Anna Kristjáns í stofufangelsi í Paradís

Anna Kristjáns þegar K100 kíkti í heimsókn til hennar í …
Anna Kristjáns þegar K100 kíkti í heimsókn til hennar í febrúar síðastliðinn. Þá var létt yfir henni og ekkert útgöngubann. Ljósmynd/K100

Velstjórinn Anna Kristjánsdóttir er búsett á Tenerife um þessar mundir. Útgöngubann tók gildi á Spáni í morgun og gildir í 15 daga.

Anna segir fyrsta daginn í stofufangelsi, eins og hún kallar það, hafa verið skrýtinn en svipaðan því sem hún átti von á. 

„Fyrsti dagur stofufangelsins var dálítið skrýtinn, þó svipaður því sem ég átti von á. Fólkinu sem hafði farið niður á strönd var mætt með vopnuðum lögregluþjónum og rekið heim aftur en þeim sem óhlýðnuðust var mætt með taserbyssu og posa þar sem þeim var hótað 200€ sekt ef þeir hypjuðu sig ekki heim, en verslunareigendum sem ekki selja matvörur sem og veitingastaðir og barir máttu eiga von á 2000€ sekt fyrir að hafa opið,“ segir Anna í daglegri færslu sinni á Facebook. 

Anna fór í verslunarferð ásamt Dúu vinkonu sinni og var þar aðalinngangurinn lokaður en fólki hleypt inn um hliðardyr. Vandlega var gætt að því að fáir viðskiptavinir væru inni í einu. Hún komst þó heim úr búðinni með þær nauðsynjar sem hún taldi sig þurfa á að halda. 

„Lögreglustöðin er við hliðina á blokkinni minni og þar var mikið um að vera, lögregluþjónar á mótorhjólum á stöðugri ferð öskrandi fyrirskipanir til fólks að fara heim hvar sem sást til þess. Almenningsbílastæðin við aðalgötuna voru flest tóm ef frá eru talin nokkur bílastæði sem notuð eru af starfsfólki elliheimilisins hér í næsta húsi, þó ekki sama húsi og Dúa býr. Greinilegt að fyrirskipanir frá Madrid eru teknar alvarlega.

Mér datt í hug leikhús fáránleikans. Svona lagað hefi ég aldrei upplifað fyrr og hefi ég þó séð ýmislegt um dagana. Þó minnti þetta örlítið á Sovétríkin sálugu þar sem áhöfnum erlendra skipa var bannað að vera í landi eftir klukkan ellefu á kvöldin (þ.e. miðnætti á Moskvutíma) og til átta að morgni að viðlagðri ströngustu refsingu,“ segir Anna.

mbl.is