Anna Kristjáns borgar brúsann á Tenerife

Anna Kristjánsdóttir býr á Tenerife.
Anna Kristjánsdóttir býr á Tenerife.

Anna Kristjánsdóttir hefur búið í 266 daga á Tenerife og er að upplifa dag 54 í útgöngubanni. Hún segir að ástandið sé farið að reyna verulega á. 

„Ég fékk heldur betur hland fyrir hjartað í gærkvöldi þegar ég las nýjustu fréttir frá Íslendingum sem allt vita um ástandið og töldu að framlengja ætti útgöngubannið um tvær vikur í viðbót. Ég sá fram á uppsafnaðan sparnað á næstunni, enga nýja inniskó, enga nýja innkaupakerru og ekkert kráarrölt eða flakk í leigubílum á milli stórverslana í tvær vikur í viðbót. Sorrý Inga, ekki illa meint.

Ég fór strax inn á fréttasíður innfæddra og komst að því að ríkisstjórnin hafði fengið samþykkt áframhald á neyðarlögunum um tvær vikur, en ekki vissi ég hvað átt var við, hvort þeir ætluðu að lengja útgöngubannið í 72 daga og meina mér að komast í sundlaugagarðinn þótt byrjað væri að fylla laugarnar. Ég hringdi því í Ingu Barstjóra og fékk það staðfest að fyrri áætlanir væru enn í gildi. Einungis væri um að ræða framhald neyðarlaganna vegna tekjutaps þeirra sem sitja heima, en fyrri áætlanir um rýmkun útgöngubanns væru enn í fullu gildi.

Tilveran hrundi. Ég hafði séð fyrir mér stórsparnað í tvær vikur í viðbót og veitti ekki af. Ég hafði einmitt heyrt Bjarna Benediktsson tala í morgunútvarpið og dásama íslensku krónuna á þessum viðsjárverðu tímum og ég hafði horft á þessa sömu sterku krónu falla úr 135 krónum í 158 á örfáum vikum gagnvart hinni handónýtu evru og lífeyrinn minn rýrna sem þessu nam á sama tíma. Einhverjir þurfa víst að borga þessa kreppu og Bjarna finnst eðlilegast að láta gamla fólkið borga. Þar eru breiðu bökin.

Við getum allavega huggað okkur við að Akraborgin heldur enn skertri áætlun,“ segir Anna á Facebook-síðu sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert