Mælir með heimsókn til Húsavíkur í sumar

Andri Valur á ættir að rekja til Húsavíkur og mælir …
Andri Valur á ættir að rekja til Húsavíkur og mælir með fólk heimsæki bæinn í sumar, fari í Sjóböðin og skelli sér í Ásbyrgi. Ljósmynd/Aðsend

Andri Valur Ívarsson, lögmaður Bandalags háskólamanna, hefur ferðast vítt og breitt um heiminn og komið til yfir 30 landa. Hann er hrifinn af hverskyns ferðalögum bæði innanlands sem utanlands. Á sumrin vill hann helst ferðast innanlands og mælir sérstaklega með að fólk ferðist um Þingeyjarsýslurnar, enda á Andri ættir að rekja þangað og er meðal annars gjaldkeri í Þingeyingafélaginu. 

Eitt eftirminnilegasta ferðalag Andra er þegar hann, eiginkona hans og vinir eltu karlalandsliðið í fótbolta um Frakkland á EM 2016.

Andri og eiginkona hans komu nýlega heim úr ferðalagi frá Keníu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og eru nú í sóttkví. Sóttkvínni lýkur á föstudaginn langa og gera þau hjón ráð fyrir að hlýða Víði um páskana og ferðast innanhúss.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifinn af?

Það fer bæði eftir árstíðum og veðurfari. Utan Íslands hef ég mjög gaman af borgarferðum og sérstaklega á aðventunni. Ég hef líka gaman af því að ferðast um löndin sem ég heimsæki og kynnast menningunni, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Sem dæmi vorum við í heilan mánuð að ferðast um Perú fyrir nærri 10 árum og okkur gafst tími til að skoða heilmikið í þessu stóra landi. Fyrir nokkrum árum vorum við líka í heilan mánuð á Kúbu þar sem við meðal annars giftum okkur í Havana og ferðuðumst um eyjuna.

Við hjónin erum talsvert dugleg að ferðast um Ísland á sumrin og tökum ævinlega á okkur krók og kíkjum á og skoðum staði sem eru ekki í alfaraleið. Á eftir Þingeyjarsýslunum á ég erfitt með að gera upp á milli landshluta og svæða. Þetta er svo æðislegt land sem við búum í og allir landshlutar hafa sinn sjarma. 

Fyrir leik Íslands og Nígeríu í Volgograd í Rússlandi.
Fyrir leik Íslands og Nígeríu í Volgograd í Rússlandi. Ljósmynd/Aðsend

Átt þú þér einhverja uppáhaldsborg?

Amsterdam er í miklu uppáhaldi hjá okkur hjónum og við höfum komið þangað nokkuð oft. Það á þó eftir að koma í ljós hvort nýleg reynsla okkar hafi breytt einhverju þar um, en við vorum nýlega föst í heimasóttkví á pínulitlu hótelherbergi á Schiphol-flugvelli í þrjá sólarhringa eftir að COVID-19 batt enda á ferðalag okkar í Kenía og við þurftum að drífa okkur heim áður en við yrðum innlyksa. Ég má líka til með að nefna New York-borg, þar sem við eigum ættingja og vini sem við reynum að heimsækja sem oftast. Svo er Kaupmannahöfn svo skammt í burtu og alltaf jafn frábær. 

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

Þau eru tvö sem koma upp í hugann. Annars vegar sumarið 2016 þegar við hjónin ásamt vinafólki keyrðum þúsundir kílómetra á húsbíl um Frakkland og eltum íslenska karlalandsliðið sem var að spila á EM í knattspyrnu. Við vorum með kort sem svipar til Útilegukortsins hérna heima nema með því bauðst okkur að leggja bílnum og gista í hlaðinu hjá vínbændum. Algengasta máltíðin í ferðinni var vín beint frá bónda sem drukkið var með nýbökuðu baguette brauði og dýrindisostum undir markísu með útsýni yfir vínekruna. Inn á milli römbuðum við á veitingastaði sem buðu undantekningalaust upp á frábæran mat.

Hins vegar er það mánaðarlöng dvöl okkar hjóna á Kúbu. Við giftum okkur í Havana og fórum svo í nokkurra vikna bakpokaferðalag um þetta æðislega land.

Á brúðkaupsdaginn í Havana.
Á brúðkaupsdaginn í Havana. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér einhvern eftirlætismat sem þú hefur fengið á ferðalögum?

Ég gæti borðað miðausturlenska matinn í Líbanon og Jórdaníu alla daga. Mat eins og hummus, falafel, kibbeh, og tabbouleh. Annars er það mjög eftirminnilegt í ferðinni í Frakkland þegar við enduðum einn daginn á gömlum lúnum veitingastað fjarri mannabyggð og staðurinn minnti jafnvel svolítið á gamla Staðarskála í Hrútafirði. Við reyndumst fyrstu kúnnarnir þetta kvöldið og kokkurinn skrifaði sem snöggvast matseðil dagsins í gamla útkrotaða minnisblokk. Hrafnasparkið sem hann hafði hripað niður var hálfóskiljanlegt svo við enduðum á að velja nánast handahófskennt af „matseðlinum“ og vonuðum það besta. Maturinn sem borinn var á borð reyndist algjörlega frábær. Bæði bragðaðist hann frábærlega og var fagurlega framreiddur. Ég bjó það til með sjálfum mér, án þess að hafa nokkuð fyrir mér annað en að hafa borðað matinn þarna, að kokkurinn hefði verið uppgjafar Michelin-kokkur sem gaf stjörnulífið upp á bátinn og flutti út á land fjarri ys og þys en hélt áfram að elda frábæran mat. 

Þessi mynd er tekin á slóðum Arabíu-Lawrence í Wadi Rum …
Þessi mynd er tekin á slóðum Arabíu-Lawrence í Wadi Rum dalnum í Jórdaníu þar sem hjónin gistu úti undir berum stjörnulýstum himni. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða stað mælir þú með að fólk heimsæki?

Íslenska sumarið finnst mér æðislegt og reyni ég því að vera sem mest á Íslandi þá. Í ljósi stöðunnar geri ég ráð fyrir að ferðalög innanlands verði ráðandi hjá fólki í sumar. Þá er tilvalið að skella sér norður og heimsækja Húsavík og keyra demantshringinn um Ásbyrgi, Dettifoss og Mývatnssveit og baða sig í Sjóböðunum á Húsavík og Jarðböðunum í Mývatnssveit. Kíkja í Dimmuborgir og hvalaskoðun. Svo er stutt til Akureyrar þar sem er gjarnan gott veður.

Vilji fólk frekar fara á Austurland mæli ég með Borgarfirði eystri, Stórurð, Vök böðunum, Seyðisfirði (sem er næstfallegasti bær landsins) að ógleymdu Óbyggðasetrinu í Norðurdal inn af Fljótsdal sem er algjörlega frábært safn. Kökuhlaðborðið þar, í fallegasta eldhúsi landsins, svíkur heldur engan.

Ef leiðin liggur á Vestfirðina þá verður enginn svikinn af austurhluta Vestfjarðakjálkans. Að keyra Strandaveg norður frá Drangsnesi í Djúpavík og áfram í Norðurfjörð og baða sig í Krossneslaug er frábær upplifun. 

Hvað ætlarðu að gera um páskana?

Við hjónin ljúkum sóttkví á föstudaginn langa og ég geri fastlega ráð fyrir að hlýða Víði og ferðast innanhúss um páskana. 

Hvert langar þig að ferðast þegar heimsfaraldurinn er yfirstaðinn?

Okkur er boðið í sveitabrúðkaup í Japan í júlí sem enn hefur ekki verið slegið af. Vonandi verður ástandið í heiminum þá orðið sæmilegt svo af brúðkaupinu geti orðið. Ef ekki þá leggjum við bara enn meiri áherslu á ferðalög innanlands í sumar. Það hefur lengi verið draumur hjá mér að eignast lítinn jeppa og geta ferðast meira um miðhálendið. Ég hef aðeins ferðast um hálendið en á býsna mikið óséð og ógert þar upp frá.

Í neðanjarðarlestakerfi New York-borgar.
Í neðanjarðarlestakerfi New York-borgar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert