Hvernig getum við ferðast með umhverfisvernd í huga?

Skipuleggðu ferðalagið í þaula áður en þú leggur í hann.
Skipuleggðu ferðalagið í þaula áður en þú leggur í hann. mbl.is/Unsplash

Ferðalög verða aldrei umhverfisvæn, af augljósum ástæðum, en ef maður nálgast þau með ákveðnu hugarfari er hægt að minnka sóun og neikvæð áhrif ferðaþjónustu á áfangastaði.

Sem neytendur hafa ferðamenn mikið vald. Ábyrgðin er því í höndum okkar, ferðamannanna, að setja gott fordæmi með því að stunda umhverfisvæna ferðamennsku.

Út frá umhverfissjónarmiði er auðvelt að færa rök fyrir því að best sé að vera bara heima. En mannfólkið er skapað til að flakka um, uppgötva nýja staði, borgir og tungumál. Það sem við getum gert í staðinn er að tala um hvernig við getum minnkað vistspor ferðalaga með því að plana ferðalög betur með umhverfið og áfangastaði í huga.

Augljóslega er best að minnka neyslu. Neysla er alþjóðlegt vandamál og getum við reynt að minnka hana í fríinu jafnt sem heima við. Oft eigum við til að henda skynsemi og mannasiðum út í veður og vind um leið og við lendum í fyrirheitna „frílandinu“.

Hér að neðan eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga fyrir þá sem vilja vera meðvitaðir um umhverfisvernd og ábyrgir ferðalangar í útlöndum.

Flugvélasiðir

Flugfélögin eru komin mislangt í umhverfismálum. Það er ekki upplagt að hefja umhverfisvæna ferðalagið þitt á því að nota einnota hnífapör og plastglös. Við getum sýnt gott fordæmi, mætt með eigin glös og bolla og ferðahnífapör. Munum líka eftir heyrnartólunum okkar.

Veldu umhverfisvænni ferðamáta

Hérna flækjast málin fyrir hinn hefðbundna íslenska ferðamann. Vissulega er hægt að taka Norrænu yfir Atlantshafið en staðreyndin er sú að við Íslendingar treystum verulega á flugvélar. Í okkur rennur flakkarablóð. Við höfum tilhneigingu til að fara í útrás, skoða og upplifa. Fordæmi okkur enginn fyrir það. Við getum þó takmarkað flugið við einn legg. Reyndu að forðast það að fara yfir stórt landsvæði, ferðastu heldur um á hægari hraða. Ferðastu með lest frá lendingarstað og tileinkaðu þér hæga ferðamennsku (slow travel). Það þýðir að þú eyðir meiri tíma á hverjum stað og ferð til færri staða. Það gefur þér betri tilfinningu fyrir hverjum stað og betri upplifun á menningunni þar.

Reyndu að labba eða hjóla um í stað þess að leigja bíl. Víða eru nú þegar til staðar góðar almenningssamgöngur svo sem lestir og strætisvagnar.

Borðaðu á „lókal“ stöðum sem notast við hráefni úr umhverfinu og eru reknir af heimamönnum. Ekki alltaf ódýrasti kosturinn og það krefst eilítillar rannsóknarvinnu. Þó oftast þess virði.

Veldu áfangastaðinn vel

Ennfremur hefur val á áfangastað mikil áhrif á kolefnisfótspor þitt. Veldu stað sem er ekki ýkja langt frá heimalandinu. Sæktu heim staði sem eru ekki yfirfullir af ferðamönnum, þar sem heimamenn eru orðnir þreyttir og gramir á veru þinni. Forðastu staði þar sem of margir ferðamenn hafa skapað veruleg vandamál fyrir heimamenn, t.d. Feneyjar.

Kannaðu gistinguna fyrirfram

Ef þú ætlar að gista á hóteli, veldu stað sem er annt um umhverfið. Leitaðu eftir stöðlum svo sem Rainforest Alliance eða Global Sustainable Tourism Council. Best er ef eigendurnir eru heimamenn frekar en stór erlend keðja svo þú vitir að tekjurnar renni til samfélagsins á svæðinu. Skoðaðu líka aðra kosti svo sem húsaskipti eða útilegur.

Hagaðu þér eins og innfæddur

Sýndu heimamönnum virðingu með því að virða og fara eftir siðum þeirra og háttum. Talaðu við fólkið þar sem þú ert stödd/staddur. Farðu á bókasöfn, veitingastaði eða listasýningar. Fáðu upplýsingar og heilræði frá heimamönnum um hvert sé best að fara eða borða.

Að setja allt sitt traust á heimamenn getur auðvitað reynst óumhverfisvænna en hitt. Það er í höndum okkar ferðamanna að setja gott fordæmi, stunda „grænar“ ferðavenjur og hjálpa heimamönnum að vera umhverfislega meðvituð, þar sem margir eru grunlausir um umhverfisvandann í kringum þá.

Ferðastu með margnota áhöld

Settu þér þá reglu að þú skulir hafa með þér fjölnota vatnsflösku, ferðamál, taupoka fyrir hin og þessi kaup, fjölnota rör, hnífapör og mögulega box eða tvö fyrir afganga. Þannig kemurðu í veg fyrir einnota umbúðir. Það getur líka reynst flókið að flokka rusl á ókunnugum slóðum og því best að koma alveg í veg fyrir ruslmyndun.

Kynntu þér leiðir til að hreinsa vatn

Það getur verið erfitt að komast hjá því að kaupa vatnsflöskur úr plasti hér og þar, sér í lagi í þeim löndum sem bjóða aðeins upp á mengað vatn í krönum. Þú getur undirbúið þig fyrirfram með því að kaupa flöskur með innbyggðri síu eða filterkerfi eða vatnshreinsandi töflur.

Pakkaðu gáfulega

Reyndu að pakka létt, það mun gera líf þitt mun auðveldara. Varastu eiturefni í snyrtivörum, ef þú ert á leið í sjóinn. Í dag getur þú auðveldlega fundið sólarvörn sem er talin örugg fyrir sjóinn og kóralrifin og gefa umbúðirnar það þá sérstaklega til kynna (reef-safe).

Talaðu við vini og vandamenn eftir á

Deildu ferðasögunum þínum með fólkinu þínu þegar það spyr um ferðina. Ekki bara eftirminnilegustu upplifanirnar heldur líka það sem þér liggur á hjarta, hvað þér fannst vel gert og hvað var óþægilegt. Jafnframt hvernig þú myndir haga ferðalaginu næst. Auðveldaðu næstu ferðalöngum að plana ferðir og komast hjá þínum mistökum.

Kannaðu vel fyrirtækin sem þú velur

Þegar þú ákveður að fara í skipulagðar ferðir eða með ferðaskrifstofu er gott að spyrja nokkurra spurninga áður en þú stekkur á tilboðin. Til dæmis: „Hverjar eru umhverfisreglur ykkar?“ „Geturðu gefið mér dæmi um hvernig ferðirnar hjálpa við að vernda og styðja dýralíf og menningu landsins?“ „Eru leiðsögumennirir heimamenn?“ Þeir sem ekki geta svarað þessum spurningum dragast einfaldlega aftur úr.

Ekki öll fyrirtæki eru „græn“ sem segjast vera það, því miður. Svokallaður grænþvottur (greenwashing) er viðvarandi vandamál í ferðabransanum, með sívaxandi meðvitund og útbreiðslu á grænum lifnaðarháttum. Beitum skynsemi, fylgjum innsæinu og gerum okkar besta.

Þú getur gert ýmislegt til að ferðalögin þín verði umhverfisvænni.
Þú getur gert ýmislegt til að ferðalögin þín verði umhverfisvænni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »