Susan Sarandon er hamingjusömust í New York

Susan Sarandon elskar að vera í New York.
Susan Sarandon elskar að vera í New York. AFP

Leikkonan Susan Sarandon hefur ferðast víða um heiminn, bæði í eigin erindagjörðum og til þess að taka upp kvikmyndir. Hún er þó alltaf hamingjusömust þegar hún er heima hjá sér í New York. Sarandon segir frá sínum uppáhaldsstöðum í heiminum í viðtali við Condé Nast Traveller. 

Hvaðan varstu að koma?

„Úr köfunarferð í Raja Ampat í Indónesíu. Það var skipulagt af vinkonu minni sem getur eytt öllum deginum í vatninu. Báturinn, Silolona, er mjög sérstakur. Starfsfólkið var umhyggjusamt og maturinn fitandi og frábær. Við sigldum í gegnum „Ring of Fire“ og sáum svo margar mismunandi tegundir af fiskum.“

Hvar í heiminum ertu hamingjusömust?

„Heima hjá mér í New York. Það er svo mikil orka, manni leiðist aldrei. Ef þér líður illa geturðu labbað niður West Side Highway og heyrt í fólki spila tónlist eða farið í gegnum The Village og séð alls kyns hluti sem þú hafðir ekki hugmynd um að væru til. Maður getur fundið fleira en maður getur meðtekið. Í New York er líka fjölskyldan mín og ég er hamingjusömust þegar ég er með þeim. Borgin er raunverulega sú fjölbreyttasta á jörðinni. Þegar þú elur upp börn í forréttindastöðu viltu að þau skilji að börn í gettóum búa ekki við sömu forréttindi.“

Eftirminnilegasti kvikmyndatökustaðurinn?

„Ég elska að fara í tökur á Ítalíu. Ég er hálfítölsk en hafði ekki upplifað Ítalíu almennilega fyrr en ég eyddi tíma þar við tökur á kvikmyndinni Mussolini and I með Anthony Hopkins. Ítalir kunna svo sannarlega að lifa lífnu og ég er hrifin af öllu sem viðkemur matnum þar. Róm er svo yndisleg, umvafin þessum veggjum sem voru byggðir á tíma Sesars. Maður hlær þegar maður kemur aftur heim til Bandaríkjanna og sér veitingastaði merkja sig „síðan 1950“. Maður finnur fyrir sögunni þar, ólíkt hér. Það gefur okkur afsökun fyrir hegðun Bandaríkjanna, við erum enn unglingar, við erum ekki þroskuð og höfum enga sjálfstjórn ennþá.“

Hvert er uppáhaldshótelið þitt?

„Ég er andlit Fairmont-hótelanna og það sem laðaði mig að þeirri keðju var skrefin sem þau hafa tekið í átt að sjálfbærni. Þau eru hætt með einnota plast og það sem ég er ánægðust með eru býflugnabúin sem þau standa á bak við, þau eiga yfir 40 býflugnabú. Mér finnst Fairmont-hótelið í Banff svo fallegt. Ég var hissa á afrekinu að smíða byggingu sem lítur út eins og ævintýraskógur.“

Viðtalið má lesa í heild sinni á vef Condé Nast Traveller.

mbl.is