Hótaði að stinga alla um borð

Konan hótaði að stinga alla um borð.
Konan hótaði að stinga alla um borð. SAS

Kona var handtekin eftir að hún hótaði að stinga alla um borð og reyndi að sögn gesta að ráðast á fluglöggæslumann. Fox News greinir frá.

Konan, Dana Mustafa, 27 ára frá Norður-Karólínu-ríki í Bandaríkjunum, var í flugi frá Frankfurt í Þýskalandi til Washington D.C. í Bandaríkjunum 22. febrúar þegar hún var handtekin. 

Hún byrjaði á að kveikja sér í sígarettu inni á einu salernanna í vélinni og við það kviknaði á reykjaskynjaranum þar inni. 

Eftir að flugþjónar sögðu henni að það væri óheimilt að reykja í vélinni og vísuðu henni aftur í sætið sitt reiddist hún og byrjaði að gráta. 

Að sögn flugþjónanna fannst áfengislykt af henni. Hún sagði flugþjónunum að hún væri á leið heim til fjölskyldu sinnar en hún hefði dáið í slysi af völdum ölvaðs ökumanns. Seinna viðurkenndi hún að það væri lygi.

Seinna sást hún labba í átt að klósettunum með kveikjara í höndunum. Þegar flugþjónarnir meinuðu henni aðgang að klósettinu er hún sögð hafa ýtt í einn flugþjónanna og reynt að loka dyrunum á klósettinu. 

Tveir fluglöggæslumenn voru um borð í vélinni og blönduðu sér í leikinn en Mustafa er sökuð um að hafa sparkað í þá og neitað að fylgja fyrirmælum þeirra. 

Þegar búið var að handjárna hana sagði hún samkvæmt málsskjölunum: „Ég ætla að stinga alla um borð. Síðan ætla ég að taka mitt eigið líf. Ég er frá Palestínu! Þannig gerum við þetta.“

Hún á yfir höfði sér 8 ára fangelsisdóm.

mbl.is