Í hálfgerðu sjálfskipuðu samkomubanni í 15 ár

Óttar M. Norðfjörð býr í Barcelona með fjölskyldu sinni.
Óttar M. Norðfjörð býr í Barcelona með fjölskyldu sinni. ljósmynd/Eloísa Vázquez

Rithöfundurinn Óttar M. Norðfjörð býr með eiginkonu sinni, Eloísu Vázquez, og syninum Oliver í Barcelona. Fjölskyldan hefur verið í útgöngubanni undanfarnar vikur en Óttar er ekki óvanur heimavinnunni þrátt fyrir að hann sakni þess að geta farið á kaffihús og gengið um götur borgarinnar. 

„Ég flutti fyrst til Spánar vegna spænskrar eiginkonu minnar, en féll fljótlega fyrir landi og þjóð og lífsmáta Spánverja og kann mjög vel við mig hér. Eftir nokkur ár í Sevilla á Suður-Spáni, þaðan sem konan mín er, fluttum við til Barcelona út af vinnunni hennar en líka vegna þess að við elskum borgina,“ segir Óttar um ástæðuna fyrir því að hann býr á Spáni. 

Hvað er það sem heillar við borgina þegar lífið gengur sinn vanagang?

„Barcelona er einfaldlega ein besta borg sem ég hef komið til. Milt veður, iðandi menningarlíf, strönd og fjöll nálægt, Miðjarðarhafsmatur og gott verðlag. Það er auðvelt að ferðast héðan, til dæmis á Costa Brava, klukkustund með lest til Frakklands og frábær flugvöllur. Borgin á sér líka mjög áhugaverða sögu, eldgömul hverfi í bland við Gaudí-byggingarlist úti um allt og nýtískulegan arkitektúr.“

Hvernig hefur útgöngubannið haft áhrif á þig og fjölskyldu þína? 

„Við höfum í raun sloppið furðu vel, því ég er rithöfundur og vinn heima, konan mín er í ljósmyndanámi sem var fært á netið og strákurinn okkar sem er tæplega tveggja ára er ekki byrjaður í leikskóla. Daglega rútínan okkar fór náttúrulega í rugl, en í staðinn varð til önnur rútína inni á heimilinu.“ 

Hvað hafið þið verið að gera undanfarnar vikur? 

„Konan mín og strákurinn minn hafa varla farið út í heilan mánuð, á meðan ég fer út að versla í matinn. Konan mín er komin 37 vikur á leið, svo við viljum ekki taka neina sénsa. Við leikum mikið við strákinn okkar og lesum fyrir hann, en leyfum honum líka að glápa aðeins meira á sjónvarpið en venjulega svo við fáum smá frið til að vinna. Þetta gengur bara merkilega vel fyrir sig.“ 

Óttar M. Norðfjörð hlakkar til að fara aftur í göngutúra …
Óttar M. Norðfjörð hlakkar til að fara aftur í göngutúra um Barcelona. ljósmynd/Eloísa Vázquez

Er það ekki draumur fyrir rithöfund að vera bara fastur heima?

„Jú, það má alveg segja það, og kannski má líka segja að útgöngubannið sé ekki svo ólíkt dags daglegu lífi rithöfundarins. Maður hefur verið í hálfgerðu sjálfskipuðu samkomubanni síðustu 15 árin! Það er kannski helst að vera með litla gaurinn heima sem truflar aðeins, en meira að segja það er komið upp í vana.“

Hefur þú hugsað um að flýja til Íslands? 

„Nei, aldrei þessu vant var engin Íslandsferð plönuð þetta sumarið, alveg óháð veirunni, því eins og ég segi, við konan mín eigum von á barni eftir 2-3 vikur, svo við ætluðum hvort sem er að taka því rólega í sumar og eitthvað inn í haustið.“ 

Nú virðist sjá fyrir endann á þessu útgöngubanni. Hvað er það fyrsta sem þú ætlar að gera þegar þú ert algjörlega frjáls ferða þinna á Spáni? 

„Ég er með mjög einfaldan smekk. Ég sakna þess að fara í göngutúra um borgina, að anda að mér lífinu alls staðar, að fara á uppáhaldskaffihúsið mitt sem er líka bókabúð (La Central). Svo sakna ég þess að fara í almenningsgarðinn sem ég fór reglulega í með soninn minn (Turó Parc). Ég mun örugglega fara með hann þangað daginn sem útgöngubanninu verður aflétt og fara í besta róló ævi minnar.“

Ný skáldsaga

Á dögunum kom út ný skáldsaga eftir Óttar, Dimmuborgir, sem fjallar um bókagagnrýnandann Elmar sem kemst á snoðir um morð vinar síns sem framið var 25 árum fyrr. Óttar vill ekki meina að sagan sé klassísk glæpasaga. „Ég held að söguþráðurinn komi fólki á óvart og sé nokkuð öðruvísi en fólk grunar,“ segir Óttar.

„Ég fór svolítið viljandi frá því sem hefur verið í gangi,“ segir Óttar. „Þar sem lögreglan leysir eitthvert morðmál og það er svakalegur drungi yfir öllu.“

Óttar segist ekki viss hvort áður hafi verið skrifuð glæpa- eða spennusaga um bókagagnrýnanda enda sé nokkuð létt yfir þessari sögu. „Það er léttur tónn í bland við alvarlegt mál.“ 

Tekur á einelti

Óttar segir kveikjuna að bókinni hafa verið sjálfsvíg manns sem hann þekkti nokkrum árum áður en hann hóf skrif bókarinnar. Óttar þekkti manninn, sem var eldri en hann, þegar hann var lagður í einelti sem unglingur. „Þetta var á tíunda áratugnum og var svolítið brútal, hann fékk að finna fyrir því. Hann hafði samt plumað sig en svo mörgum árum seinna gat hann ekki meir,“ segir Óttar.

Hann vildi því skrifa sögu sem tæklaði einelti og tileinkar bókina fórnarlömbum slíks ofbeldis. „Þegar maður fréttir af þessu finnur maður að harmurinn og sorgin fer aldrei, ef einhver lendir svona illa í þessu. Mig langaði að fjalla um þetta með einhverju móti. Þetta var kjarninn en svo fer skáldskapurinn af stað þegar maður byrjar að skrifa.“

Óttar segist sjálfur þekkja báðar hliðar eineltis, var lagður í einelti og tók svo seinna þátt í að leggja krakka yngri en hann í einelti. „Þetta er eitt af því fáa sem maður sér virkilega eftir. Maður var náttúrlega svo vitlaus og vissi ekki betur.“

Einhver álög yfir öllu

Þó Óttar vilji ekki gefa of mikið upp um söguþráð bókarinnar segir hann nafn hennar, Dimmuborgir , hafa mikla þýðingu fyrir framvindu bókarinnar. „Fyrir aðalpersónurnar tvær hefur þessi staður mikla þýðingu,“ segir Óttar.

Dimmuborgir segir hann merkilegan stað. „Ég var hrifinn af því að geta sett mikilvæga senu í bókinni þar. Fyrir utan að vera ótrúlega fallegur staður þá er hann líka svo dulmagnaður. Með alla þessa álfasteina og álfatrú og sögur af huldufólki sem tengjast honum. Þegar ég fer þarna um finnst mér einhver álög yfir öllu. Ég trúi ekki á svona en sögurnar af þessum stað eru svo áhugaverðar og flottar.“

Sögusviðið hefur mikla tengingu við æsku Óttars. „Þetta er Reykjavíkursaga og ég sæki mikið í mitt eigið líf, eins langt og það nær,“ segir hann og bendir á að persónurnar séu vitaskuld skáldaðar.

Bókin bankaði upp á

Skrif bókarinnar hafa tekið síðustu sex árin að sögn Óttars og segist hann ekki hafa getað sleppt því að klára bókina. „Ég var alltaf mjög hrifinn af grunnhugmyndinni, grunnplottinu. Ég held að það sé örlítil nýjung í íslenskum glæpasögum.“

Óttar lagði bókina um tíma frá sér í langan tíma, hálfnaður með skrif hennar. „Ég reyndi oft að komast í hana aftur en festist alltaf í kvikmynda- og þáttaskrifum. Síðan fyrir tveimur árum fór ég í barneignarfrí í þrjá mánuði og fékk þá frí frá kvikmyndaiðnaðnum. Þá bankaði þessi bók allt í einu upp á aftur.“

Á þeim tíma var bókin mun líkari hefðbundinni glæpasögu, dökkt var yfir söguþræðinum og persónunum líka. Þá hafði Óttar nýlokið vinnu sinni við skrif á handriti sakamálaþáttanna Brots sem sýndir voru hér á landi í lok síðasta árs og í upphafi þessa árs. „Þá hugsaði ég: mig langar ekki að gera þetta aftur. Og þá breytti ég um stílinn og tónninn varð allt annar,“ segir Óttar en honum var seinna bent á að þessi stíll væri kallaður „cosy mystery“ á ensku en hefði ekki notið mikilla vinsælda meðal rithöfunda hér á landi.

Kvikmynd í bígerð

Óttar var aðalhandritshöfundur áðurnefndra þátta, Brots , sem Netflix framleiddi og eru kallaðir „The Valhalla Murders“ á enskri tungu. Þá hefur hann unnið að ýmsum kvikmyndaverkefnum í gegnum árin, þar á meðal handriti fyrir kvikmynd byggða á hans eigin skáldsögu, Una , sem ráðgert er að fari í tökur í ár en þessa dagana er ekki víst hvenær nákvæmlega þær hefjast sökum kórónuveirunnar. Með Óttari vann Marteinn Þórsson að handritinu og hefur kvikmyndin fengið styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

„Minn áhugi lá alltaf í kvikmyndum þegar ég var ungur og ég ætlaði aldrei að skrifa bækur heldur handrit fyrir bíómyndir,“ segir Óttar. „Ég byrjaði á bíóhandriti þegar ég var 15 ára en vissi ekkert hvað ég var að gera og þá leiddist ég út í að skrifa bækur.“

Fyrir um 10 árum fór Óttar smám saman að nálgast þessa fyrstu ást sína í skrifum ef svo má segja. „Þetta vatt bara upp á sig.“

Hann segir handritaskrif á margan hátt lík bókaskrifum en þó einnig mjög ólík. „Í grunninn er maður að segja sögu og ég hef lært mikið um að skrifa handrit með því að skrifa skáldsögur,“ segir hann.

„En það er mjög skýr munur sem ég tók eftir þegar ég byrjaði aftur að skrifa þessa bók. Í bókum er maður helst að segja meira og í bíóhandritum minna.“ Í kvikmyndahandritum sé því fátt verra en þegar allt er matað ofan í áhorfandann en því er akkúrat öfugt farið þegar skáldsögur eru lesnar.

„Ég get sem dæmi ekki unnið á sama tíma í kvikmyndahandriti og í skáldsögu. Ég þarf bara að segja að núna í viku muni ég vinna í bók en ekki kvikmyndahandriti. Þá þarf ég að skipta ekki bara um gír heldur einfaldlega skipta um bíl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert