„Ég er alin upp í flugheiminum“

Ragnheiður Brynja útskrifaðist úr Flugskóla Íslands 2019.
Ragnheiður Brynja útskrifaðist úr Flugskóla Íslands 2019. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Brynja Pétursdóttir er í atvinnuflugmannsnámi. Það kom aldrei neitt annað til greina en að fara í flugbransann og þrátt fyrir erfitt ástand í flugheiminum núna er engan bilbug á henni að finna. 

„Ég er í atvinnuflugmannsnámi hjá Flugskóla Íslands sem sameinaðist Keili síðastliðið vor. Við þennan samruna stækkaði skólinn og flugflotinn sem er jákvætt fyrir nemendur. Það er einnig gaman að sjá hversu mikil aukning er í að stelpur leggi þetta fyrir sig,“ segir Ragnheiður Brynja um nám sitt. 

„Það kom eiginlega ekkert annað til greina þegar ég fór að huga að framtíð minni. Ég er alin upp í flugheiminum en foreldrar mínir hafa ávallt unnið við flugið á einn eða annan hátt. Einnig voru bæði móður- og föðurafar flugstjórar áður en þeir fóru á eftirlaun þannig að allt í kringum mig hefur snúist um flug frá því ég man eftir mér. Ég á mér því margar fyrirmyndir þegar það kom að því að velja mér starfsvettvang. Í gegnum foreldra mína hef ég upplifað hvað það skiptir miklu máli að vera ánægður í starfi sem maður velur sér sem framtíðarstarf. Á sama tíma og þessi heimur er ótrúlega spennandi þá er hann einnig mjög óáreiðanlegur eins og heimsbyggðin er að upplifa í dag.

Frá því ég var lítil stelpa var ég ákveðin í að verða flugmaður og þegar ég fór í fyrsta flugtímann var ekki aftur snúið. Ég byrjaði í einkaflugsnáminu 19 ára gömul með menntaskóla en áður en ég skráði mig í atvinnuflugmannsnámið fór ég í heimsferð og  Hússtjórnarskólann. Nú stefni ég á að klára atvinnuflugnámið um leið og hægt er sökum ástandsins.“

Ragnheiður Brynja fór í heimsreisu fyrir nokkrum árum. Hér er …
Ragnheiður Brynja fór í heimsreisu fyrir nokkrum árum. Hér er hún í falllhlífarstökki í Sydney. Ljósmynd/Aðsend

Eins og hjá svo mörgum öðrum hefur kórónuveirufaraldurinn haft áhrif á námið. 

„Bóklegum prófum hefur verið frestað en ef allt gengur eftir fara prófin fram í lok maí. Auk þess seinkar veiran verklega náminu þar sem nemendur geta ekki flogið með flugkennara en þetta hefur mikil áhrif á þá sem eru að klára verklega námið.“

Ástandið í heiminum í dag hefur ekki áhrif flugmannsdraum Ragnheiðar Brynju. 

„Ég finn ekki fyrir neinum bakþönkum og ekki heldur vinir mínir í náminu. Það eru ávallt niðursveiflur í flugheiminum og ef mann langar að leggja þetta fyrir sig þá verður maður að gera ráð fyrir því að það komi erfiðir tímar þó að þessi niðursveifla sé af öðrum toga en hingað til. Ef ég horfi á jákvæðu hliðina þá er kostur að vera að læra á þessum tíma og ég ætla að njóta þess eins og hægt er. Flugnámið er gríðarlega skemmtilegt og fjölbreytt og í gegnum námið hef ég eignast góða vini sem er ómetanlegt. Þetta er mjög einstaklingsbundið nám og nemendur eru að klára á mismunandi tíma en við höldum góðu sambandi og stöppum stálinu í hvert annað.“

Hvað er það besta við að fljúga um loftin blá?

„Það er svo margt sem er gaman við að fljúga en það helsta er að geta hoppað upp í vél og flogið nánast hvert sem er. Þú finnur fyrir frelsi, víðáttu og friðsemd ein með sjálfri þér en það eru forréttindi að hafa tækifæri á að fljúga yfir okkar fallega land. Maður gleymir alveg stund og stað.“

Á flugi yfir Suðurlandi árið 2017.
Á flugi yfir Suðurlandi árið 2017. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður Brynja segist vera heppin að hafa fengið tækifæri til að ferðast víða, innanlands sem og erlendis. Eftir menntaskóla vann hún í eina önn til að fjármagna heimsreisu sem hún sér svo sannarlega ekki eftir. Annars eru það skíðaferðir sem sitja helst eftir en hún æfði og keppti á skíðum lengi. 

„Mínar uppáhaldsferðir eru skíðaferðir með fjölskyldunni en við veljum þær ávallt fram yfir sumarleyfisferðir. Síðasta ferðin sem við fórum í var til Austurríkis sem ég vel umfram önnur lönd en þar eyddum við bæði jólum og áramótum sem ég mæli eindregið með.“

Ragnheiður Brynja hélt áfram að fara á skíði eftir að skíðalyftur lokuðu en hún byrjaði að fara á fjallaskíði eftir að hún hætti að æfa skíði. 

„Skemmtilegasta útivistin er klárlega skíðamennskan því hún er einnig svo fjölskylduvæn, allir geta tekið þátt sama á hvaða aldri þeir eru. Skíðamennskan er líka svo fjölbreytt og þú getur stundað hana í flestum veðrum. Eftir að ég hætti að æfa og keppa á skíðum þá er ég búin að kynnast fjallaskíðamennskunni. Nú er einmitt tilvalið að stunda fjallaskíði í samkomubanninu þar sem skíðalyftur eru lokaðar. Mamma er einnig búin að kynna mig fyrir gönguskíðum en það var eitthvað sem ég ætlaði aldrei að prófa en lét til leiðast um daginn. Það er því engin afsökun að finna sér ekki eitthvað að gera í samkomubanninu.

Ég kynntist einnig fallegum gönguleiðum í Vestmannaeyjum um daginn þegar kærasti minn og ég þurftum að fara í sóttkví en hann er þaðan. Það bjargaði geðheilsunni að geta farið út og hreyft sig reglulega í fallegri náttúru.“

Á fjallaskíðum í Bláfjöllum nýlega.
Á fjallaskíðum í Bláfjöllum nýlega. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert