Heilluð af einlægu og vinalegu viðmóti Egypta

Ingibjörg við pýramídann mikla í Gísa.
Ingibjörg við pýramídann mikla í Gísa.

Ingibjörg hefur brennandi áhuga á ferðalögum. Hún er mikið fyrir útivist, skíði og heilbrigt líferni. Hún lærir eitthvað nýtt á öllum stöðum sem hún heimsækir. Sér í lagi þegar kemur að mat og menningu.

Hún er menntaður næringarráðgjafi og er sjálf mikill ástríðukokkur.

Ingibjörg er fjölhæf og fer í alls konar frí og ferðalög. Bæði á ströndina og í fjallaferðir.

Hefur ferðast út um allan heim

„Ég er sjálfstæð og vil gera hlutina sjálf. Fólk sem fylgist með mér á samfélagsmiðlum veit að ég er mikið í eldhúsinu en einnig mikið í framkvæmdum og viðhaldi á heimilinu. Ég reyni að gera allt sjálf sem ég get varðandi heimilið. Dæmi um þetta er að um þessar mundir er ég að safna tvennu; fallegum skóm og verkfærum.“

Þegar viðtalið er tekið er Ingibjörg stödd á Tenerife með fjölskyldunni sinni og vinafólki.

„Ég nýti fríið í að rannsaka hluti sem ég hef áhuga á. Sem dæmi fékk ég mikinn áhuga á rannsóknum er varða svefn og mikilvægi hans. Er þessa dagana að lesa bókina Why We Sleep eftir Matthew Walker og var að tryggja mér miða á fyrirlesturinn með honum í Hörpunni núna í haust.“

Ertu dugleg að ferðast?

„Já, ég hef farið víða og hef komið til margra landa í flestum heimsálfunum. Það er svo skemmtilegt og einnig þroskandi að ferðast og upplifa nýja staði og að sjá aðra menningu, siði og venjur.

Áhugamanneskja um matargerð og eldamennsku eins og ég hefur einnig gaman af því að upplifa matarvenjur annarra þjóða, fá innblástur í matargerð, smakka ný hráefni, krydd og nýja rétti. Ég tek síðan hugmyndirnar með mér heim til Íslands og þróa áfram í eldhúsinu.“

Ferðalag til Egyptalands stendur upp úr

Þegar kemur að eftirminnilegustu ferðalögunum segir Ingibjörg að hún hafi farið í ótal margar ógleymanlegar ferðir.

„Ég fór í ferðalag til Egyptalands sem var mikil upplifun. Þá heimsótti ég einnig Dubai í fyrsta skiptið. Ég er mikið fyrir ferðalög til framandi landa í Asíu og Afríku. Þessi lönd eru afar ólík okkur í menningu, siðum, matarvenjum og klæðaburði svo það er ýmislegt nýtt að sjá á þessum stöðum sem vekur áhuga. Það getur samt einnig verið mjög átakanlegt. En eins falleg og áhugaverð og Asía er sem dæmi, þá finnst mér sárt og erfitt að sjá og upplifa fátæktina á Indlandi og í Malasíu.“

Hvað skiptir mestu máli að þínu mati á ferðalagi utan landsteinanna?

„Ég hef tileinkað mér að skipuleggja mig vel fyrir ferðalög. Vera búin að pakka tímanlega og að fá góðan nætursvefn fyrir ferðalag. Það skiptir sköpum að fara vel hvíld inn í ferðalag. Utan landsteinanna er gott að tileinka sér það að sýna náunganum og umhverfinu virðingu og kærleiksríkt viðmót.“

Gerðu sem mest úr ferðinni

Stuttu áður en Ingibjörg fór til Egyptalands með móður sinni var hún í öðru ferðalagi með fjölskyldunni.

„Ég hafði stuttu áður en ég fór til Egyptalands farið í gönguferð með móður minni og systrum til Cinque Terre á Ítalíu. Þar gengum við í marga daga með gönguhóp á milli þorpa í hita og sól í stórbrotnu umhverfi. Við gengum meðfram sjávarsíðunni, í hlíðum, meðfram vínekrum og upp og yfir fjöll. Eftir þá ferð ákváðum við mæðgurnar að fara tvær saman í mæðgnaferð á framandi slóðir. Egyptaland varð fyrir valinu þar sem við höfðum hvorug komið þangað og því tilvalið að upplifa ferðalag þangað saman.

Ferðin var meiriháttar í alla staði. Hún var vel skipulögð og við náðum að skoða allt það helsta í landinu enda flökkuðum við um það endilangt.

Tíminn var vel nýttur. Við vorum oftast komnar á fætur fyrir sólarupprás og dagarnir voru nýttir vel enda mikið að skoða og upplifa.

Ingibjörg ásamt móður sinni Írisi Öldu í Egyptalandi.
Ingibjörg ásamt móður sinni Írisi Öldu í Egyptalandi.

Við flugum til Kaíró, gerðum þeirri borg góð skil, flugum svo m.a. niður til Aswan, keyrðum niður að landamærum Súdan og skoðuðum þar hofið Abu Simbel og ýmsar fornminjar.

Við sigldum einnig niður ána Níl í þrjá sólarhringa og nýttum stoppin við árbakkana í skoðunarferðir, á hestvögnum og fótgangandi.

Við keyrðum einnig til borgarinnar Hurghada við Rauðahafið og nýttum tvo daga þar í algerri paradís.“

Hvernig var veðrið og á hvaða árstíma fórstu?

„Ferðin var í lok september. Veðrið var jafnt og gott allt ferðalagið, það var á okkar mælikvarða heldur heitt, sól alla daga og hitastigið 30 til 40 gráður.“

Ingibjörg virðir fyrir sér heillandi fegurð pýramídanna.
Ingibjörg virðir fyrir sér heillandi fegurð pýramídanna.

Rosaleg upplifun að sjá pýramídann mikla í Gísa

Er eitthvað sem þú mælir sérstaklega með að gera í Egyptalandi?

„Það sem stóð upp úr í ferðinni var að skoða píramídann mikla í Gísa, eitt af sjö undrum veraldar og það eina sem enn stendur. Það var rosaleg upplifun.

Einnig mæli ég með að fara á egypska safnið í Kaíró þar sem eru til sýnis yfir 120.000 hlutir og minjar frá síðustu 5000 árum. Þar er einnig að finna alvöru múmíur. Það fannst mér afar áhugavert enda eru þetta konungar, synir og sonarsynir þeirra sem létu byggja pýramídana sem liggja þarna sem múmíur. Mér fannst ótrúlega magnað að sjá með berum augum fólkið sem hafði látið byggja þessi ein stærstu og merkilegustu mannvirki mannkynssögunnar.

Ingibjörg er mikið fyrir hreyfingu, hollt matarræði og að ferðast.
Ingibjörg er mikið fyrir hreyfingu, hollt matarræði og að ferðast.

Einnig mæli ég með siglingu niður ána Níl.

Það er viss upplifun að standa uppi á dekki, horfa yfir ána, sjá allan fallega gróðurinn við árbakkann og að sjá svo eyðimörkina við enda sjóndeildarhringsins.

Þetta eru svo miklar andstæður og það gerir upplifunina svolítið sérstaka.“

Hvað myndir þú forðast á svona ferðalagi?

„Á ferðum til framandi landa er gott að tileinka sér almennt hreinlæti.

Handþvottur er mikilvægur, sem og að tryggja að kjöt sé nægilega eldað. Á ferðum til heitra landa sem og ávallt er einnig mikilvægt að gæta að nægilegri vökvainntöku.

Það er einnig gott veganesti á ferðalögum sem og út lífið sjálft að tileinka sér fordómalausan hugsunarhátt.“

Allir dagar einstakir í Egyptalandi

Var eitthvað í menningunni sem snerti þig í hjartastað?

„Ég var heilluð af einlægu og vinalegu viðmóti Egypta. Einnig af arkitektúr fornminjanna.“

Ingibjörg segir að allir dagar þeirra mæðgna á ferðalagi um Egyptaland hafi verið einstaka upplifun.

„Ég upplifði eitthvað nýtt á hverjum degi. Þetta var svolítið eins og að fara aftur í tímann. Á götum voru fjárhirðar með hópinn sinn og stafinn, í ánni Níl við Banana eyju var fjölskylda að kæla sig í hitanum, í fjöllunum í svakalegum hita fór fram fornleifagröftur með höndunum.“

Án allra hindrana, ef þú gætir skipulagt draumaferð erlendis, hvert færir þú og með hverjum?

„Án efa færi ég í heimsreisu með syni mínum Jóni Metúsalem. Við færum hvort með sinn bakpokann að búa til fallegar og ógleymanlegar minningar.“

Litirnir í Egyptalandi eru engu öðru líkir.
Litirnir í Egyptalandi eru engu öðru líkir.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert