Svikahrappur stal inneign fyrir 800 þúsund

Hjónin fengu miða sína aftur hjá United Airlines.
Hjónin fengu miða sína aftur hjá United Airlines. GARY HERSHORN

Ekki er útlit fyrir að fólk geti ferðast á milli landa á næstu misserum og því fólk í óða önn að breyta flugmiðunum sínum og reyna að fá endurgreitt. Mikið mæðir á þjónustuverum stærstu flugfélaga í heimi og víða hafa svikahrappar skotist upp á yfirborðið.

Marci Haussler Peace deildi sögu sinni í hópi á Facebook fyrir konur sem elska ferðalög í þeirri von að fleiri myndu ekki lenda í því sama.

Peace og eiginmaður hennar lentu í því á dögunum að svikahrappur komst næstum því yfir inneign þeirra hjá flugfélaginu United Airlines að andvirði 5.500 bandaríkjadala eða um 800 þúsund íslenskra króna. 

Peace og eiginmaður hennar áttu flug bókað til Evrópu frá Bandaríkjunum í júlí á þessu ári. Vegna aðstæðna ákváðu þau að skoða hvað stæði þeim til boða, hvort þau gætu fengið inneign hjá United eða endurgreitt. Því hringdu þau í þjónustuver United Airlines og töluðu við þjónustufulltrúa sem kynnti sig sem Charlie.

Charlie bað um bókunarnúmer hjónanna og eftirnöfn þeirra. Hann sagði þeim svo að þar sem flugið væri enn á áætlun gætu þau ekki fengið endurgeitt.

Daginn eftir fékk Peace svo skilaboð um að fluginu hefði verið breytt. Hún hringdi um leið í flugfélagið og eftir 6 tíma símtal kom í ljós að þau höfðu ekki hringt í rétt númer hjá United Airlines heldur í svikahrappa en númerið fundu þau með einfaldri leit á Google. Svikarhrappurinn Charlie gat með bókunarnúmerinu og fullum nöfnum þeirra afbókað flugið þeirra, breytt á hvaða tölvupóstfang miðarnir voru sendir og þar með stolið miðunum þeirra. 

Peace segir að skjót viðbrögð United Airlines hafi komið í veg fyrir að svikahrappurinn gæti nýtt sér miðana þeirra og að lokum fengu þau miða sína til Evrópu aftur. Þau hafa því enn kost á að breyta miðum sínum sjálf og ef fluginu verður aflýst geta þau fengið endurgreitt.

Hún segir að raunverulegur þjónustufulltrúi hjá flugfélaginu hafi sagt að félagið hafi ítrekað lent í þessu vegna þess hve margir eru að afbóka og breyta flugferðum sínum þessa dagana.

mbl.is