Mæðgur slógust um borð

Atvikið átti sér stað um borð í vél EasyJet.
Atvikið átti sér stað um borð í vél EasyJet. AFP

Breskar mæðgur bíða nú eftir að mál þeirra verði tekið fyrir hjá dómara í Manchester í Bretlandi en þær eru sakaðar um að hafa slegist um borð í vél EasyJet í janúar síðastliðnum. 

Vélin var á leið frá Manchester til Agadir í Marokkó 19. janúar þegar atvikið átti sér stað. Mæðgurnar Karin Parkes og dóttir hennar Carrie komu að sögn vitna af stað slagsmálum um borð í vélinni. 

Vélin þurfti að nauðlenda í Casablanca fyrir vikið þar sem mæðgurnar og fleiri farþegar létu ekki að stjórn. 

Báðar neita þær því að hafa verið undir áhrifum áfengis um borð og neitar Karin ásökunum um að hafa ráðist á flugþjón. Annar farþegi, Jonathan Thomas, hefur einnig neitað að hafa verið ölvaður um borð. 

Samkvæmt flugþjóninum Liam Dickson létu mæðgurnar öllum illum látum. „Það var fólk með hávaða aftast í vélinni og ég fór þangað og talaði við þau. Þegar ég var að ganga í burtu heyrði ég einhverja kalla blótsyrði að mér. Ég heyrði á röddinni að það væri dóttirin því ég hafði verið að tala við hana. Ég sagði henni að það væri engin ástæða til að tala svona við mig en hún hafði ekki áhuga á að hlusta á mig, ég sá að hún hafði fengið sér nokkra drykki,“ sagði Dickson í skýrslutöku. 

Hann segir að móðir hennar hafi reynt að hemja hana en seinna var enn meira vesen á þeim og nokkrir pokar af áfengi teknir af þeim. 

„Ég var að reyna að róa alla niður en þá var fólk farið að standa upp og kalla blótsyrði, meðal annars að starfsfólki vélarinnar. Móðirin hlustaði á mig en dóttirin ekki,“ sagði Dickson. 

Ástandið versnaði enn og að lokum brutust slagsmál út í vélinni. Hann óskaði eftir að vélinni yrði lent á næsta flugvelli.

Frétt Independent.

mbl.is