Þú þarft enga hæfileika til að ganga á fjöll - bara vilja

Vilborg Arna Gissurardóttir.
Vilborg Arna Gissurardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Vilborg Arna Gissurardóttir er ókrýnd drottning fjallanna enda búin að stunda fjalla- og leiðsögumennsku um árabil. Hún hefur meðal annars gengið á Suðurpólinn og klifið hæsta tind í hverri heimsálfu. Hún er einn af stofnendum Tindar Travel en fyrirtækið býður upp á marga spennandi kosti þegar kemur að gönguferðum. Hún segir að fólk þurfi enga hæfileika til að ganga á fjöll - bara vilja. 

Það er langt síðan að Vilborg Arna áttaði sig á því að fjallgöngur gera lífið betra en hvað mælir hún með að fólk geri sem hefur ekki gengið á fjöll og kann ekkert þegar kemur að fjallgöngum? 

„Það er mikilvægt að ælta sér ekki um og of í byrjun heldur prófa sig áfram og bæta smá saman í vegalengdir og hæðametra. Það er til dæmis kjörið að mæta til okkar á byrjendanámskeið sem heitir Tindar 1, en þar lærir maður að beita sér, hvernig maður á að klæða sig og hvaða búnað á velja auk þess sem arkað er á fell og fjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þolið er fljótt að koma áður en menn vita af að þá eru þeir búnir að kynnast bæði nýjum félögum og gönguleiðum. Margir halda áfram og taka síðan framhaldsnámskeið eða koma með okkur í aðrar ferðir til dæmis yfir Fimmvörðuháls,“ segir Vilborg Arna. 

Geta allir labbað á fjöll?

„Já, það er mikilvægt að allir sem vilja stunda fjallgöngur og útivist geri það á sínum forsendum og miði við sjálfa sig en ekki hvað aðrir eru að gera, sérstaklega í byrjun þegar maður er að komast af stað. Þol og þrek er fljótt að koma og gaman er svo smá saman að setja sér markmið í takt við það sem manni finnst gaman að gera. Til dæmis að prófa eitt nýtt fjall í mánuði, klára ákveðna vegalengd eða klífa ákveðið marga hæðarmetra. Fjallgöngur og útivist einnig hafa gríðarlega góð áhrif á andlega heilsu, líkamlegt atgerfi og ekki síst hjarta og æðarkerfi svo það eru ótvíræðir kostir þess að stunda hreyfingu úti undir beru lofti.“

Hvað þarf hinn venjulegi byrjandi að vita áður en hann fer að labba á fjöll?

„Ég mæli alltaf með að menni hugi að öryggisþáttum, velji til að byrja með vel merktar leiðir, hafi símann vel hlaðinn og helst hleðslukubb ef halda á í lengri vegalendir, að vera ekki vanbúinn og auðvitað passa vel upp á orkubúskapinn. Best er að prófa sig áfram á vel merktum svæðum og kynna sér öpp til dæmis Wappið eða Wikiloc þar sem er að finna allar helstu leiðirnar.“

Hvað þarf fólk að eiga þegar kemur að fatnaði og búnaði?

„Mikilvægt er að  vera í skóm með góðum sóla sem styður vel við fótinn, það er óþarfi að rjúka til og kaupa sér strax dýra skó áður en maður hefur myndað sér skoðun á því hvað hentar manni. Ég nota mikið létta utanvega skó eða svokallaða „mid“ skó sem eru mjög léttir gönguskór og ná rétt upp á ökla. Á sumrin er svo hægt að notast við íþrottafatnað sem andar vel á meðan maður prófar sig áfram og bætir við sérhæfðari útivistarfötum og búnaði í skápinn svosem skelfatnaði, primaloft og þar fram eftir götunum. Ég mæli alltaf með að ullarfatnaður sé fyrsta fjárfesting í útivistarbúnaði þar sem ullin er algjör staðalbúnaður í útivist á Íslandi.“

Hvað gefa fjallgöngur sjálfir þér?

„Ég finn mikið frelsi á fjöllum og finnst dásamlegt að eiga góðar stundir á fjöllum með bæði vinum mínum og svo þeim sem koma til okkar í ferðir. Maður nærist svo sannarlega á líkama og sál og það er hollt að takast á við sjálfan sig í náttúrunni því maður nær að vaxa á einhvern undraverðan hátt. Ég hef jafn gaman að stuttum skreppi túrum og lengri og meira krefjandi verkefnum. Auðvitað nenni ég ekkert alltaf út frekar en aðrir en það er alltaf jafn gott þegar maður er komin af stað og verðlaunin er vellíðan á líkama og sál.“

Finnst þér þetta ástand hafa ýtt við fólki að fara að hreyfa sig meira úti?

„Já algjörlega. Það eru margir sem hafa ekki getað stundað sína hefðbundnu íþróttir og afþreyingu síðustu vikur og því mörg ný andlit á ferðinni sem er ákaflega ánægjulegt og vonandi bætast enn fleiri við í sumar. Það þarf ekki alltaf að fara langt en augnabliks hressing úti undir beru lofti.“

Áttu eitthvað geggjað ráð fyrir þá sem langar að verða þessi hressa fjallatýpa en hafa ekki kjark til þess?

„Einfalt og gott; stíga út fyrir þægindahringinn og taka eitt eða tvö skref uppá við. Það er ekkert að óttast, þetta er ekki keppnisgrein heldur mikilvægt að vera maður sjálfur á sínum forsendum.“

Þarftu að hafa einhverja hæfileika til að geta labbað á fjöll?

„Vilji er allt sem þarf, hitt kemur svo með kalda vatninu.“

Hver er þín uppáhaldsgönguleið á Íslandi?

„Þær eru svo margar og erfitt að velja einhverja eina. Á höfuðborgarsvæðinu eru Móskarðshnúkar það fjall sem ég fer hvað oftast á, ég er alveg sjúk í Rauðasand þar sem ég á rætur, Hrútfjallstindar í Vatnajökli og svo frá Sveinstind inn í Skælinga og Hólaskjól og allar hinar líka.“

Hvernig verður sumarið hjá þér?

„Í vinnunni verð ég upp um fjöll og firnindi með félögum mínum í Tindum Travel. Vestfirðir eru í miklu uppáhaldi hjá mér og ég stefni á Vesturgötuna með Þóru vinkonu minni þar sem við ætlum að spreyta okkur í hlaupum og kannski einhverju fleiru. Svo verður í forgangi að eiga gæðastundir með manninum mínum og strákunum hans sem eru miklir útivistargarpar.“

mbl.is