Ferðin var tilfinningalegur rússíbani

Þór­unn Þöll Ein­ars­dótt­ir og hundurinn Gríma. Þórunn er komin til Íslands frá …
Þór­unn Þöll Ein­ars­dótt­ir og hundurinn Gríma. Þórunn er komin til Íslands frá Slóvakíu þar sem hún stundar nám en Gríma varð eftir. ljósmynd/aðsend

ÞórunnÞöll Einarsdóttirer dýralæknanemi íKosiceSlóvakíu. Hún kom til Íslands á þriðjudaginn í síðustu viku eftirtvo dramatíska sólarhringaþar sem hún vissi ekki hvort eða hvernig hún myndi komast heim. Í fyrstu áttuÞórunn og skólasystkini hennarflug frá Vín til Íslands enflugu að lokum heim frá Búdapestþar sem þau komust sem betur fer í gegnum strangt landamæraeftirlit.   

Þórunn segir um 20 íslenska nema íKosice. Um helmingur þeirra var farinn heim þegar Þórunn og félagar ákváðu að halda til Íslands. Þórunn segir að íslenski hópurinn hafi verið tvístígandi þrátt fyrir að búið væri að loka skólanum. Ástæðan er sú að skólayfirvöld sögðu skólann mögulega verða opnaðan áður en landamærin opnuðust aftur. Sem betur fengu þau það staðfest í byrjun vikunnar að vorönninni lýkur í fjarnámi. Að komast heim til Íslands fyrir rúmri viku var ekki auðvelt þar sem landamæri Slóvakíu voru lokuð. Eftir að Íslendingar voru hvattir til þess að koma sér heim ákvað hópurinn hins vegar að láta á það reyna ásamt stórum hópi af íslenskum læknanemum í Martin í Slóvakíu.  

Fyrir um einni og hálfri viku voru öll löndin fimm sem liggja að Slóvakíu búin að loka landamærum sínum nema Austurríki. Það var því auðveldast að koma sér heim í gegnum Austurríki. Dýralæknanemarnir og læknanemarnir í Martin ákváðu því að fljúga heim frá Vín með Wizzair á þriðjudagsmorgni. 

Þórunn og dýralæknanemar í Slóvakíu.
Þórunn og dýralæknanemar í Slóvakíu. ljósmynd/aðsend

Fluginu aflýst

Flugi íslensku nemanna var hins vegar aflýst innan við sólarhring fyrir brottför. Þau höfðu pantað rútu að landamærum Austurríkis. 

„Við vorum að klára að setja í töskur og ganga frá íbúðunum okkar og komin með pössun fyrir hundana. Það var svolítið sjokk þegar fluginu var aflýst þar sem við vorum búin að panta einkarútu sem átti að sækja okkur klukkan átta um kvöldið og fara með okkur að landamærunum sem liggja að Austurríki. Þar áttum við að hitta krakkana frá Martin og fara með þeim fótgangandi yfir landamærin. Í Austurríki átti að bíða eftir okkur rúta til að fara með okkur öll á flugvöllinn í Vín,“ segir Þórunn.  

Klukkan átta á mánudagskvöldið í síðustu viku var rútan komin fyrir utan en Þórunn og félagar enn að meta hvað þau ættu að gera. Þau voru búin að borga 400 evrur fyrir rútuna og þurftu að ákveða hvort þau ætluðu að aka áleiðis með henni. Þau gátu mögulega komist til Vínar og flogið til Íslands með millilendingu í London.  

Ákváðu að bíða eftir leyfi til að fara til Ungverjalands

„Fyrr um kvöldið höfðum við fengið tölvupóst frá Þóri Ibsen hjá utanríkisráðuneytinu um að hann væri að vinna að því að fá sérstakt leyfi fyrir okkur, svokallað „humanitarian corridor“, til að koma okkur yfir ungversku landamærin. Hann tók það þó fram að það væri alls ekki gefið að þetta leyfi færi í gegn og við þyrftum bara að bíða eftir að það kæmi í ljós.“ 

Vegna óvissunnar ákváðu dýralæknanemarnir í Kosice að fara ekki upp í rútuna sem hefði getað komið þeim áleiðis til Bratislava. Bratislava er við landamærin að Austurríki og bara klukkutíma frá Vín.  

Hluti af íslensku dýralæknanemunum á Julebord sem er einskonar árshátíð …
Hluti af íslensku dýralæknanemunum á Julebord sem er einskonar árshátíð sem Norðmenn halda. ljósmynd/aðsend

Aðstæður dýralæknanemanna voru fljótar að breytast. Nokkrum tímum eftir að rútan fór eða klukkan hálfellefu um kvöldið fengu þau þær upplýsingar að íslenski hópurinn í Martin ætlaði að fara að landamærum Ungverjalands og vonast til þess að leyfið væri komið í gegn. Þau ætluðu síðan að reyna að ná beinu flugi frá Búdapest til Íslands. 

„Þarna hafði okkur ekki dottið í hug að leyfið kæmi í gegn svona fljótt og vorum því ekki búin að finna nýjan bíl til að keyra okkur að ungversku landamærunum. Þarna hófst stressið fyrir alvöru, því við vissum að við þyrftum að koma okkur yfir landamærin með læknanemunum frá Martin. Þau voru tilbúin með rútu til að keyra af stað og voru einnig tilbúin með rútu við landærin í Ungverjalandi til þess að keyra okkur öll á flugvöllinn í Búdapest,“ segir Þórunn.  

Slóvakískir vinir komu til bjargar

Sem betur fer voru tveir slóvakískir vinir dýralæknanemanna tilbúnir til þess að skutla hópnum að landamærunum á bílum. Áætlunin gekk þó ekki alveg eftir og töfðust Þórunn og samnemendur hennar. Einnig er styttra frá Martin til landamæra Ungverjalands þar sem hópurinn þurfti að fara yfir landamæri og því var á brattann að sækja ef hópurinn ætlaði að hitta hina Íslendingana og ná fluginu. 

Vegna óviðráðanlegra ástæðna seinkaði öðrum bílnum. Þórunn var í bílnum sem fór af stað en þegar hópurinn sá fram á að seinni hópurinn kæmist ekki af stað kom ekkert annað til greina en að snúa við. Sem betur reddaðist málið og Þórunn lagði í annað sinn af stað að landamærum Slóvakíu og Ungverjalands klukkan eitt um nótt. Þá átti hópurinn eftir að keyra leið sem tekur vanalega þrjá og hálfan tíma, komast yfir landamæri sem hópurinn hefði að öllum líkindum ekki leyfi til þess að fara yfir og ná flugi. Allt á fimm og hálfum tíma. Þórunn lýsir ferðinni sem tilfinningalegum rússíbana. Hópurinn vissi að hann væri búinn að missa af læknanemunum frá Martin og þurfti að treysta á allt of hraðan akstur og velviljaða landamæraverði.  

„Ég var frekar svartsýn þegar við lögðum af stað. Fannst þetta alltof knappur tími og frekar óraunhæft að þetta gæti í alvöru tekist. En bílstjórarnir okkar keyrðu hratt og það var engin umferð alla leiðina. Þegar við vorum búin að vera í bílnum í um klukkutíma og við heyrðum að læknanemarnir hefðu komist yfir þá fór að koma von,“ segir Þórunn en læknanemarnir höfðu fengið þau fyrirmæli frá utanríkisráðuneytinu að útskýra vel fyrir landamæravörðum að von væri á fleira fólki með sama leyfi. 

Þórunn og kærastinn Aron á leiðinni heim til Íslands í …
Þórunn og kærastinn Aron á leiðinni heim til Íslands í síðustu viku. ljósmynd/aðsend

Eins og í bíómynd að vera á landamærunum

Klukkan fjögur aðfaranótt þriðjudags komu Þórunn og félagar að landamærunum. Þau fóru út á bensínstöð í Slóvakíu og gengu svo með ferðatöskurnar í eftirdragi inn á milli vörubíla til að komast að landamærunum. 

„Þegar við gengum yfir landamærin var allt svolítið súrrealískt, stressið í hámarki og niðamyrkur. Það voru margir lögreglumenn og nokkrir hermenn í kringum okkur sem fylgdust grannt með úr fjarlægð, manni leið smá eins og maður væri staddur í bíómynd. Slóvakísku landamæraverðirnir litu á leyfisbréfið en það var allt á ungversku en þeir virtust kannast við þetta og við héldum áfram inn í Ungverjaland,“ segir Þórunn. 

Þegar yfir landamærin var komið biðu leigubílar eftir hópnum sem hópurinn hafði pantað frá Búdapest um miðja nótt. Tveir og hálfur tími voru í flugið og klukkutíma akstur að flugvellinum. 

„Tilfinningin var svolítið sturluð þegar við lögðum af stað og vonin búin að breytast í spenning og við vorum orðin frekar bjartsýn á að ná fluginu. Síðastliðnir fimm tímar voru í þoku enda vorum við orðin mjög þreytt. Þegar á flugvöllinn var komið gátum við loksins dregið andann léttar.“

Þakklát fyrir að vera komin heim

Þórunn er ánægð með að vera komin heim en saknar þó hundsins Grímu sem hún og kærasti hennar Aron, sem einnig er dýralæknanemi, eiga í Slóvakíu. 

„Ég átti 25 ára afmæli þennan dag svo þetta var frekar skrýtin byrjun á afmælisdeginum og honum verður seint gleymt held ég. Mamma beið með blóm og var búin að koma sérbíl til okkar svo við gátum nokkur keyrt heim beint í sóttkví. Foreldrar okkar áttu mikinn þátt í því að hvetja okkur að koma heim þar sem flugumsamgöngur fóru snarminnkandi. Þetta var síðasta flugið til Íslands frá Búdapest í bili.“

Eins og fram kom í byrjun hefur nú verið ákveðið að ljúka önninni með fjarnámi og taka nemendur próf í gegnum netið. Það er léttir fyrir íslensku nemendurna að ná að ljúka skólanum á réttum tíma. Þórunn segir hins vegar stóran hluta námsins vera verklegan og mun sá hluti fara fram næsta haust.

„Í lokin viljum við þakka Þóri Ibsen sérstaklega fyrir alla hjálpina sem og bílstjórunum okkar sem tóku það á sig að keyra fram og til baka um miðja nótt. Eins var gott að vita af nemendunum í Martin og þökkum við þeim einnig fyrir að halda sambandi við okkur. Við erum mjög þakklát fyrir að vera komin heim,“ segir Þórunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert