Ekki tilbúnar að festast úti í heimi

Fanney Sif og Dýrfinna eru komnar heim.
Fanney Sif og Dýrfinna eru komnar heim. Ljósmynd/Aðsend

Fanney Sif Torfadóttir og vinkona hennar Dýrfinna Arnardóttir lögðu upp í heimsreisu í janúar síðastliðnum. Þær ætluðu að ferðast um Asíu og Afríku í fjóra mánuði en eru nú komnar heim vegna útbreiðslu kórónuveirunnar um heiminn.

Fanney segir í viðtali við ferðavef mbl.is að það hafi ekki verið góð tilhugsun að festast einhvers staðar úti í heimi og þurfa að færa sig á milli landa eftir því sem landamæri lokuðust. 

„Við lögðum af stað í þetta ævintýri í byrjun janúar og var planið að vera í fjóra mánuði og þar af leiðandi koma heim í maí. Við byrjuðum ferðina í Egyptalandi, þaðan fórum við til Höfðaborgar og Katar, eftir það til Maldíveyja og eyddum síðan þremur vikum í Taílandi. Í Bangkok áttum við svo að leggja af stað í 30 daga hópferð um Kambódíu, Víetnam og Laos og átti ferðin að enda aftur í Bangkok. Þaðan var planið að fara til Kúala Lúmpur, Balí og enda á Filippseyjum,“ segir Fanney. 

Hún segir að ferðin hafi gengið ótrúlega vel þar til hinn 12. mars að þær hafi fengið þær fréttir að víetnömsk stjórnvöld væru hætt að samþykkja vegabréfsáritanir. Það þýddi að þær kæmust ekki inn í landið en ferð þeirra átti að hefjast tveimur dögum seinna.

Ljósmynd/Aðsend

„Í framhaldi af því var ákveðið að hætta við hópferðina og við það flæktust málin. Við vorum komnar til Bangkok þar sem við áttum að hitta hópinn okkar en þar sem hópferðin var blásin af vorum við í algjörri óvissu með næstu 30 daga. Eftir að við fengum þessar upplýsingar um lokanir í Víetnam fóru fréttirnar um landamæralokanir í fleiri löndum að raðast inn eins og dómínó. Við fórum að skoða ýmsar mögulegar ferðaleiðir og að lokum íhuga heimferð.

Við höfðum samband við nokkra Íslendinga sem við vissum að voru á svipuðu ferðalagi og það voru flestallir að íhuga heimferð. Íslensk yfirvöld sendu daginn eftir frá sér yfirlýsingu um að ferðamenn ættu helst að drífa sig heim og gerði það í raun útslagið. Daginn eftir héldum við af stað til Íslands, grútfúlar, þar sem við vorum engan veginn tilbúnar að fara heim enda tveimur mánuðum á undan áætlun,“ segir Fanney.

Þær stöllur voru staddar í Höfðaborg þegar þær fréttu fyrst af veirunni en þær óraði ekki fyrir að hún myndi hafa svo mikil áhrif á ferðina. 

„Fundum ótrúlega lítið fyrir þessu öllu saman þangað til í lokin. Okkur fannst allir voða slakir og við fundum aldrei fyrir neinni hræðslu gagnvart veirunni eða svoleiðis. Eina sem við tókum eftir var að það voru auðvitað sprittbrúsar úti um allt, allir með grímu og síðan vorum við hitamældar þegar við ferðuðumst á milli staða hvort sem það var með flugvél, ferju eða rútu. Í mollinu í Bangkok voru starfsmenn sem opnuðu dyrnar og þrifu rúllustigahandriðin á eftir hverri manneskju, sem sagt bara aukið hreinlæti.“

Þegar landamæri ríkja í Asíu fóru að lokast leist þeim ekki á blikuna og ákváðu að fara að drífa sig heim. „Við vorum í rauninni ekki tilbúnar að festast einhvers staðar eða fara að lifa eins og flóttamenn að hoppa á milli staða sem væru opnir. Við vorum heldur ekki tilbúnar að taka sénsinn á því að lenda í sóttkví í landi þar sem heilbrigðiskerfið er ekki gott og smithætta jafnvel enn meiri. Þegar yfirvöld á Íslandi tilkynntu svo að ferðamenn ættu helst að koma sér heim var það í raun það sem gerði útslagið og flugmiði frá Bangkok til Íslands pantaður,“ segir Fanney.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Kórónuveiran

29. mars 2020 kl. 13:53
1020
hafa
smitast
135
hafa
náð sér
25
liggja á
spítala
2
eru
látnir