Ásdís Rán byrjaði aftur á skíðum 37 ára

Ásdís Rán er búin að skíða í Austurríki og í …
Ásdís Rán er búin að skíða í Austurríki og í Búlgaríu það sem af er ári. Ljósmynd/Aðsend

Ásdís Rán Gunnarsdóttir er orðin mikil skíðaáhugakona á stuttum tíma. Hún lærði fyrst á skíði sem barn en fór svo ekki á skíði í um 30 ár. Þegar hún var 37 ára fór hún í kennslu og fer nú í nokkur skíðafrí á ári bæði erlendis og innlanlands. Það er stutt í góð skíðasvæði frá Búlgaríu þar sem Ásdís Rán býr. 

„Ég er tiltölulega nýbyrjuð eða fyrir um þremur árum. Þá var ég ein uppi í sveit í Rúmeníu að fljúga þyrlu og leiddist eitthvað þannig ég ákvað að nýta tímann og skella mér upp í fjöll í skíðakennslu í tvo daga og það tókst bara mjög vel. Síðan þá hef ég verið að fara kannski tvisvar á ári, aðallega í Búlgaríu. Það eru mjög fín skíðasvæði hér og stutt að fara. Síðan er ég í svaka skemmtilegum skíðahóp á Íslandi sem heitir Skíðaskinkurnar og við förum einu sinni á ári á Siglufjörð, Akureyri, upp á jökul eða finnum eitthvert spennandi svæði þar sem við eyðum helginni, yfirleitt um 40 stelpur saman. Þar er mikið um gleði og glens, næsta ferð er einmitt núna í lok mars,“ segir Ásdís Rán um skíðaáhugann. 

Skíðaskinkurnar fara árlega í skíðaferð.
Skíðaskinkurnar fara árlega í skíðaferð. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er það besta við að fara á skíði í útlöndum?

„Fyrir mér er það náttúran, fegurðin og ferskleikinn í loftinu. Það er líka alltaf stemning og margt í boði á skíðasvæðunum. Miklu betri aðstaða og brekkur en á Íslandi.“

Hefur þú notið leiðsagnar kennara þegar þú ferð á skíði erlendis?

„Já, þegar ég var að byrja þá var ég örugglega með þjálfara þrisvar sinnum. Ég fór í skíðakennslu líka þegar ég var um sex ára en fór svo ekki mikið eftir það, þannig ég byrjaði aftur um 37 ára aldur. Það er frábært að nýta sér þjálfara til að koma sér af stað stórslysalaust!“

Ásdís nýtur þess að skíða.
Ásdís nýtur þess að skíða. Ljósmynd/Aðsend

Í ár er Ásdís bæði búin að vera á skíðum í Austurríki og í Búlgaríu. 

„Ég var að koma frá Kitzbuel í Austurríki þar sem ég var með góðum hóp frá Íslandi. Það var mjög gaman en veðrið var ekki upp á það besta en við náðum tveimur góðum dögum af fimm í sól. Hina dagana var frekar leiðinlegt skyggni en svo síðustu helgi fór ég hér upp í fjöll í Búlgaríu á skíða „resort“ sem heitir Borovets, það var alveg æðislegt og frábært veður. Það eru nokkur góð skíðasvæði hér og ég fer eflaust aftur áður en snjórinn fer.“ 

Kemur maður ekki bara dauðþreyttur heim úr skíðafríum?

„Jú, maður er mjög líkamlega búinn eftir þessar ferðir og það tekur yfirleitt um þrjá daga að jafna sig en þetta er góð æfing og skemmtileg afþreying og algjörlega þess virði að þjást smá.“

Náttúran heillar í skíðaferðum.
Náttúran heillar í skíðaferðum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert