Styles fastur í Kaliforníu

Styles er fastur í Kaliforníu vegna veirunnar og hefur þurft …
Styles er fastur í Kaliforníu vegna veirunnar og hefur þurft að fresta fyrirhuguðu tónleikaferðalagi. AFP

Breski tónlistarmaðurinn Harry Styles er fastur í Kaliforníu í Bandaríkjunum um þessar mundir. Styles ætlaði að fljúga heim til Bretlands fyrir nokkrum dögum en vegna útbreiðslu kórónuveirunnar ákvað hann að sleppa því og halda sig í Kaliforníu. 

Ferðaplön Styles á árinu hafa ekki bara breyst heldur hefur hann þurft að fresta og endurskipuleggja tónleikaferðalag sitt um Bretland og Evrópu sem átti að hefjast í maí. 

„Það er augljóslega svekkjandi, en það er ekki næstum því það mikilvægasta þessa stundina,“ sagði Styles í viðtali í útvarpsþætti á Capital FM.

Styles hefur nýtt tíma sinn í Kaliforníu. Hann er í sjálfskipaðri sóttkví með nokkrum vinum sínum. Hann er byrjaður að læra ítölsku og táknmál. 

„Þetta er búið að vera smá erfitt, en samt allt í lagi. Ég er heppinn með vini sem ég er í sjálfskipaðri einangrun með. Þetta eru skrítnir tímar en við erum bara varkár, hlustum á tónlist, spilum leiki og setjum á okkur maska, allt þetta klassíska sem maður gerir í sóttkví,“ sagði Styles. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert