Eiga lúxusvillur í Grímsnesinu

Systurnar Signý og Sigyn fyrir framan Úlfljótskála.
Systurnar Signý og Sigyn fyrir framan Úlfljótskála.

Sigyn og Signý hafa verið nánast óaðskiljanlegarar frá fæðingu. Þær eru fæddar í Reykjavík með ellefu mánaða millibili árin 1966 og 1967. Þó þær búi sín í hvoru hverfinu eru þær alltaf saman. Þær eiga nokkrar villur í Grímsnesinu, sem þær heimsækja reglulega. Þess á milli leigja þær húsin út og eru bæði Íslendingar sem og útlendingar spenntir fyrir valmöguleikum sem Iceland Luxury Lodges-villurnar hafa upp á að bjóða. Fyrirtækið er einnig með nokkrar lúxusíbúðir í Reykjavík.

„Ég og Friðrik Dagur Arnarson, sem er úr Mývatnssveit, búum í 104, eða Vogahverfinu ásamt þremur af fjórum sonum okkar. Ég tala um þann stað sem mitt hverfi, því þó við höfum flutt oft sem krakkar þá vorum við aðallega í skóla þar og eigum við sterkar taugar þangað. Við höldum einnig tengslum við gamla gagnfræðihópinn okkar úr Vogaskóla,“ segir Sigyn og Signý tekur við: „Við Jón Tryggvason, sem er frá Arnarstapa, fluttum í Hafnarfjörðinn fyrir 20 árum og viljum hvergi annars staðar vera. Á okkar heimili búa tvö af fimm börnum okkar. Við erum að tala fyrir því að fjölskylda og vinir flytjist öll í Hafnarfjörðinn og hefur okkur gengið ágætlega í því til þessa þó Sigyn og fjölskylda séu ennþá ekki komin yfir,“ segir Signý.

Signý og Sigyn hafa verið óaðskiljanlegar frá fæðingu.
Signý og Sigyn hafa verið óaðskiljanlegar frá fæðingu. mbl.is/Kristinn Magnusson

Eins og samlokur frá fæðingu

Það er auðvelt að sjá að systurnar hafa verið eins og samlokur frá fæðingu og gekk jafnvel illa að hafa þær sína á hvorri deildinni í leikskóla sem einungis var reynt einu sinni. Í raun voru þær aldar upp eins og tvíburar og þegar grunnskólinn byrjaði fékk Signý bara að fljóta með Sigyn inn í sex ára bekk.

„Þannig gátum við fylgst að alla grunnskólagönguna. Við vorum nánast eins upp að áttunda bekk. Með sömu klippinguna í sömu fötunum. Þetta er pínulítið fyndið svona eftir á, en okkur fannst þetta algjörlega málið á þessum tíma,“ segja þær og árétta að það hafi aldrei verið í boði á þeirra heimili að rífast og þannig sé vinskapur við hin systkin þeirra þrjú einnig mjög góður og mikill.

Það er því ekki að undra að samvinnan gangi vel.

„Samvinnan gengur eins og smurð vél, þar sem við vitum upp á hár hvað hvor okkar á að gera. Við rífumst aldrei og virðum skoðanir hvor annarrar.

Við hlæjum mjög mikið saman sem gerir þetta ennþá skemmtilegra. Það er alltaf einhver fíflagangur og húmor í gangi hjá okkur, sem ekki allir skilja. En okkur finnst við svakalega fyndnar,“ segja þær og bæta við að þetta sé ástæða þess að þær velja að vinna saman og njóta lífsins á hverjum degi í stað einungis á tyllidögum.

Asíska herbergið í Úlfljótskála er vinsælt herbergi að gista í.
Asíska herbergið í Úlfljótskála er vinsælt herbergi að gista í.

Þegar nóg er komið fáum við eina hugmynd í viðbót

Eiginmenn þeirra systra koma einnig mikið að málunum.

„Þeir vinna mikið með okkur, enda er endalaust viðhald og viðbætur og svo þurfum við öll að undirbúa gestakomur þegar mikið liggur við,“ segir Signý.

Sigyn segir verkin mörg.

„Verkin eru bæði inni og úti. Það þarf að sópa, mála, moka snjó og að skreyta 3 hús fyrir jólin með jólatrjám, seríum og öllu tilheyrandi. Nú svo þarf að snyrta gróður og þannig mætti lengi áfram telja. Síðan er endalaust hægt að breyta og bæta. Í raun má segja að þegar kallarnir okkar halda að nú sé komið nóg, þá fáum við eina hugmynd í viðbót,“ segir hún.

Kemur eiginmönnum ykkar einnig vel saman?

„Já heldur betur. Þeir eru að vísu alveg sinn póllinn hvor en sameinast í fyrirtækinu og auðvitað fótbolta líka,“ segja þær.

Hvað getið þið sagt mér um sveitavillurnar þrjár sem þið leigið út?

„Úlfljótsskálinn er 690 fm villa með 10 herbergjum og jafnmörgum baðherbergjum, SPA, sánu, leikjaherbergi, íþróttaaðstöðu og stóru miðrými. Útivistarsvæðið er síðan með stórum potti og eldstæði. Þarna tökum við á móti stórstjörnum og vinnu- og vinahópum ásamt öðrum sem vilja gera vel við sig og breyta um umhverfi. Skálinn býður líka upp á að haldin séu brúðkaup, stórafmæli og fleira í þeim anda.

Þurrgufan í Úlfljótskála er fallega innréttuð.
Þurrgufan í Úlfljótskála er fallega innréttuð. mbl.is

Húsin okkar við Álftavatn eru minni en þau taka ca. átta gesti í fjórum svefnherbergjum, þar er boðið upp á sömu þjónustu. Þau eru á dýrðlega fallegum stað alveg við vatnið með sandströnd og umvafin gömlum skógi í skjóli fyrir veðri og vindum,“ segja þær.

Samvinna þeirra á þessu sviði byrjaði með því að þau keyptu sér lóð saman í Grímsnesi árið 2003.

„Þá byggðum við okkur sumarbústaði hlið við hlið. Við hönnuðum húsin okkar saman með eiginmönnum okkar.“

Árið 2015 keyptu þau síðan Úlfljótsskála.

„Við systur og makar okkar sáum algjörlega um að innrétta hann sjálf. Við höfum alltaf verið ákveðnar í því að hafa andrúmsloftið þægilegt og óhefðbundið og alls ekki mínimalískt, frekar svona „rustic/royal“. Við höfum keypt mikið af antík- og vintage-húsgögnum og líka keypt húsgögn og listmuni á ferðum okkar erlendis. Þetta hefur verið nokkurra ára ferli sem mun kannski aldrei alveg ljúka. Því það má segja að hönnun sé áhugamál hjá okkur frekar en vinna,“ segir Sigyn.

Borðstofan í Úlfljótskála.
Borðstofan í Úlfljótskála.

Kunna að njóta sín í sveitinni

Þegar kemur að ráðum til að innrétta bústaði úti á landi segir Signý mikilvægt að leyfa hugmyndafluginu að ráða för.

„Og umfram allt annað að hafa umhverfið kósí og praktískt. Maður þarf að gefa sér góðan tíma því hlutirnir gerast ekki á einu bretti,“ segir Sigyn.

Þær systur eru á því að reksturinn í kringum húsin séu gríðarlega skemmtilegur.

„Við höfum kynnst ótrúlega mörgu fólki sem hefur komið og gist hjá okkur. Margir gestanna okkar koma til okkar ár eftir ár. Ein vinkona okkar er til dæmis að koma hingað í fjórða skiptið og í þetta sinn að gifta sig í Úlfljótsskála. Við höfum líka endað í heimsóknum erlendis hjá gestunum okkar. Núna á síðasta ári kynntumst við sem dæmi indverskri fjölskyldu sem kollféll fyrir Íslandi. Þau buðu okkur í heimsókn til Indlands í upphafi nýs árs og er sú vinátta jafnvel að leiða okkur í enn eitt ævintýrið.“

Dreymir ykkur um að búa hluta af ári á þessum stöðum sjálfar í framtíðinni?

„Já, það er algjörlega draumurinn að flytja austur einhvern daginn. Enda ekkert dásamlegra en að vera í sveitinni. Fara í göngutúra, á gönguskíði, horfa á stjörnurnar, henda sér í vatnið og vera í kyrrðinni.“

Fjölskyldurnar reyna eftir fremsta megni að nota alla þá daga sem þau geta í sveitinni.

„Þó það sé alltaf nóg að gera þá kunnum við líka að njóta og hlaða batteríin í sveitinni. Við erum líka miklar félagsverur og erum duglegar að bjóða fjölskyldu og vinum í húsin. Við eigum fjöldann allan af alls konar vinahópum. Það er alltaf mikið að gerast í kringum okkur, svo eru krakkarnir okkar einnig brjáluð í að vera með okkur í sveitinni,“ segja þær.

Þær eru á því að það sé nauðsynlegt að komast út úr bænum og skipta um umhverfi með fjölskyldu, vinum, vinnufélögum eða jafnvel saumaklúbbnum.

„Að okkar mati leita Íslendingar stundum of langt yfir skammt þegar kemur að ferðalögum. Það er ekkert yndislegra en íslensk náttúra og íslenskt vatn. Fyrir utan hvað það er mikið auðveldara að fara í frí þegar það er stutt frá heimilinu. Áhugi landsmanna á því sem við erum að gera er alltaf að aukast. Ekki síst þar sem fólk er að hugsa meira um umhverfismál og ferðalög innanlands að verða vinsælli. Það er jákvæð vitundarvakning að okkar mati.“

Herbergi í Úlfljótskála.
Herbergi í Úlfljótskála.

Ferðalög innanlands ólýsanleg

Þær segja Bandaríkjamenn áhugasama um að gista hjá þeim, en einnig séu Íslendingar að hafa meira samband þar sem þeir hafa áhuga á að halda brúðkaup, stórafmæli eða aðrar veislur í huggulegheitum í sveitinni.

Það er auðséð að heilsan, samvera með þeim sem skipta mestu máli og svo að starfa við eitthvað skemmtilegt er ofarlega í huga þeirra systra.

„Síðan mælum við með því að láta lífið leiða sig áfram með opinn huga. Að lifa í núinu er einnig mikilvægt.

Það sem við gerum í dag, hefur áhrif á framtíðina. Því veljum við að njóta þess sem við eigum. Enda veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.“

Þær segja fjallaloftið og ferðalög innanlands hafa gert ótrúlega mikið fyrir þær.

„Það er erfitt að finna réttu orðin til að lýsa ferðalögum hér innanlands. Ísland er einstakt land, fegurðin er mikil, kyrrðin, hreina loftið og vatnið okkar eitthvað sem erfitt er að finna á öðrum stöðum í heiminum.

Við megum ekki taka Íslandi sem sjálfsögðum hlut, heldur ættum við að læra að staldra við og njóta augnablikanna hér! Erlendir ferðamenn hafa auðvitað haft áhrif hér og við alltaf að finna fleiri áhugaverða hluti sem er í boði að gera um landið.

Í kringum Grímsnesið er fullt af afþreyingu. Hellaferðir eru áhugaverðar, hvort sem það eru manngerðir hellar, hraunhellar eða íshellar. Hestaferðir eru alltaf skemmtilegar, fjallgöngur en einnig fjölbreytilegir veitingastaðir, sundlaugar og náttúrulaugar svo eitthvað sé nefnt.“

Baðherbergi í Álftavík sýnir einstaka hæfileika þeirra systra í að …
Baðherbergi í Álftavík sýnir einstaka hæfileika þeirra systra í að hanna.
Baðherbergið í Álftavík er bjart þar sem ljósar flísar og …
Baðherbergið í Álftavík er bjart þar sem ljósar flísar og ljós eik eru í forgrunni.
Álftavík er bjart og fallegt húsnæði.
Álftavík er bjart og fallegt húsnæði.
Herbergin í Áslundi eru falleg.
Herbergin í Áslundi eru falleg.
Útsýnið úr Áslundi er eins og listaverk. Enda er íslensk …
Útsýnið úr Áslundi er eins og listaverk. Enda er íslensk náttúra að margra mati einstök.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert