Ferðalagið mitt til Jamaíku snarklikkað

Snorri kann einstaklega vel við sig á ferðalögum og segist …
Snorri kann einstaklega vel við sig á ferðalögum og segist sérfræðingur í að njóta og slaka á.

Listamaðurinn Snorri Ásmundsson segist ekki vera túristi þótt hann sé á ferðalögum. Hann ferðast einvörðungu ef það er erindi á bak við ferðalagið. Hann er rólegur og nýtur tímans þótt hann geti ekki ferðast núna.

Snorri er á því að allar áskoranir eiga sér lausn og á bak við allt sem er erfitt leynist eitthvað jákvætt líka.

„Það sem ég sé jákvætt núna er að við erum byrjuð að heila jörðina og náttúruna með færri flugferðum svo dæmi séu tekin. Eins gefa þessir tímar okkur tækifæri til að endurskoða margt sem okkur hefur þótt sjálfsagt. Það hvetur okkur til breytinga.“

Sjaldnast túristi þótt hann ferðist 

Snorri hefur ferðast vítt og breitt um jörðina, en hann segir skemmtilegasta ferðalagið sem hann hafi farið í til þessa vera ferðalag innanlands. 

„Það var þriggja daga bakpokaferðalag frá Kröflu að fjallinu Eilífi. Framhjá Litla- og Stóra-Víti, sem endaði á Þeistareykjum. Ferðalög innanlands eru stórbrotin og við erum svo rík að náttúruauði.“

Hann segist þó sjaldan vera túristi þótt hann ferðist. 

„Ég upplifi mig mjög sterkt sem jarðarbúa og að jörðin sé mitt heimili. Ég er fæddur og uppalinn á Íslandi en er með góða aðlögunarhæfni og finnst ég geta búið hvar sem er á jörðinni. Ég þarfnast ekki mikils af þægindum og bið ekki um mikið og get mjög auðveldlega farið út úr þægindarammanum, en ég lifi í þakklæti fyrir það sem fæ að upplifa. Ég hef fengið tækifæri til að ferðast, búa og dveljast í þó nokkrum löndum í styttri eða lengri tíma, en ég er heillaður af Mexíkó og hef fengið að fara þangað nokkrum sinnum. Ferðalag mitt til Aserbaídsjan er skrítnasta ferðalag sem ég hef farið í og ferðalag mitt til Jamaíku snarklikkað. Uppáhaldsborgin mín er Vínarborg og ekki má gleyma París þar sem ég eyddi tveimur sumrum á vinnustofu vinkonu minnar Myriam Bat Yosef.“

Með sterkar taugar til Kaliforníu

Snorri hefur eytt töluverðum tíma einnig í Kaliforníu í gegnum árin og segist hafa sterkar taugar þangað.

„Þótt Los Angeles kunni að vera höfuðborg hégómans á hún margar skemmtilegar hliðar. Borgin er að mínu mati mesta matarborg í heimi og úrvalið af góðum mat óþrjótandi. Það er stutt að fara á ströndina og stutt að fara út í eyðimörkina og upp í fjöll. Þar hef ég stundað siglingar, farið í indíánagufubað (svett) og tekið þátt í eyðimerkurkappakstri á gömlum Cadillac svo dæmi séu tekin. Þar á ég líka marga góða vini.“ 

View this post on Instagram

I will miss the hammock 🕊🍀🍊

A post shared by Snorri Asmundsson (@snorriasmundsson) on Mar 30, 2020 at 1:05am PDT

Hvernig pakkarðu fyrir ferðalög og hvernig er ferðataskan? 

„Ég fer aldrei með mikinn farangur og reyni að halda mig við eina flugfreyjutösku eða ekki miklu stærri tösku en það.“

Sérfræðingur í að slaka á og njóta

Er eitthvað sem þú ert sérfræðingur í sem tengist ferðalögum?

„Ég er sérfræðingur í að slaka á og njóta. Stundum kalla vinir mínir mig prinsinn því ég lifi í allsnægtum hvert sem ég fer og það á ég þakklætinu að þakka. Því þegar maður er fullur af þakklæti og með opinn huga og hjarta; þá gerast ævintýrin.“

Snorri segir að í dag skipti vinir hans mestu máli. 

„Ég er moldríkur af fallegum vinum. Þakklæti er lykillinn að hamingjunni og gerir fólk meira aðlaðandi.“

Hvað gerir þú alltaf áður en þú ferð í ferðalag?

„Ég passa upp á að vera með vegabréfið á sínum stað. Ég hugleiði og fer á fund, en annars er ég alltaf tilbúinn til að ferðast með stuttum fyrirvara.“

En hvað gerir þú aldrei?

„Ég drekk aldrei áfengi aftur og reyki heldur aldrei aftur.“

Snorri segir mikilvægt að við mætum framtíðinni óttalaus og með fullt traust á almættið. Því allt hefur sínar skýringar, þótt við vitum kannski ekki hverjar þær eru núna. 

Um leið og ferðabanni verður aflétt ætlar hann að heimsækja San Miguel í Mexíkó þar sem sérstakt aðsetur fyrir listamenn er að finna. 

View this post on Instagram

Sana Ba Lana Corona Meditation video now on youtube. https://youtu.be/qMIbKniXhW0

A post shared by Snorri Asmundsson (@snorriasmundsson) on Mar 18, 2020 at 11:52pm PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert