Ferðamenn flykkjast frá Flórída

Ferðamenn hvaðanæva úr Bandaríkjunum hafa flykkst heim frá ströndunum í Flórídaríki. Ríkið er einstaklega vinsæll áfangastaður ferðamanna, sérstaklega þegar nær dregur páskum. Nú eru hótelin og barirnir hins vegar auð. 

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá tómar strendur Florida Keys og heimamenn veifa ferðamönnum sem nú halda til síns heima. Miami Beach hefur verið lokað eftir sólsetur en er þó enn opin yfir daginn.

Stjórnvöld í Flórída takmörkuðu afgreiðslutíma á skemmtistöðum og veitingastöðum í síðustu viku. Þrýstingur hefur verið á ríkisstjóranum Ron DeSantis að grípa til harðari aðgerða til að takmarka útbreiðslu kórónuveirunnar. Yfir þúsund manns hafa greinst með veiruna í ríkinu, þá aðallega í syðri hluta ríkisins. Flestir ferðamannastaðirnir eru í Suður-Flórída. 

Stjórnvöld í Ohio, Louisiana og Delaware tilkynntu hertar aðgerðir í gær og hafa hvatt fólk til að halda sig heima fyrir. Kalifornía, New York, Illinois, Connecticut og New Jersey gerðu slíkt hið sama um miðja síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert