Pakka saman Nostalgíu og halda heim

Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson halda heim á leið.
Herdís Hrönn Árnadóttir og Sævar Lúðvíksson halda heim á leið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Herdís Hrönn Árnadóttir og sambýlismaður hennar Sævar Lúðvíksson hafa neyðst til að loka barnum sínum Nostalgíu á Tenerife tímabundið. Herdís segist þó horfa bjartsýn fram á veginn en þau Sævar eru á leið heim til Íslands. 

„Til að byrja með héldum við að það yrði bara lokað í tvær til fjórar vikur hérna en svo gerðist þetta svo hratt hjá Spánverjunum og við fengum bara einhvern þriggja daga fyrirvara til að loka,“ segir Herdís í viðtali við mbl.is.  

Hún segir að þau geti opnað barinn aftur í fyrsta lagi í haust þegar áætlað er að flugsamgöngur hefjist aftur. „Við höfum ekkert hér að gera fyrr en það verður aftur flogið frá Skandinavíu svo í stað þess að hanga hér og gera ekki neitt ákváðum við að fara heim,“ segir Herdís. Sumarvertíðin er alla jafna rólegasti tími ársins hjá þeim og segir því Herdís að það sé fínt að taka þetta út núna yfir sumar mánuðina. 

Herdís var í óða önn að pakka íbúðinni þeirra saman þegar blaðamaður náði tali af henni. Þau Sævar fengu sæti í vél sem er á leið til Svíþjóðar. Þar þurfa þau að dvelja í tvo daga og fara svo til Íslands. 

„Það er svolítið fúlt að þurfa að fljúga til Svíþjóðar þar sem við erum búin að vera í sóttkví hérna í fimm vikur. En við gerum það bara og förum svo í sóttkví í tvær vikur þegar við komum heim og svo gerum við eitthvað skemmtilegt,“ segir Herdís. 

Hún er ekki komin með neina vinnu í sumar en segist vera bjartsýnis manneskja að eðlisfari og hefur ekki miklar áhyggjur. 

„Mér líður núna eins og mér leið fyrir fjórum árum þegar við vorum að pakka fyrir Tenerife. Ef ég finn ekki vinnu þá bara bý ég bara til eitthvað sjálf,“ segir Herdís en þau Sævar voru ekki með barinn Nostalgíu í plönunum áður en þau fluttu út. 

„Ég segi alltaf að það liggja alltaf tækifæri þegar kreppa kemur og þá þarf maður að finna þau tækifæri,“ segir Herdís. Síðasta rekstrarár var það besta til þessa á barnum og segir Herdís það auðvelda allt fyrir þeim. 

Útgöngubann er í gildi á Spáni og fá íbúar aðeins leyfi til að fara í matvöruverslanir og í apótek. Lögreglan gengur vopnuð um göturnar og stoppar fólk til að spyrja það í hvaða erindagjörðum það sé. 

„Við förum oftast á bílnum í búðina því fólk er oftar stöðvað af lögreglunni þegar það er labbandi. Og maður þarf að gera grein fyrir ferðum sínum og passa upp á að hafa kvittun úr búðinni til að sýna fram á að maður hafi verið þar,“ segir Herdís. 

„Við Sævar þolum ennþá hvort annað. Það er auðvitað sorglegt að fá ekki að hitta vini sína og svoleiðis en við vorum að læra að nota Netflix. Við horfðum aldrei á sjónvarpið því við vorum alltaf að vinna á barnum á kvöldin,“ segir Herdís og bætir við að hún hafi líka aldrei eldað jafn mikið og á síðustu vikum, því þau voru jú alltaf að vinna á kvöldin.

Herdís og Sævar búa niðri í miðbæ Los Cristianos og þrátt fyrir að þurfa að vera heima hjá sér hafa þau tekið eftir ýmsum nýjum hlutum í náttúrunni. Þau heyra betur ölduniðinn frá hafinu og heyra í fuglunum syngja, en gatan sem þau búa við iðar jafnan af mannlífi.

„Maður finnur bara að jörðin er í fíling. Hún er að jafna sig. Það eru komnir höfrungar í sjóinn hér við bæinn en þeir hafa ekki sést þar í langan tíma,“ segir Herdís.

Herdís og Sævar hafa því pakkað saman barnum sínum og bíða eftir að komast heim til Íslands. Herdís segir þó að þau verði í fyrsta fluginu aftur til Tenerife þegar ástandið hefur batnað.

„Nostalgía bíður bara þar til haustið kemur,“ segir Herdís.

mbl.is