Í kappi við lokun landamæra á leiðinni heim

Guðbjörg er á leiðinni heim til Íslands, töluvert fyrr en …
Guðbjörg er á leiðinni heim til Íslands, töluvert fyrr en hún gerði ráð fyrir. Ljósmynd/Aðsend

Guðbjörg Lára Másdóttir er nú kapphlaupi við tímann á leið heim til Íslands frá Kosta Ríka. Ljóst er að landamæri fjölda ríkja munu lokast á næstu dögum og vikum á meðan kórónuveiru heimsfaraldurinn geisar. Þegar blaðamaður náði í Guðbjörgu var hún stödd á flugvellinum í New York í Bandaríkjunum. 

Guðbjörg flutti til Kosta Ríka í lok árs 2019 og hugðist dvelja þar fram til ársins 2021 en hún stefnir á háskólanám í Kosta Ríka næsta haust. Vegna þess að hún er aðeins skráð sem ferðamaður í landinu er hún ekki með neina sjúkratryggingu í ríkinu. 

Ég spáði í rauninni ekki einu sinni í því að halda heim fyrr en á mánudaginn. Umræðan um veiruna var voða lítil í Kosta Ríka svona til að byrja með, ég var til dæmis á ferðalagi um Panama í febrúar og til 9. mars  þegar ég kom aftur inn í Kosta Ríka í gegnum landamærin þar voru nákvæmlega engar aðgerðir vegna veirunnar.

Ég bara sýndi passann og rölti í gegn. Það var ekki fyrr en í þeirri viku 9. -13. mars sem veiran verður alvöru umræðuefni hérna og öllum skólum, grunnskólum og háskólum lokað upp úr því. Í framhaldi af því fara öll mín plön næstu mánuði þangað til skólin byrjar á hold og í fyrstu var það bara ágætt, ég hugsaði að ég myndi bara fresta plönunum um svona tvær vikur mesta lagi þrjár. Ekkert slæmt við það að njóta lífsins í Kosta Ríka,“ segir Guðbjörg í viðtali við mbl.is. 

Guðbjörg á toppi hæsta fjalls Panama með vinkum frá Japan …
Guðbjörg á toppi hæsta fjalls Panama með vinkum frá Japan og Austurríki þann 27. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru þá í sóttkví heima á Íslandi en Guðbjörg segir að þarna megin á hnettinum hafi fólk lítið verið að spá í veirunni þar til fyrir tveimur vikum. Ljósmynd/Aðsend

Svo byrjar raunveruleikinn að læðast upp að manni, byrjað að loka landamærum allt í kringum Kosta Ríka líkt og allsstaðar annarsstaðar í heiminum, fréttir þar sem utanríkisráðherra hvetur íslendinga til þess að snúa heim og ég fer virkilega að íhuga mína stöðu en eins og er er ég með stöðu ferðamanns í Kosta Ríka. Ég er ekki lengur örugg. Hvort sem ég hugsi út í það að eitthvað gerist í Kosta Ríka eða að ástandið verði alvarlegt heima á Íslandi þá liggur það strax augum uppi að ég þurfi að fara heim og ég þurfi aldeilis að hafa hraðar hendur. Þetta gerist allt á mánudaginn. Ég hef samband við sendiherra Íslands í Kanada og borgaraþjónustuna og ég bóka miða strax á þriðjudagsmorgun og lagði svo af stað á miðvikudagsmorgni,“ segir Guðbjörg. 

Hún segir forgangsröðunina verða skýra í ástandi sem þessu, efst á listanum er fjölskylda og öryggi. „Ég upplifði mig allt i einu án þessara beggja og óvíst hvenær ég fengi þetta tvennt til baka ef ég tæki ekki ákvörðun hratt um hvað ég skyldi gera,“ segir Guðbjörg. Flugið sem hún tók í gærmorgun með United Airlines út úr landinu var það síðasta á vegum flugfélagsins. Delta Airlines er eina flugfélagið sem flýgur enn út úr landinu og segir Guðbjörg líklegt að það muni hætta að fljúga á sunnudaginn. Eftir það verður ekki flogið út úr Kosta Ríka fyrr en í fyrsta lagi 4. maí. 

Hún segir ástandi í Kosta Ríka hafa breyst hratt og að fólk sé orðið stressað. Búið er að loka landamærum fyrir öllum útlendingum og hver veitingastaðurinn á fætur öðrum er að loka. 

Þetta land byggir næstum því allt sitt lífsviðurværi á ferðamannaiðnaðinum og hefur gert það í mörg, mörg ár. Það algert útgöngubann milli 22:00 og 05:00 nema fyrir sjúkrabíla.
Öll sem geta og eru upplýst um aðstæður eru í sjálfskipaðri sóttkví ástæðan fyrir því að ég nefni „þau sem eru upplýst“ er að hér er mikil stéttarskipting og það er bara þannig að sem einstaklingur í lægri stétt samfélagsins hérna getur vel verið að þú vitir ekki hvað sé að eiga sér stað í alþjóðasamfélaginu og/eða gerir þér ekki grein fyrir alvarleika málsins.

Við höfum ekki öll aðgengi að Internetinu og ef maður er að reyna að uppfylla grunnþarfir sínar svosem hafa í sig og á dag frá degi og eiga þak yfir höfuðið þá er fátt annað sem skiptir máli. Sem dæmi átti ég samtal við konu sem vinnur sem þjónustukona á heimili í síðustu viku og hún vissi ekki um hvað ég væri að spyrja þegar ég fór að spjalla um COVID-19,“ segir Guðbjörg. 

Þakklæti er Guðbjörgu efst í huga þar sem hún situr með rauðvín í plastglasi á flugvellinum í New York, á leið til London og síðan loks til Íslands. 

Á flugvellinum í New York þann 25. mars að bíða …
Á flugvellinum í New York þann 25. mars að bíða eftir næsta flugi. Ljósmynd/Aðsend

Ég flaug til New York í morgun og er þar núna að bíða eftir næsta flugi með rauðvínsglas í plastglasi með loki og röri. Það kemur bara sápa úr einum vask en stemningin er samt sem áður bara frekar góð. Það er lítill fugl hérna inni flögrandi um að létta gestum lífið.

Næsti leggur er til London og þar mun ég koma til með að vera í sólarhring að bíða eftir fluginu mínu heim til Íslands. Ég tel mig bara vera nokkuð heppna með þessa leið og þakka enn og aftur borgaraþjónustunni fyrir alla aðstoðina, þau eru búin að vera dásamleg í gegnum þetta allt, þakka sérstaklega Ólöfu hjá sendiráði Íslands í Kanada og Sesselju í New York. Það er aldeilis verið að passa upp á okkur íslendingana á heimleið og það fyllir mann rosalega miklu öryggi og hlýju,“ segir Guðbjörg.

Hún hyggst snúa aftur til Kosta Ríka þegar storminn tekur að lægja og landamærin opin útlendingum á ný. „Skólinn er á vegum Sameinuðu þjóðanna og einhverra hluta vegna næstum því einungis „útlendingar“ sem sækja nám í hann þannig það verður spennandi að sjá hvað setur en ég fer aftur til Kosta Ríka það er klárt mál, hvenær sem það verður. Í bili er það öryggið, heilsan og fjölskyldan sem skipta öllu máli,“ segir Guðbjörg.

mbl.is