Komast ekki heim úr rándýrri brúðkaupsferð

Hjónin eru föst í brúðkaupsferðinni.
Hjónin eru föst í brúðkaupsferðinni. mbl.is/Colourbox.dk

Hin nýgiftu Olivia og Raul De Freitas frá Suður-Afríku ætluðu að vera á Maldíveyjum í sex daga til þess að fagna brúðkaupi sínu. Brúðkaupsferðin hefur lengst aðeins en De Freitas-hjónin eru nú föst í þessari ferðamannaparadís vegna kórónuveirufaraldursins. 

Hjónin komu til Maldíveyja hinn 22. mars að því fram kemur á vef Daily Mail. Þau komust hins vegar ekki heim eins og áætlað var. 

Hjónin segja frábært að fá aukadaga í brúðkaupsferðinni en ferðin er þó ekki bara dans á rósum. Hótelið kostar undir venjulegum kringumstæðum rétt yfir 100 þúsund íslenskar krónur nóttin. Hjónin fá vænan afslátt en segja þó að hver dagur kosti sitt. Marga dreymir um að festast á paradísareyjum líkt og De Freitas-hjónin. Þegar sá draumur verður að veruleika verður hann líkari martröð ef marka má orð hjónanna. 

Hjónin voru á fjórða degi í brúðkaupsferðinni þegar þau fréttu að loka ætti flugvöllum í Suður-Afríku. Vegna þess hversu langan tíma það tekur að fara á milli landsins og Maldíveyja náðu þau ekki að fljúga heim með svo skömmum fyrirvara. Hjónin hafa ekki gefið upp vonina og vonast til þess að fá meiri upplýsingar fljótlega.

mbl.is