Styðja við íslenska ferðaþjónustu með gjafabréfum

Godo-teymið sem er á bak við Styrkjum Ísland.
Godo-teymið sem er á bak við Styrkjum Ísland. Ljósmynd/Lilja Hauksdóttir

Styrkjumisland.is er óhagnaðardrifið verkefni frá hugbúnaðarfyrirtækinu Godo sem miðar að því að létta undir með þeim fyrirtækjum, fjölskyldum og einstaklingum sem starfa í ferðaþjónustu um allt land. Þar geta fyrirtæki og einstaklingar keypt gjafabréf fyrir tilvonandi ferðalög innanlands sem nýtast á fjölmörgum gististöðum um land allt. 

„Það er komið að því að landinn ferðist innanlands og njóti þess sem Ísland hefur upp á að bjóða bæði í afþreyingu, mat og gistingu. Það hefur orðið alger tekjubrestur í greininni og margar fjölskyldur sem hafa staðið vaktina síðustu ár og lagt allt sitt í uppbyggingu á gríðarlega flottri ferðaþjónustu á Íslandi hafa horft á eftir lifibrauði sínu hverfa nánast yfir nótt. Godo heldur utan um bókanir flestra gististaða og hótela á Íslandi og það var strax ljóst þegar faraldurinn byrjaði að tölurnar voru sláandi. Þess vegna ákváðum við að gefa hluta af vinnunni okkar til að hjálpa okkar viðskiptavinum. Það er ekki hægt að sitja aðgerðalaus og bara bíða og vonast eftir kraftaverki. Það versta við svona stöðu er að gera ekki neitt,“ segir Katrín Magnúsdóttir rekstrarstjóri Godo.

Hugbúnaðarfyrirtækið Godo var stofnað árið 2012. Fyrirtækið sérhæfir sig í þjónustu og hugbúnaðarlausnum fyrir fyrirtæki ásamt því að hanna og þjónusta eigin hugbúnað. Godo hefur stækkað ört síðan og fengið mikla athygli fyrir nýstárlegar lausnir í hugbúnaðargerð. 

„Verkefnið „Styrkjum Ísland“ er hugsað sem hvati fyrir Íslendinga til að ferðast innanlands í ár, skoða og upplifa þá flottu ferðaþjónustu sem byggð hefur verið upp síðustu ár. Eflaust kemur það mörgum á óvart að það er bæði hægt að bóka gistingu á stórum flottum hótelum, í „glamping“ tjöldum, smáhýsum, súrheysturni og allt þar á milli á verði sem er vel samanburðarhæft við það sem við erum tilbúin til að greiða fyrir gistingu erlendis. Það er ljóst að margir gististaðir eru hér að bjóða upp á verð sem eru töluvert lægri en gengur og gerist hjá þeim. Það er því virkilega ánægjulegt að sjá hvað margir voru tilbúnir til að leggja sitt að mörkum þannig að verkefnið yrði sem viðamest,“ segir Kristín.

Þær lausnir sem Godo framleiðir eru notaðar vítt og breitt í ferðaþjónustunni. Kerfi á borð við Pronto, Primo, Property og Travia ásamt rekstrarþjónustum hafa hjálpað mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum að komast þægilega inn í nútímann enda markmið Godo að auka sjálfvirkni í öllu tengdu bókunum, verðstýringu, viðhaldi og þrifum svo fátt eitt sé nefnt. Með auknu vöruúrvali hefur starfsemi Godo teygt anga sína til 14 landa þótt megináhersla hafi alltaf verið lögð á íslenska ferðaþjónustu. 

„Þetta verkefni er frábrugðið öðrum verkefnum sem við höfum ráðist í að því leyti að því er beint til íslenska ferðamannsins fyrst og fremst. Þetta er því að einhverju leyti nýtt fyrir okkur en viðbrögðin hafa verið frábær. Við erum þó rétt að byrja og hvetjum þau fyrirtæki sem standa sterkt og eru í stöðu til að leggja verkefninu lið með kaupum á  gjafabréfum fyrir sitt starfsfólk eða með öðrum hætti að hafa samband. Það verður krefjandi verkefni að endurreisa ferðaþjónustuna, en okkur mun takast það í sameiningu.“ 

Ljósmynd/Ragnheiður Þorgrímsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert