Fyrsta stökkið rétt fyrir ferðabann

Unnur Guðný stökk sitt fyrsta fallhlífarstökk rétt fyrir ferðabann. Hún …
Unnur Guðný stökk sitt fyrsta fallhlífarstökk rétt fyrir ferðabann. Hún bíður spennt eftir því að komast í háloftin aftur.

Unnur Guðný María Gunnarsdóttir flugfreyja hefur um árabil ferðast vítt og breitt um heiminn. Hún er ýmist í farþega- eða sjúkraflugi. Hún er spennt fyrir því að ferðabanni verði aflétt svo hún geti haldið áfram í fallhlífarstökki sem hún komst upp á lagið með rétt fyrir bann.  

Unnur Guðný er síður en svo flughrædd, enda hefur hún starfað sem flugfreyja í 23 ár, bæði hjá Air Atlanta, Icelandair og Flugfélaginu Erni. Í raun segir hún það skemmtilegasta sem hún geri að kynnast nýjum löndum og menningu ásamt því að ferðast innanlands.

Hún er með heimili á tveimur stöðum í dag. Unnusti hennar er þaulvanur fallhlífarstökkvari og heitir Hermóður Jón Hilmarsson. Hann á tvær dætur og samtals eiga þau fjölskyldan þrjá hunda.

„Við búum bæði í Hafnafirði og á Akranesi, ásamt því að dveljast fyrir norðan í Aðaldal þar sem hann er fæddur og uppalinn, þannig að við ferðumst á milli staða reglulega.“

Margt hægt að gera á 28 dögum

Hún segir erfiða spurningu að svara hvaða ferðalag sé henni minnisstæðast. Enda sé hún svo gæfusöm að hafa farið víða. 

„Ég fór til dæmis í ferð í kringum heiminn á vegum Loftleiða þar sem við heimsóttum sjö undur veraldar á 28 dögum. Páfagarður, Maldíveyjar í Suður-Asíu, Taj Mahal á Indlandi og Medjugorje í Bosníu eiga sérstakan stað í hjarta mér. Nú síðari ár hef ég verið mun duglegri að ferðast innanlands og því meira sem maður sér af heiminum þykir manni Ísland alltaf stórkostlegri staður. Hér heima eru mínir eftirlætisstaðir að heimsækja Laxá í Aðaldal, Grímsá í Borgarfirði og Vestmannaeyjar.“

xxx
xxx

Af þeim ferðalögum sem hafa haft hvað mest áhrif á hana minnist hún þess að hafa heimsótt þorpið Medjugorje, mitt í hinum króatíska hluta Bosníu

„Það er helgur staður þar sem María mey er talin hafa birst hópi barna fyrir nær 40 árum. Það hafði djúpstæð áhrif á mig og var mjög sérstök lífsreynsla. Landið var einnig einstaklega fallegt og fólkið alveg sérstaklega vinalegt. Saga landsins er mikil og stórbrotin og þangað reikar hugurinn oft.“ 

Unnur Guðný sér einnig um trúfræðslu í Kaþólsku kirkjunni og …
Unnur Guðný sér einnig um trúfræðslu í Kaþólsku kirkjunni og hefur hún heimsótt m.a. þorpið Medjugorje, mitt í króatíska hluta Bosníu. Þar sem María Mey birtist skólabörnum fyrir fjörutíu árum síðan.

Er vonlaus að pakka ofan í tösku

Ertu góð að pakka fyrir ferðalög?

„Ég er því miður alveg vonlaus pakkari og tekst einhvern veginn alltaf að vera með allt of mikinn farangur og ekkert af því sem mig vantar. Alveg sama hvert ég fer þá gleymi ég yfirleitt að taka yfirhöfn, regnhlíf og sólgleraugu. Ég á því dágott safn af misfallegu dóti sem ég kippi með í einhverri götusölu.

Ferðatöskum á ég nóg af, en þær eru yfirleitt keyptar í flýti þegar ég er á leiðinni heim og sé að taskan sem ég fór með út dugar ekki ein og sér.“

Er eitthvað sem þú ert sérfræðingur í sem tengist ferðalögum?

„Já, ég er sérfræðingur í að villast enda áttavillt með eindæmum. Google maps er því ómissandi ferðafélagi fyrir mig og hefur sparað mér ómældan tíma.“ 

Hver vegur að heiman er vegurinn heim

Unnur segir að þótt hún geti ekki ferðast í dag sé hún þakklát fyrir lífið og allt yndislega fólkið sem í kringum hana er.

„Eins er ég þakklát fyrir heilsuna og eins klisjukennt og það hljómar reyni ég að lifa í núinu, njóta augnabliksins og vera þakklát fyrir lífið.“

Unnur Guðný hefur í árabil starfað sem flugfreygja og ferðast …
Unnur Guðný hefur í árabil starfað sem flugfreygja og ferðast víða um heiminn vegna atvinnu sinnar.

Hvaða sess skipa ferðalög í þínum huga núna?

„Þau skipa auðvitað stóran sess þar sem ég hef atvinnu af því að fljúga fólki milli áfangastaða innanlands og svo í sjúkraflugi milli landa. Ég vona innilega að þegar um hægist fari fólk að ferðast meira innanlands og kynna sér allt það stórkostlega sem Ísland hefur upp á að bjóða.“

Að upplifa á staðnum er mikilvægt

Unnur Guðný segir að alltaf þegar hún ferðast reyni hún að forðast að gera sér fyrirframhugmyndir um staðinn sem hún er að fara á. Hún reynir að upplifa og njóta bara þegar hún er komin á staðinn. 

„Eins reyni ég að gleyma því ekki að hver vegur að heiman er vegurinn heim. En ég vona svo innilega að allir leggist á eitt við að aðstoða íslenska ferðaþjónustu á þessum erfiðu tímum og að öll þau litlu frábæru fyrirtæki sem hafa hjálpað til við að byggja Ísland upp sem spennandi áfangastað nái flugi að nýju.“

Ferðalagið sem Unni Guðnýju langar að taka þegar ferðabanni verður aflétt er ekki eitt heldur gengur hún með þrjá ferðadrauma í maganum. 

„Mig langar að ganga Jakobsveginn með kærastanum og svo langar mig í fallhlífarstökk í Flórída, en fyrsta stökkið sem fór fór ég í þar rétt áður en ferðabann var sett á. Mig langaði að klára næsta stökk í maí. Ég get varla hugsað um annað þessa dagana en kærasti minn kom mér á bragðið, hann er vanur fallhlífarstökkvari. Svo dreymir mig um að fara til Kongó í Mið- Afríku að hitta górillur sem þar búa. Við sjáum hvað lífið færir mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert