Jónína Ben bjargar sumrinu

Jónína Ben bjargar sumrinu og heilsunni.
Jónína Ben bjargar sumrinu og heilsunni. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Íþróttafræðingurinn Jónína Benediktsdóttir segir að tveggja vikna detox-heilsumeðferð í Hveragerði getið jafnast á við tveggja vikna frí á sólarströnd. Í sumar mun Jónína bjóða upp á einmitt það á Hótel Örk. 

Jónína hefur búið um árabil í Hveragerði og segir að bærinn sé jafn friðsæll og nærandi og afskekt fjallaþorp í Austurríki. „Ég legg mjög mikla áherslu á upplifun í heilsumeðferðunum mínum, ég vil að fólki líði eins og það sé í fríi,“ segir Jónína í viðtali við mbl.is.

Jónína segir Hveragerði jafnast á við afskekkt fjallaþorp í Austurríki.
Jónína segir Hveragerði jafnast á við afskekkt fjallaþorp í Austurríki. Árni Sæberg

„Ég upplifi mest þegar ég er á einum stað í nokkurn tíma og get notið þess sem er í kring. Bæði eins og þegar ég var í Austurríki á heilsuhótelum eða í Þýskalandi, Indlandi, Taílandi eða hvert sem ég hef farið, þá hef ég alltaf sett heilsuna í fyrsta sæti. Þá hef ég fundið fyrir þessari upplifun,“ segir Jónína og bætir við að fólk geti fengið þessa upplifun í meðferðunum hennar. 

Hún segir að ferðalög sem snúist um að sjá sem mest á stuttum tíma séu henni ekki að skapi og að slík ferðalög skilji ekki nógu mikið eftir sig. „Þessi gamaldags túrismi að þeytast um allt og taka myndir af sér og setja á Facebook skilar engu þegar upp er staðið,“ segir Jónína.

Heilsumeðferðirnar fara fram á Hótel Örk í Hveragerði.
Heilsumeðferðirnar fara fram á Hótel Örk í Hveragerði. mbl/Arnþór Birkisson

Hún hefur starfað í heilsumeðferðabransanum í 16 ár og boðið upp á heilsumeðferðir í Póllandi sem hafa notið mikilla vinsælda. Vegna kórónuveiruheimsfaraldursins getur hún ekki boðið upp á ferðir til Póllands í sumar en í staðinn ætlar hún að nýta sér allt það sem Ísland hefur upp á að bjóða. 

Auk þess sem hún býður upp á detox-heilsumeðferðir í Hveragerði í sumar ætlar hún einnig að bjóða fólki upp á að heimsækja hana norður í Mývatnssveit, en skipulagning á þeim meðferðum er ekki komin jafn langt á veg.

Nánari upplýsingar um heilsumeðferðir Jónínu Ben má finna á Facebook-síðu hennar og á vef Hótels Arkar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert