Stefnir á að koma til allra ríkja Bandaríkjanna

Silja við Bítlastytturnar í Almaty í Kasakstan.
Silja við Bítlastytturnar í Almaty í Kasakstan. Ljósmynd/Aðsend

Silja Bára Ómarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur komið til fjölda landa í heiminum. Hún þekkir líka Bandaríkin vel, enda einn helsti sérfræðingur Íslands um bandarísk stjórnmál. Silja hefur komið til 44 ríkja Bandaríkjanna og stefnir á að heimsækja öll 50 ríkin á lífsleiðinni.  

Til hvaða landa hefur þú komið? 

Þau eru tæplega 70 svo kannski aðeins of mörg til að telja upp hér. Er ekki með neitt sérstakt markmið um fjölda eða tiltekin lönd, en ég er hins vegar að vinna að því að koma til allra ríkja Bandaríkjanna. Ég bjó þar í rúman áratug og þykir mjög vænt um bæði land og þjóð. 

Banteay Srei – eitt af hofunum í Angkor Wat, Kambódíu.
Banteay Srei – eitt af hofunum í Angkor Wat, Kambódíu. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig ferðalögum ert þú hrifin af? 

Mér finnst bara gaman að ferðast, næstum alveg sama hvernig það er. Það kemur auðvitað fyrir að eitthvað sé ekki skemmtilegt – var til dæmis mjög pirruð á baki asna í Atlasfjöllunum í Marokkó þegar það kom í ljós að asnarnir réðu ekki við snjóinn og við þurftum að ganga, rennblaut í fæturna þar sem við bjuggumst ekki við snjónum. Ég hef reyndar sérstakt dálæti á bílferðum og hef ferðast um 44 ríki Bandaríkjanna – bara sex eftir – og mest á bíl. Ég hef líka verið svo heppin að komast í siglingar upp á síðkastið og það er alveg frábær leið til að ferðast um vissa staði – m.a. fór ég þannig um Frönsku Pólynesíu og sá meira en ég hefði getað trúað að væri hægt á einni viku. 

Átt þú þér einhverja uppáhaldsborg?

Enga eina, nei. Ho Chi Minh-borg, Belgrað og Portland í Oregon eru meðal þeirra sem ég held upp á. Einhvern tímann hefði ég sagt Jerúsalem, en með hverri heimsókn þangað finnst mér erfiðara að vera þar, þar sem ofbeldið gegn Palestínumönnum verður æ sýnilegra. 

Kampot pipar – á piparrækt í Kampot, Kambódíu
Kampot pipar – á piparrækt í Kampot, Kambódíu Ljósmynd/Aðsend
Með kóalabirni í Brisbane í Ástralíu.
Með kóalabirni í Brisbane í Ástralíu. Ljósmynd/Aðsend

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

Sigling á Suðurskautslandið um síðustu jól – kannski bara vegna þess að hún er nýafstaðin en ég á erfitt með að ímynda mér að ég upplifi annað eins um ævina; landslagið, dýralífið og svo auðvitað ferðalagið sjálft – tveggja sólarhringa sigling frá syðsta tanga Suður-Ameríku – var alveg ógleymanlegt.  

Áttu þér einhvern eftirlætismat sem þú hefur fengið á ferðalögum?

Nei, það er bara gaman að smakka það sem er vinsælt á hverjum stað fyrir sig – í Víetnam fannst mér best að borða á götum úti og leita þá uppi staðina sem heimamenn sátu á, í Bandaríkjunum er æðislegt að stoppa í smábæjunum og finna hverfisveitingastaðinn. Í einum slíkum í Arizona tyllti gengilbeinan sér alltaf við borðið hjá okkur og spjallaði þegar hún kom með eitthvað – frábær leið til að kynnast fólki. 

Mörgæs á Suðurskautslandinu.
Mörgæs á Suðurskautslandinu. Ljósmynd/Aðsend
Painted Hills, ein af náttúruperlum Oregon.
Painted Hills, ein af náttúruperlum Oregon. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða stað mælir þú með að fólk heimsæki? 

Einn mesti sælureitur sem ég hef kynnst er í Kampot, sem er í suðurhluta Kambódíu. Ég var í litlum bæ sem heitir Kep um jólin fyrir nokkrum árum. Þar eru ótrúlega falleg hús sem frumskógurinn hefur tekið yfir og apar búa í, enda voru eigendurnir flæmdir á brott í stríðinu þar og enginn veit hver á hvað. Þarna er líka ræktaður besti pipar í heimi og maturinn er mjög góður.

Stytturnar á Páskaeyju.
Stytturnar á Páskaeyju. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlarðu að gera um páskana? 

Ætli ég hlýði ekki tillögum Almannavarna og ferðist innanhúss. Spurning um að sofa í gestaherberginu 1-2 nætur? 

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn? 

Ferðalögin sem frestuðust í vor og sumar voru meðal annars til Hawaii, Síle og Namibíu. Ég held að ég reyni að koma einhverjum þeirra aftur á dagskrá sem fyrst. Svo hlakka ég mjög til að fara út í Hrísey í sumar með vinkonum mínum.

Pöndur í Kína.
Pöndur í Kína. Ljósmynd/Aðsend
Rangiroa – komin í gúmmíbát eftir að snorkla yfir hákörlum …
Rangiroa – komin í gúmmíbát eftir að snorkla yfir hákörlum í bláa lóninu á Rangiroa, Frönsku Pólynesíua Ljósmynd/Aðsend
Fallinn drumbur í redwoos skógi í Kaliforníu.
Fallinn drumbur í redwoos skógi í Kaliforníu. Ljósmynd/Aðsend
Selur á Suðurskautslandinu.
Selur á Suðurskautslandinu. Ljósmynd/Aðsend
Sumarsólstöður á Suðurskautslandinu í desember 2019.
Sumarsólstöður á Suðurskautslandinu í desember 2019. Ljósmynd/Aðsend
Með mörgæsum á Suðurskautslandinu.
Með mörgæsum á Suðurskautslandinu. Ljósmynd/Aðsend
Við Taj Mahal á Indlandi.
Við Taj Mahal á Indlandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert