Vonuðust til þess að festast á Íslandi

Matthias and Inna Piwowonski voru á Íslandi í mars.
Matthias and Inna Piwowonski voru á Íslandi í mars. ljósmynd/Matthias Piwowonski

Hjónin Matthias and Inna Piwowonski frá Köln í Þýsklandi eru nýkomin heim úr ferðalagi um Ísland. Þau tóku skyndiákvörðun, hættu við ferð til Bandaríkjanna og fóru til Íslands í staðinn. Hjónin sáu ekki eftir ákvörðun sinni og vonuðust innst inni til að festast a Íslandi. Næst vilja þau fara til Íslands yfir sumartímann og skoða Norðurland. 

„Við höfðum verið að skipuleggja ferð til Bandaríkjanna í meira en ár en þegar við vorum að bóka áttuðum við að okkur á því að okkur langaði frekar að slaka á en að fara í borgarferð. Þar sem við höfðum ekki séð snjó í yfir átta ár vorum við ekki lengi að ákveða að fara til Íslands,“ segir Matthias og segir það hafa tekið þau innan við þrjá tíma að bóka ferðina. 

ljósmynd/Matthias Piwowonski

Hjónin skoðu náttúru Íslands og meðal annars þekkta tökustaði. Matthias segir að myndin The Secret Life of Walter Mitty hafi veitt þeim mikinn innblástur. Einnig er hann mikill James Bond-aðdáandi og segir það hafa verið gaman að sjá tökustaði úr myndinni Die Another Day. 

Þau skoðuðu meðal annars Jökulsárlón þar sem myndirnar James Bond og Tomb Raider voru teknar upp. Vatnajökul þar sem Batman og Prometheus voru teknar upp. Þingvelli þar sem Game of Thrones-þættirnir voru teknir upp. Fóru á Gullfoss þar sem myndin Oblivion var tekin upp. Heimsóttu Vík þar sem Thor var tekin upp og Skaftafellsjökul þar sem myndin Interstellar var tekin upp. Matthias segir að Skaftafellsjökull hafi staðið upp úr á ferðinni um landið. 

ljósmynd/Matthias Piwowonski

Matthias segir maturinn á Íslandi hafi komið sér á óvart. 

„Fólk varaði okkur við því að það væri ekki góður matur á Íslandi. Þetta er ekki satt. Við borðuðum alltaf frábæran mat á góðu verði.“

Hjónin sáu snjó í fyrsta skipti í mörg ár og gott betur en það. 

„Veðrið breyttist oft. Stundum byrjaði dagurinn á sólskini og svo kom hríðarbylur tveimur tímum seinna. Það var allt í lagi enda vorum við með hlý föt og með nokkuð öruggan bíl.“

ljósmynd/Matthias Piwowonski
ljósmynd/Matthias Piwowonski

Kórónuveirufaraldurinn var byrjaður þegar hjónin flugu til Íslands þann 7. mars en síðan þá hefur margt breyst. Matthias segir þau hafa talað við ferðaráðgjafa áður en þau lögðu af stað. Upplifun þeirra var sú að allt gengi sinn vanagang á Íslandi og þau fundu ekki fyrir látum vegna kórónuveirunnar. Segir hann að þau hafi grínast með að taka með sér núðlur frá Íslandi þar sem þær voru uppseldar í Þýskalandi. 

Eru þið ánægð með að vera komin heim aftur?

„Í hreinskilni sagt þá vonuðumst við til þess að landamærin myndu loka og við yrðum „föst“ á Íslandi um hríð. En svona í alvöru talað við sjáum allt aðra aðstæður í Þýskalandi núna en þegar við vorum í ferðalaginu á Íslandi. Við þurfum að takast á við kórónuveirufaraldurinn núna og fólk ætti að vera heima hjá sér,“ segir Matthias og hvetur fólk til þess að fara varlega og hugsa um heilsuna. 

ljósmynd/Matthias Piwowonski
ljósmynd/Matthias Piwowonski
ljósmynd/Matthias Piwowonski
ljósmynd/Matthias Piwowonski
mbl.is