Heppin að komast heim

Dagbjört Arnþórsdóttir vann á heilsuhosteli á Balí.
Dagbjört Arnþórsdóttir vann á heilsuhosteli á Balí. Ljósmynd/Aðsend

Dagbjört Arnþórsdóttir er nýkomin heim frá Balí og er nú í sóttkví. Dagbjört flutti til Balí í janúar en þar starfaði hún meðal annars sem jógakennari. Dagbjört segist hafa tekið skyndiákvörðun og ákveðið að koma heim. Hún veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér, hvort hún fari aftur til Balí eða eitthvert annað.

„Í nóvember í fyrra fór ég til Indlands í jóganám. Eftir það fór ég til Balí í smá frí þar sem Balí er þekkt fyrir jóga og heilsu. Þar sá ég að nýtt heilsuhostel var að opna í janúar og sótti ég þar um sem jógakennari og gestgjafi. Ég var svo heppin að fá vinnuna á staðnum. Ég ákvað þó að eyða jólunum heima og fór svo strax aftur út eftir áramót. Starfið mitt fólst í því að kenna jóga og að verja tíma með gestunum, koma þeim inn í aðstæður,“ segir Dagbjört.

Dabjört segir að það hafi alls ekki verið stefnan að koma heim í mars. 

„Ég var ekki búin að ákveða heimkomudag en þegar veiran fór versnandi tók ég skyndiákvörðun og pantaði miða heim. Fjölskyldan heima fór líka að ýta undir það að ég kæmi heim en ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var orðið alvarlegt fyrr en ég var á leiðinni heim. Á Balí fannst mér flestir vera í öðrum heimi og enginn að taka veirunni eins alvarlega og í Evrópa. Ég er mjög fegin því að ég tók þá ákvörðun þar sem ég hefði ekki viljað vera föst á Bali með lélega heilbrigðisþjónustu.“

Hvernig gekk að komast heim?

„Það gekk ágætlega en það tók mig tvo daga. Ég flaug frá Balí til Istanbúl og svo til London þar sem fluginu var aflýst og þurfti ég því að eyða einni nótt þar. Ég var heppin að hafa bókað rétt flug þar sem nánast öll flug voru aflýst frá Balí á sama tíma og ég fór heim.“

Mikið er um heilsusamlega staði þar sem Dagbjört bjó á …
Mikið er um heilsusamlega staði þar sem Dagbjört bjó á Balí. Ljósmynd/Aðsend

Hvað var það sem heillaði við Balí? 

„Bali er einn af uppáhaldsstöðunum mínum. Ég hef komið þangað nokkrum sinnum og mér líður alltaf mjög vel þar. Balí er mjög vinsæll ferðamannastaður og þangað fer fólk ýmist í djammferðir eða í jógaferðir. Ég sjálf bjó í Ubud og er sá staður þekktur sem „hippabær“ en þar er mikið af jógastöðvum og heilsusamlegum kaffihúsum. Menningin á Balí er áhugaverð og mér finnst heimamenn alltaf svo góðhjartaðir. Alltaf tilbúnir að gefa þó þeir eigi ekki mikið sjálfir.“

Stefnir þú að fara aftur út þegar þetta faraldurinn er yfirstaðinn? 

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun þar sem það er svo mikil óvissa hvað gerist næst. Ég hef ferðast víða um heiminn og er það eitt af því skemmtilegasta sem ég geri. Ég er viss um að ég fari aftur til Balí en hvort það sé á næstunni veit ég ekki. Mig langar mikið að ferðast um Mexíkó og Gvatemala. En svo gæti líka verið að ég skelli mér í háskóla í haust.“

Hvernig er lífið í sóttkví þessa dagana?

„Það er alltaf gott að koma heim og finnst mér það vera besti hlutinn af ferðalögunum. Það var erfitt að koma heim og mega ekki knúsa sína nánustu og hitta ömmu mína. En ég er svo heppin að koma frá góðri fjölskyldu sem passar að sóttkví aðstaða mín sé notaleg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert