Ætla til Grikklands þegar ferðabannið er búið

Sóley og fjölskylda ætla til Grikklands þegar öruggt er að …
Sóley og fjölskylda ætla til Grikklands þegar öruggt er að ferðast aftur. Ljósmynd/Andreas Markakis

Sóley Kaldal sérfræðingur í áhættugreiningum og alþjóðamálum hjá Landhelgisgæslu Íslands er gift Jakobi Jakobssyni arkitekt og teiknara. Saman eiga þau tvö börn, þau Óla sem er átta ára og Steinu fjögurra ára. Fjölskyldan hefur ferðast mikið í gegnum tíðina og á tvo uppáhalds taði til að fara í frí til, annar þeirra er Grikkland. 

„Við hjónin höfum verið saman frá unglingsaldri og ferðalög hafa sannarlega einkennt sambandið. Það hefur alltaf verið einhver útþrá í okkur, óstöðvandi þorsti fyrir nýjum menningarheimum, tungumálum og upplifunum. Við höfum búið eða dvalið langdvölum saman víðsvegar um heiminn. Sem dæmi í Danmörku, Grænlandi, Bandaríkjunum, Englandi og Svíþjóð. Þar sem við höfum svo oft verið búsett erlendis eru ferðalögin til Íslands okkur minnisstæð. Við höfum ferðast um Ísland þvert og endilangt og tekið inn alla dýrðina af sömu aðdáun og aðrir sem fá ekki að hafa hana fyrir augunum í hversdagslífinu. Það ferðalag sem þó stendur sérstaklega upp úr er brúðkaupsferð okkar hjóna til Krítar á Grikklandi.“

Undirbjuggu brúðkaupsferðina snemma

Sóley segir að rétt áður en hún og Jakob kynntust hafi þau bæði verið á ferð um Krít með foreldrum sínum og af þeim sökum hafi þau alltaf viljað fara þangað saman. 

„Næsta áratuginn vorum við fátækir námsmenn úti í heimi og höfðum aldrei ráð á því að ferðast þangað, en ákváðum að láta drauminn rætast þegar við fórum brúðkaupsferðina okkar. Ferðin var draumi líkust í alla staði og grísku eyjarnar eru að okkar mati hreinlega paradís á jörðu. Blágrænn sjórinn, dýrðlegur maturinn, arkitektúrinn og ilmurinn í loftinu. Við viðuðum að okkur helstu leyndarmálum innfæddra um staði til að skoða, leigðum okkur svo litla vespu og brunuðum í gegnum ólífutrjálundina á hvern töfrandi áfangastaðinn á fætur öðrum, flestir út úr alfaraleið. Á köldum og dimmum vetrardögum fer ég oft til baka í huganum í þessa ferð og lifi á minningunum.

Það má líka segja að þessi ferð hafi staðfest ástarsamband okkar við Grikkland og við höfum reynt að fara þangað reglulega síðan.“

Sóley segir að lengi vel hafi hún verið verulega léleg í að pakka. 

„Ýmist var ég með allt of mikið, því ég vildi vera með dress fyrir öll tilefni, eða allt of lítið, því ég nennti ekki að burðast með of mikið. Guðrún systir mín leysti það mál fyrir fullt og allt með því að benda mér á svokölluð ferðanet, þ.e. rennda netapoka sem hægt er að pakka fötum ofan í. Ferðanet fást eflaust víða, en þau sem við notum eru frá japanska merkinu Muji. Hver fjölskyldumeðlimur á því núna sitt net og fær aðeins að taka með það sem kemst í netið. Það hjálpar mikið að hafa svona takmarkað en vel skilgreint pláss fyrir fatnaðinn og eftir því sem við pökkum oftar í netin fer maður að fá betri tilfinningu fyrir því hvað er passlegt magn.“

Sóley er mikill sérfræðingur í ferðalögum og hefur góð ráð …
Sóley er mikill sérfræðingur í ferðalögum og hefur góð ráð í pokahorninu þegar kemur að því m.a. að pakka.

Er eitthvað sem þú ert sérfræðingur í sem tengist ferðalögum og þú vilt deila með lesendum?

„Ég er ekki aðeins í áhættugreiningum í vinnunni, heldur almennt í lífinu, og það hefur stundum hjálpað á ferðalögum. Ég reyni alltaf að fara í gegnum það í huganum hvað gæti farið úrskeiðis og hvernig hægt sé að lágmarka skaðann af því. Til dæmis gætu börnin sullað einhverju yfir sig eða okkur í fluginu og þá er óþægilegt að sitja áfram blautur og klístraður í marga klukkutíma. Ég reyni því alltaf að taka eitt sett af þægilegum og fyrirferðarlitlum aukafötum fyrir fjölskylduna í handfarangur. Þetta er líka hjálplegt ef töskur úr farangursrými skila sér ekki og þá hef ég gjarnan potað tannburstunum einnig með í handfarangur. Ég reyni líka að vera með helstu lyf sem við gætum þurft að nota eins og verkjalyf, ferðaveikislyf og áburð við skordýrastungum. Ég hef oftar en einu sinni verið vinsælasta konan í hópnum því ég var með sjóveikistöflur uppi við.

Eitt lúxustrikk sem gæti hjálpað þeim sem fóru aðeins og geyst í búðunum er að taka með sér lofttæmispoka. Það eru pokar sem er hægt að innsigla og eru með stút fyrir ryksugu og með því að sjúga allt loftið úr er hægt að breyta fyrirferðarmiklum fatnaði og taui í grjótharða klessu sem tekur mun minna pláss í töskunni.“

Áður meira fyrir að fara í búðir en nú meira fyrir ströndina

Sóley segir að þegar hún hafi verið yngri hefði hún verið mjög spennt að komast í búðir en nú sé hún oftast æst í að komast í sjóinn. 

„Ég er algjör kuldakreista og hef ekki treyst mér í sjósund á Íslandi, en ég algjörlega elska að svamla í sjónum. Draumafríið er við hægláta strönd með stórfjölskyldunni eða góðum vinahjónum þar sem börnin eru að busla saman í leik og við foreldrarnir í afslöppun með góða bók. Sól, hiti og D-vítamín, svona það helsta sem okkur skortir hér á þessu annars yndislega landi.“

Hvaða sess skipa ferðalög í þínum huga nú þegar við lifum á tímum sem ekki er hægt að ferðast?

„Við fjölskyldan erum nýkomin til Íslands en við höfðum verið búsett í Bandaríkjunum frá því síðasta sumar. Við ætluðum að vera þar fram á sumar en þurftum því miður að snúa heim vegna heimsfaraldursins. Við vorum því enn eina ferðina búin að vera á löngu ferðalagi og að mörgu leyti erum við bara fegin að vera komin heim í öryggið á Íslandi. Þessi faraldur sýnir okkur bara hvað ferðalög eru mikill munaður sem fölnar í samanburði við öryggi ástvina og landsmanna. Við hlökkum mikið til að ferðast um Ísland þegar það verður aftur leyfilegt og ég held að við Íslendingar séum alveg ótrúlega heppin með það hvað við eigum fjölbreytt og spennandi land að skoða.“

Hvað gerir þú alltaf áður en þú ferð í ferðalag?

„Ég útbý eða prenta út tékklista yfir nauðsynlega hluti því það er svo auðvelt að gleyma sér þegar maður er að stressast við að klára eitthvað í vinnunni, þrífa íbúðina, pakka og sinna börnum á sama tíma. Ef maður er með upptalninguna fyrir framan sig er hægt að dunda við að stinga þessu niður í tösku – og svo er svo gaman að setja x við það sem maður er búinn að leysa. Svo hleð ég niður nokkrum vel völdum hlaðvarpsþáttum til að hlusta á í fluginu.“

Hvert ætlarðu að ferðast þegar ferðabanni verður aflétt?

„Til Danmerkur og Grikklands. Eftir langa búsetu í Kaupmannahöfn er borgin okkar annað heimili, auk þess sem mágur minn og konan hans búa þar og við söknum þeirra mikið. Svo þrái ég grískt salat við blíðan sjávarnið og læt mig dreyma um áhyggjulítið eyjalíf, en það liggur ekki á því að uppfyllan þann draum. Stundum eru draumar bestir óuppfylltir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert