Fjölskylda varð næstum fyrir lest

Fjölskyldan hafði 15 sekúndur til að forða sér.
Fjölskyldan hafði 15 sekúndur til að forða sér. Skjáskot/Youtube

Aðeins nokkrum sekúndum munaði að sjö manna fjölskylda yrði fyrir lest í Pennsylvaniu-ríki í Bandaríkjunum á dögunum. Fjölskyldan var að taka myndir og leika sér á lestarteinunum og hafði aðeins nokkrar sekúndur til að hlaupa í burtu þegar þau urðu vör við lestina. 

Atvikið náðist á öryggismyndavél og hefur verið hlaðið upp á netinu til að vara aðra við að fara út á lestarteina. Á myndbandinu sést að fjölskyldan hafði aðeins 15 sekúndur til að forða sér eftir að þau urðu vör við lestina.

Fjölskyldan sést eyða nokkrum mínútum á teinunum að leika sér en yngsta barnið virðist aðeins vera nokkurra ára gamalt. Eitt eldri barnanna þarf seinna að hlaupa yfir teinana til að bjarga því þegar lestin nálgast óðfluga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert