Leiðinlegast að hitta ekki ástvini

Margrét Ósk Guðbergsdóttir var búin að skipuleggja þrjár ferðir.
Margrét Ósk Guðbergsdóttir var búin að skipuleggja þrjár ferðir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Ósk Guðbergsdóttir ætlaði að vera á ferð og flugi innanlands og erlendis þessar vikurnar. Hún hefur þurft að hætta við tvær ferðir innanlands og allt lítur út fyrir að utanlandsferð í byrjun maí verði einnig slegið á frest. Margrét ætlaði að hitta vini og fjölskyldu í öllum þessum ferðum. 

„Það var á planinu að fara til Ísafjarðar að heimsækja elsku Stellu ömmu sem er á hjúkrunarheimilinu Eyri. Rétt áður en ég pantaði flug og gistingu fyrir okkur fékk ég að vita að það væri búið að loka Eyri. Það var alveg einstaklega leiðinlegt því við vorum búin að hlakka svo mikið til að kynna nýjasta fjölskyldumeðliminn fyrir henni sem hún amma dásamar út í eitt. Hún hefur hingað til bara séð myndir af langömmustelpunni sinni.“ 

Amma Margrétar þarf að bíða aðeins lengur eftir að fá að hitta yngsta barn Margrétar en samskiptin fara nú fram símleiðis og með bréfaskrifum. 

„Ég hringi reglulega í hana en hún er farin að heyra illa þannig að það er allt annað að hitta hana. Annars var ég líka að senda henni bréf og myndir sem ég veit að hún mun hafa einstaklega gaman af,“ segir Margrét. 

Margrét Ósk með börnum sínum. Eitthvað verður í það að …
Margrét Ósk með börnum sínum. Eitthvað verður í það að amma hennar hitti yngsta barn Margrétar Óskar. Ljósmynd/Aðsend

Margrét ætlaði að fara til Akureyrar um páskana en ákvað að hætta við vegna þess að ekki er ætlast til þess að fólk fari í ferðalög innanlands um páskana. Á Akureyri ætlaði hún að hitta vinafólk en sú heimsókn verður að bíða. 

Ertu vön að ferðast um páskana? 

„Já ég ferðast yfirleitt eitthvað um páskana og oftast fer ég norður á Akureyri að hitta vinafólk eða til Ísafjarðar að hitta ömmu. Einnig höfum við farið á Gilsstaði rétt hjá Hólmavík.“

Loks var Margrét búin að panta ferð til Svíþjóðar í maí. 

„Við erum ekki alveg búin að gefa hana upp á bátinn en ætlum að taka stöðuna þegar nær dregur. Eigum bókað í byrjun maí. Mamma okkar verður sextug 11. maí og við ætluðum að fara saman að heimsækja systur mína sem býr þar ásamt manni sínum og dóttur,“ segir Margrét. 

„Það sem er leiðinlegast er að missa af því að hitta ástvini sína og gera eitthvað skemmtilegt með þeim sem maður elskar,“ segir Margrét en allar ferðirnar eiga það sameiginlegt að hún ætlaði að hitta vini og fjölskyldu. 

Nærðu að líta á björtu hliðarnar á þessu öllu saman? 

„Já maður reynir að hugsa jákvætt og muna setninguna „this too shall pass“ en þetta er rosalega leiðinlegt að þurfa að hætta við alls konar hittinga og ferðalög. Maður vonar bara að þessu ljúki sem fyrst. Ég held að óvissan sé það versta í þessu öllu saman. Maður tekur allavega ekkert sem sjálfsagt eftir þetta og er þakklátur fyrir að eiga góða að.“

Margrét Ósk ásamt ömmu sinni sem býr á Ísafirði.
Margrét Ósk ásamt ömmu sinni sem býr á Ísafirði. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert