Prinsinn í vanda vegna lúxusskíðakofa í Sviss

Skíðakofi Andrésar prins og Söruh Ferguson.
Skíðakofi Andrésar prins og Söruh Ferguson. AFP

Andrés Bretaprins og fyrrverandi eiginkona hans, Sarah Ferguson, keyptu hlut í lúxusfjallakofanum Helora á Verbier-skíðasvæðinu í Sviss árið 2014. Það er þó ekki tekið út með sældinni að eiga svona glæsilegt afdrep þar sem það þarf víst að borga fyrir það. Hjónin fyrrverandi hafa ekki greitt allt sem þeim ber að því fram kemur á vef Telegraph. 

Bjálkakofinn sem hertogaynjan af Jórvík er sögð hafa búið í árið 2015 er með sex svefnherbergjum, innisundlaug og gufubaði. 

Hjónin fyrrverandi skulda nú 6,7 milljónir punda með vöxtum í kofanum eða rúmlega 1,2 milljarða. Málaferli eru sögð hafin í Sviss gegn hjónunum fyrrverandi vegna vangreiddra skulda en svissneski fjölmiðillinn Le Temp greindi fyrst frá. Upphaflegu eigendur skíðakofans eiga enn hlut í eigninni og vilja fá peningana sína. 

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP

Hertogahjónin fyrrverandi af Jórvík eru sögð hafa ætlað að selja sinn hlut í eigninni en málið hefur skapað óvissu. Hjónin fyrrverandi skildu árið 1996 en eru enn það góðir vinir að þau keyptu saman skíðakofa tæpum 20 árum eftir skilnað. Kofinn er sagður hafa kostað 18,3 milljónir punda eða rúmlega 3,3 milljarða á gengi dagsins í dag. 

Útsýnið er ekki slæmt úr skíðakofa Andrésar prins og Söruh …
Útsýnið er ekki slæmt úr skíðakofa Andrésar prins og Söruh Ferguson. AFP

Talsmaður Andrésar prins og Söruh Ferguson viðurkenndi að það væru deilur til staðar en nánari upplýsingar væru trúnaðarmál. Buckingham-höll vildi ekki tjá sig um málið. 

Þetta er ekki eina málið sem er að angra Andrés prins um þessar mundir. Í nóvember neyddist hann til að segja sig frá konunglegum skyldum vegna tengsla sinna við kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein. 

Sarah Ferguson og Beatrice prinsessa af York.
Sarah Ferguson og Beatrice prinsessa af York. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert