Í sömu ferðafötunum alla páskana í fyrra

Greta Salóme er vön að vera á Íslandi um páskana.
Greta Salóme er vön að vera á Íslandi um páskana. mbl.is/Hanna

Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir er vön að vera á Íslandi um páskana en ferðast þá yfirleitt upp í bústað. Undantekning var á í fyrra þegar hún fór til Asíu í tónleikaferðalag en farangurinn skilaði sér ekki og segir hún ferðina ekki í miklu uppáhaldi. 

„Ég geri ráð fyrir að vera heima hjá mér þessa páskana, svona eins og alla daga núna. Ég er hins vegar búin að ákveða hvernig páskaegg ég ætla að fá mér þannig að ég er byrjuð að telja niður og hlakka mikið til að eiga tíma með manninum mínum heima,“ segir Greta Salóme um páskana í ár. 

Hefur þú nýtt páskana til þess að ferðast erlendis?  

„Ég spila svo mikið erlendis að ég hef einmitt nýtt páskana í að vera heima. Það er yfirleitt mikið af tónlistarverkefnum sem ég er í heima um páskana og ég átti einmitt að vera að spila nokkra tónleika í ár. Í fyrra var þó undantekning þar sem ég var að spila úti í Indlandi og Mjanmar. Ég fékk aldrei farangurinn minn í þeirri ferð þannig að ég eyddi öllum páskunum í sömu fötunum og ég fór í frá Íslandi. Get ekki sagt að þetta hafi verið uppáhaldstónleikaferðin mín.“ 

En innanlands? 

„Fyrir utan síðustu páska hef ég alltaf farið á Laugarvatn með fjölskyldunni þar sem við erum með bústaði. Þetta hafa verið svo ótrúlega góð frí þar sem við höfum öll verið saman og eldað og borðað páskaegg.“ 

Hvernig verða þessir páskar öðruvísi en vanalega? 

„Þetta er í fyrsta skiptið sem ég er ekki að spila um páskana og bara heima. Það er ótrúlega skrýtin tilfinning að vera ekki að koma fram og vera bara í því að vona að það verði allt í lagi með manns nánustu og í rauninni heiminn allan. Ég held að það hafi samt allir gott af smá núllstillingu og ég hugsa páskana í ár þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert