Hrönn missti 7 kíló í fyrstu det­ox-meðferðinni

Hrönn Hjálmarsdóttir leiðsegir fólki í detox-ferðum til Póllands.
Hrönn Hjálmarsdóttir leiðsegir fólki í detox-ferðum til Póllands.

Hrönn Hjálmarsdóttir heilsumarkþjálfi trúir á tengsl á milli þess sem við borðum og áhrifa þess á heilsuna.

Sjálf hefur hún umbylt lífi sínum með því að m.a. detoxa og er um þessar mundir að undirbúa heilsuferð til Póllands með fólki sem langar að fjárfesta í heilsu sinni eins og hún hefur gert.

Þó hún sé meðvituð um heilsuna er hún ekki fullkomin á því sviði eins og svo margir aðrir að eigin sögn.

„Með því að ná jafnvægi á sem flestum sviðum lífsins; bæði líkamlega og andlega, þá verður okkur best borgið að mínu mati. Eins tel ég mikilvægt að hlusta á líkamann og ná að lifa í sátt við sjálfan sig, umhverfið og annað fólk. Sjálf reyni ég að fylgja hinni gullnu 80/20 reglu, þar sem 80% af því sem ég geri er heilsusamlegt á einhvern hátt, en svo leyfi ég mér að bregða út af til að hafa lífið skemmtilegt.“

Heilsu- og detox-ferðir orðnar vinsælar í dag

Íslendingar hafa á annan áratug farið í heilsu- og detox-ferðir til Póllands og þá oftast með Jónínu Ben sem í raun kynnti Íslendingum þessa tegund heilsumeðferða. „Upphaflega voru fáir einstaklingar sem leituðu í þetta og þá var mikil neikvæðni í garð svona meðferða. En með árunum hafa hlutirnir breyst og nú vita flestir hversu heilsusamlegt það er að fasta, hreyfa sig hæfilega og hreinsa líkama og sál.

Fólk sem prófar þessar meðferðir kemur yfirleitt aftur og aftur og það segir án efa meira en mörg orð.

Það sem gerist í svona meðferðum er að fólk endurnærist með góðri hvíld, nuddi og heilnæmum mat sem er sérstaklega til þess gerður og settur saman til að hreinsa líkamann og halda honum í ketósu (föstu).“

Að borða hollan og góðan mat í hlýlegu umhverfi skiptir …
Að borða hollan og góðan mat í hlýlegu umhverfi skiptir máli að mati Hrannar.

Hún segir fátt vinsælla en að fasta í dag og mjög margir einstaklingar, m.a. hér á landi, sem eru á ketó-fæðinu.

Hvenær verður næsta ferð?

„Þann 7. mars ætlar hópur fólks að vera með mér í tvær vikur á hóteli sem heitir Wichrowe og er staðsett í tæplega klukkutíma akstursfjarlægð frá Gdansk. Hótelið er tiltölulega nýtt og í gríðarlega fallegu umhverfi. Það er í litlum bæ í Kasuby-þjóðgarðinum. Herbergin eru frábær og andrúmsloftið gott en þarna er einnig sundlaug, gufur, pottur og infrarauður klefi ásamt heimsklassa snyrtistofu sem býður upp á allkonar snyrtimeðferðir. Þann 31. mars verð ég svo með aðra ferð á Elf sem er gamalgróið heilsuhótel í svipaðri fjarlægð frá Gdansk en þangað hafa flestir farið í detox- og heilsumeðferðir. Það er páskaferð og kannski hægara um vik fyrir suma að komast frá. Fólk getur þó alltaf tekið styttri tíma þó svo að langbesti árangurinn náist á 2 vikum.“

Missti 7 kg í fyrstu detox-meðferðinni

Hrönn fór sjálf í sína fyrstu detox-meðferð árið 2009 og dvaldi þá í tvær vikur. Hún segir þá ferð hafa verið eina af bestu fjárfestingum sem hún hafi lagt í um ævina.

„Tíu árum áður en ég fór hafði mér verið sagt að ég væri með vefjagigt og var ég á lyfjum við því. Ég var einnig á bólgueyðandi lyfjum til að bæta líðan mína. Detox-meðferðin sem ég fór í á sínum tíma var á Mývatni. Ég var með aukakíló bæði á líkama og sál. Eftir 14 daga meðferð var eins og ég hefði endurfæðst í orðsins fyllstu merkinu. Ég var orðin verkjalaus, glöð og 7 kg léttari á líkamann en örugglega 20 kg léttari á sálinni.

Ég lærði ýmislegt um næringu og hvaða áhrif mismunandi matur hefur á okkur sem varð til þess að ég fór að grúska meira og afla mér þekkingar og menntunar á þessu sviði. Ég hef aldrei orðið eins af vefjagigtinni og ég var þá. Í raun má segja að ég hafi aldrei orðið sú sem ég var orðin aftur.

Náttúran er falleg í kringum staðinn þar sem Hrönn fer …
Náttúran er falleg í kringum staðinn þar sem Hrönn fer með fólk í detox-ferðir til Póllands.

Ég varð betri útgáfa af sjálfri mér og hef lagt mig fram um að halda því þannig. Þetta er eilífur línudans og til að tryggja að ég haldist á þessum góða stað, þá hef ég farið nokkrum sinnum aftur í detox til að viðhalda árangrinum og er ekki hætt. Eitt af því sem breyttist varanlega var að ég hætti að fá bjúg eftir mína fyrstu meðferð. Ég átti það til að safna bjúg á fæturna, sérstaklega á ferðalögum og í flugi en það hætti og hefur aldrei komið aftur.“

Fyrir hverja eru þessar ferðir?

„Ég myndi segja að nánast allir hefðu gott af svona heilsuferð. Langflestir eru að kljást við eitthvað, hvort sem það er vandamál með meltingu, húðvandamál, liðverki, sykursýki, hár blóðþrýstingur, svefnleysi, streita eða hvað það nú er. Þarna er fullkomin aðstaða til að hvílast vel án utanaðkomandi áreitis og láta stjana við sig. Það er ómetanlegt að geta fjárfest svona í heilsunni sinni því við viljum jú öll lifa lengi og líða vel. Það er ekki gaman að verða mjög gamall ef heilsan er löngu farin.“

Fólk umbreytist í þessum ferðum

Hvað gerir þú sem farastjóri í þessum ferðum?

„Mitt hlutverk er að vera til staðar fyrir fólkið úti í Póllandi. Ég held utan um hópinn, skipulegg dagskrá og aðstoða varðandi það sem kemur upp í ferðinni. Ég býð upp á ýmiskonar fræðslu sem tengist heilsu og heilbrigði og má þar nefna fræðslu um meltinguna, hvernig næringin hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu, hvað veldur bólgum í líkamanum. Hlutverk og nauðsyn D-vítamíns, breytingaskeið kvenna (og karla), hollustu góðra olía og margt fleira. Fólk sér sjálft um að kaupa flugið en það er yfirleitt hægt að fá afar ódýrt flug með Wizz Air sem flýgur beint frá Íslandi.“

Hún segir að fólk umbreytist í þessum ferðum, til hins betra. „Blóðþrýstingurinn lækkar fljótt hjá þeim sem eru með of háan blóðþrýsting, fólk grennist, liðverkir minnka sem gerir alla hreyfingu auðveldari, húðin verður fallegri og ýmis húðvandamál minnka eða hverfa alveg. Melting verður betri og segja má að líkaminn núllstilli sig. Þetta er því alveg upplagt fyrir þá sem vilja gott upphaf að breyttri og bættri heilsu. Það er ekki að ástæðulausu að fólk fari aftur og aftur í svona ferðir.“

Hrönn segir að það besta við báða staðina sem farið er á sé að þeir eru í fallegu umhverfi og fjarri öllum hamagangi.

„Því er hægt að einbeita sér að því að bæta eigin heilsu í ró og næði ásamt því að eiga frábærar samverustundir með fólinu á staðnum sem er á þessari sömu vegferð.“

Hrönn segir mikilvægt að heyra sig og borða hollan mat …
Hrönn segir mikilvægt að heyra sig og borða hollan mat og slaka á inn á milli.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert