt í Feneyjum vegna fjölda tilfella sem hafa greinst á Ítalíu. Tom Cruise leikur aðalhlutverkið í myndunum auk þess sem hann framleiðir myndirnar. 

Talsmaður framleiðslufyrirtækisins Paramount sendi frá sér tilkynningu að því er fram kemur á vef The Hollywood Reporter. Er velferð leikara og annarra sem vinna að myndinni ástæða þess að ákveðið var að fresta framleiðslunni. Er einnig verið að vinna eftir tilmælum frá yfirvöldum á svæðinu. Þarf að breyta þriggja vikna tökuplani vegna veirunnar. 

Tom Cruise var ekki mættur til Ítalíu fyrir tökur en hann mun fara með hlutverk Ethan Hunt í sjöunda skiptið. Leikstjórinn Christopher McQuarrie mun leikstýra næstu mynd en hann leikstýrði einnig myndunum sem komu út árin 2015 og 2018. Áætlað er að myndin sem nú er í vinnslu komi út sumarið 2021. Áttunda myndin á að koma út ári seinna, sumarið 2022. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert