Hnerrandi farþegi olli ringulreið um borð

Vél United Airlines þurfti að lenda í Denver vegna ringulreiðar …
Vél United Airlines þurfti að lenda í Denver vegna ringulreiðar um borð. Ljósmynd/United Airlines

Flugvél United Airlines þurfti að lenda snögglega í Denver í Colorado á sunnudag vegna mikillar ringulreiðar um borð. Ringulreiðinni olli hóstandi og hnerrandi farþegi en aðrir farþegar töldu hann vera að smita aðra farþega af kórónuveiru. 

Vélin var á leið frá Eagle í Colorado til Newark í New Jersey. Farþegar fóru fram á að hóstandi farþeginn yrði fjarlægður frá borði þar sem þeir töldu hann veikan.

Starfsfólk um borð reyndi að róa farþegana en allt kom fyrir ekki og því þurfti vélin að lenda í Denver þar sem fulltrúar FBI tóku á móti þeim. 

Samkvæmt heimildum CBS Denver er talið að hinn hnerrandi farþegi hafi einfaldlega glímt við ofnæmi en ekki veikindi á borð við kórónuveirusmit.

mbl.is