Fátæktin og draslið kom mest á óvart

Sandra Dögg fyrir framan Taj Mahal á Indlandi.
Sandra Dögg fyrir framan Taj Mahal á Indlandi.

Sandra Dögg Árnadóttir sjúkraþjálfari í Orkuhúsinu og líkamsræktarkennari hjá Hreyfingu, mælir með ferðalagi á fjarlægar slóðir til að halda upp á ástina. Hún og Davíð Guðmundsson, lögmaður áttu 20 ára brúðkaupsafmæli í desember og ákváðu að ferðast um Asíu í tilefni þess.

Á fyrstu árum þeirra Söndru og Davíðs samanstörfuðu þau sem fararstjórar hjá Samvinnuferðum- Landsýn á Spáni. Því má segja að ferðalög séu sameiginlegur áhugi þeirra beggja.

Þegar kom að því að skipuleggja 20 ára brúðkaupsafmælisferðina ætluðu þau að dvelja á Maldíveyjum með stuttu stoppi í Dubai á leiðinni heim. Þar sem þau þurftu að millilenda í Delhi, ákváðu þau að nota nokkra daga til að skoða sig um á Norður-Indlandi.

Sandra Dögg á ferðalagi um Indland.
Sandra Dögg á ferðalagi um Indland.

„Við höfðum lengi átt okkur þann draum að fara til Asíu og nú þegar börnin höfðu náð tilteknum aldri fannst okkur tilvalið að láta verða af því. Við lögðumst í smávegis rannsóknavinnu til að finna hvort hægt væri að plana áhugaverða ferð frá Delhi. Við höfðum áhuga á að skoða meðal annars Taj Mahal, sem er eitt að sjö undrum veraldar í borginni Agra sem er fjórar klukkustundir frá Delhi. Við ákváðum að ráða indverska ferðaskrifstofu til að útbúa og skipuleggja ferð fyrir okkur um „Gullni þríhyrninginn“ þar sem farið er á milli Delhi, Agra og Jaipur. Ferðin var ævintýri líkust, þar sem okkur gafst tækifæri til að heimsækja og fræðast um virki og hallir; byggðar mikið til af múslimum á Mugahl-tímabilinu og svo tóku við af þeim Maharaja sem voru Hindu trúar. Fólk með mismunandi trú er að finna um allt Indland, sem gefur menningunni áhugavert yfirbragð. 200 ára saga þeirra með Bretum er einnig áhugaverður tími og mjög skemmtilegt að heyra þeirra hlið á sögunni. En þeir byggðu upp þann hluta höfðborgarinnar sem er kallaður Nýja-Delí.“

Taj Mahal í öllu sínu veldi.
Taj Mahal í öllu sínu veldi.

Sandra segir mikilvægt að hjón gefi sér tíma saman. Að ferðalög séu góð en það sé ekki það eina sem hægt er að gera. Hún mælir einnig með vikulegum gönguferðum eða bara að finna eitthvað sem báðum finnst skemmtilegt að gera.

„Auðvitað er mikilvægt að vera stundum tvö ein, ekki alltaf með vinum eða fjölskyldu. Við höfum bæði mjög gaman af því að fræðast um menningu, trú og sögu þeirra staða sem við komum á en það eru takmörk fyrir hvað maður getur boðið börnum upp á í menningarlegum skoðunarferðum.“

Hjónin hafa frá upphafi alltaf átt góðar stundir á ferðalögum.

„Davíð er ótrúlega skemmtilegur, glaðlyndur og þolinmóður maður. Hann er bæði vel gerður og vel gefinn. Ég held við séum góðir ferðafélagar af því við erum bæði svo fróðleiksfús á ferðalögum og algjörlega í sama takti.

Það er aldrei annað okkar sem er þreytt og nennir ekki. Eins erum við með nokkuð samtaka innsæi, þannig að þegar við höfum það á tilfinningunni að það sé verið að reyna að plata okkur þá erum við líka sammála. Ferðaskipulag er einnig eitthvað sem tengir okkur. Svo erum við sammála um skemmtanagildi hvort annars, sem er án efa ástæða þess að við erum ennþá saman.“

Á Indlandi er margt ólíkt því sem við þekkjum

Sandra og Davíð sjá ekki eftir því að hafa fengið ferðaskrifstofu til að skipuleggja ferðina um Indland.

„Þar sem við vissum lítið sem ekkert um Indland og vildum hafa ferðalagið þægilegt, öruggt og stutt, völdum við ferðaskrifstofuna Elegant Journeys til að aðstoða okkur. Þau höfðu fengið góðar umsagnir á netinu og vorum við ánægð með þá þjónustu sem við fengum.

Allt stóðst sem talað var um. Við vorum með sama bílstjórann allan tímann sem keyrði okkur á milli borga og á alla áfangastaði. Í hverri borg hittum við svo fararstjóra sem sá alveg um okkur. Þau atriði sem við hefðum viljað hafa öðruvísi skrifast á ólíka menningarheima. Á hverjum morgni vorum við sótt á hótelið og í lok dags var okkur skilað til baka á hótelið aftur. Hver dagur var fyrirfram ákveðinn með öllum þeim stöðum sem átti að heimsækja og sjá.“

Hvað kom mest á óvart við Indland?

„Ég þekki nokkra sem hafa komið þangað og var búin að heyra sögur um hvað það væri margt fólk, hvað allt væri skítugt, það væru dýr út um allt, glaðlegt fólk og konur í litríkum fötum svo eitthvað sé nefnt.

Umferðin á Indlandi er framandi eins og ljósmyndin sýnir.
Umferðin á Indlandi er framandi eins og ljósmyndin sýnir.

Ég upplifði Indland einmitt þannig. Menningin á Indlandi er ólík okkar og það ögraði okkur á margan hátt.

Það sem kom hvað mest á óvart var fátæktin og draslið í borgunum. Umferðin og svo samtölin sem við áttum við Indverjana.

Umferðin á Indlandi er ekki beint til að hrópa húrra fyrir og það er erfitt að breyta hegðun í landi þar sem yfir einn milljarður býr. Ekki fyrir löngu voru af öryggisástæðum sett lög um að ökumaður mótorhjóla væri skyldur til að vera með hjálm.

Ökumaður með hjálm, þrjú börn og eiginkonu á hjólinu. Takið …
Ökumaður með hjálm, þrjú börn og eiginkonu á hjólinu. Takið eftir hvernig börnin og konan eru óvarin á hjólinu. mbl.is

Indverjar voru fljótir að bregðast við og hjálmar seldust eins og heitar lummur en málið er hins vegar að á hverju mótorhjóli eru oftar en ekki fleiri á hjólinu, allt upp í fimm manns og sumir einstaklinganna eru börn. Þessir aðilar eru oftar en ekki án hjálms. Eða satt að segja sáum við aldrei barn með hjálm.

Við urðum vör við herferð landsins til að fá fólk til að henda rusli í ruslatunnur. Þeir eru einnig byrjaðir að flokka, blautt og þurrt rusl. Það vakti einnig athygli mína hvað var margt fólk alls staðar. Fólk sem var ekki endilega að gera neitt sérstakt. Fararstjórarnir sögðu okkur að skólaganga væri ókeypis fyrir foreldra og börnin fengju eina máltíð í hádeginu frítt, en það virtist ekki vera næg hvatning fyrir fátækar, barnmargar fjölskyldur sem þurftu á aukapeningum að halda sem kæmi frá vinnu barnanna. Það var mjög framandi og erfitt að heyra.“

Hægt að gera æfingar víða þar sem enginn þekkir mann

Sandra er vinsæll sjúkraþjálfari og er rómuð fyrir að vera skynsöm og lítið fyrir öfgar.

„Ég hef aldrei verið öfgamanneskja í neinu og finnst líka mjög gott að vera ein eða heima með fjölskyldunni. Varðandi mataræði þá reyni ég að borða eins hreinan mat og ég get, sem minnst unnið en borða samt allar fæðutegundir. Mér finnst það gott ráð sem íþróttaálfurinn sagði í gamla daga að borða ekki mat úr pakka eða með innihaldslýsingum. Svo borða ég ekki djúpsteiktan mat og forðast sykur eins og ég get. Ég hef alltaf hreyft mig, æfði áhaldafimleika 20 tíma á viku frá 10 ára aldri og fór svo að þjálfa fimleika í kjölfarið. Mér finnst ég alltaf hafa búið að því að hafa verið sterk sem barn og unglingur.“

Sandra segir lífið til þess að lifa því og njóta þess.

„Ég er mikið fyrir að lifa lífinu sem hentar mér og fjölskyldu minni, og reyni ég að láta aðra hluti hafa sem minnst áhrif á okkur. Maður getur valið hvaðan maður fær ráðin í lífinu. Ferðalög sem dæmi gera mann víðsýnni og þá sérstaklega ef fólk leggur smávegis á sig til að kynna sér menningu og sögu annarra þjóða. Að tala við infædda, ásamt því að lesa bókmenntir frá stöðunum finnst mér áhugavert, einnig að borða matinn sem kemur frá landinu. Mér finnst sem dæmi alveg glatað að borða ítalskan mat á Indlandi og öfugt. Í raun er ég þannig þenkjandi að mér finnst ég helst verða fyrir vonbrigðum þegar ég fer á veitingastaði sem eru fínir, þá sem eru með eitthvert alþjóðlegt froðumauk á öllum réttum. Staðina þar sem þjónninn talar um matinn út í eitt og skemmir þannig stemninguna. Við erum að læra að forðast þannig staði.“

Sandra er á því að við Íslendingar þurfum D-vítamín og að sjá sjólina öðru hverju.

„Við erum fámenn þjóð og sumir segja okkur einsleit. Ég er á því að ferðalög geti opnað huga okkar og aðstoðað okkur við að sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum. Það er hætt við því að margir séu uppteknir af sömu hlutunum í litlu samfélagi eins og okkar.“

Skrautlegur fíll í umferðinni á Indlandi.
Skrautlegur fíll í umferðinni á Indlandi.

Kynntistu einhverju nýju heilsutengdu á ferðlaginu?

„Nei, í raun og veru ekki. Ég held að þeir sem fari í heilsutengdar ferðir séu á öðrum stöðum en ég var á. Ég varð einungis vör við andstæður heilsunnar, s.s. mengun, rusl og fátækt. Það eina sem ég get tengt þessa ferð við heilsu, fyrir utan D-vítamínið sem við fengum, var það hvernig við heilsuðum fólki – með Namaste-kveðjunni.“

Ertu sammála því að lífið verði bara betra með árunum?

„Mér hefur fundist gaman á öllum aldri. Það er viss sjarmi að vera tvítugur, þrítugur og fertugur. Ég held að við njótum þess best ef við erum ekki að reyna að vera yngri eða eldri en við erum. Heldur njótum hvers tímabils í lífinu eins og við getum. Mér fannst á sínum tíma mjög gaman að vera tuttugu ára, en væri ekki til í að vera þar núna. Svo þekki ég svo margt fólk sem er eldra en ég og lifir svo fjölbreyttu, kraftmiklu og skemmtilegu lífi þannig að vonandi fær maður að njóta þess líka.“

Hvað mælir þú með að allir geri á ferðalögum til að halda sér í formi?

„Ég trúi ekki á öfgar þannig að hollt mataræði og hreyfing á að vera hluti af lífinu og alltaf eitthvað sem togar í mann og maður vill gera. Þannig að manneskju sem lifir hollu líferni mundi ekki líða vel að hvíla sig alveg og hreyfa sig ekki neitt. Það er líka ávani að velja alltaf hollan kost á veitingastöðum eða hlaðborðum af því mann langar í þannig mat en ekki af því að maður sé í átaki eða á einhverju sérstöku mataræði. Það er svo auðvelt að hjóla, ganga, hlaupa, synda eða stunda alls konar hreyfingu á ferðalögum þó það sé ekki endilega það sama og þú gerir heima. Svo mæli ég alltaf með því að hlaupa upp stigana á flugvöllum í stað þess að fara í rúllustigann eða lyftu. Það eru þessir litlu hlutir sem fólk tekur varla eftir. Ég er oftast með sippuband og miniband (litla teygju) í töskunni ef mig langar að gera æfingar á staðnum. Svo finnst mér æði að gera smá „bodybalance“ (jóga/ tai chi / pilates) æfingar sem mér finnst fullkomið jafnvægi fyrir líkamann. Það er hægt að gera æfingar úti á grasi, við sundlaugarbakka eða á ströndinni – sérstaklega þar sem enginn þekkir mann.“

Dýr á förnum vegi er algeng sjón á Indlandi.
Dýr á förnum vegi er algeng sjón á Indlandi.
Indverjar eru ekki að flækja málin þegar þeir setja upp …
Indverjar eru ekki að flækja málin þegar þeir setja upp grænmetismarkaði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert