Ferðamenn handteknir á Hawaii

Ferðamenn á Hawaii eru ekki lengur velkomnir og þeir sem …
Ferðamenn á Hawaii eru ekki lengur velkomnir og þeir sem koma og brjóta sóttvarnalög eru handteknir. Brot á sóttvarnalögum varða fangelsi. AFP

Yfirvöld á Hawaii í Bandaríkjunum hafa gengið hart fram til að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar á eyjunni. Dæmi eru um að ferðamenn sem hafa brotið sóttvarnalög hafi verið handteknir af lögreglunni. CNN greinir frá. 

Fæst ríki Bandaríkjanna hafa gengið jafn hart fram í baráttunni gegn veirunni og hafa stjórnvöld meðal annars látið fé renna til samtaka sem vinna að því að senda ferðamenn aftur til síns heima sjái þeir ekki fram á að geta verið í sóttkví í 14 daga eftir að þeir koma til eyjanna. Allir sem ekki eru með lögheimili á Hawaii þurfa að fara í sóttkví í 14 daga þegar þeir koma til Hawaii. 

Í síðustu viku handtók lögreglan á Hawaii hjón frá Kaliforníu sem fóru í brúðkaupsferð til eyjanna. Þau höfðu fengið tilmæli um að halda sig inni á hótelherbergi sínu en gerðu það ekki og lentu því í klandri. Starfsfólk á hótelinu tilkynnti hjónin til lögreglu eftir að þau fóru ítrekað út af herbergi sínu.

Í lok apríl voru karlmaður frá Flórídaríki og kona frá Illinois-ríki handtekin fyrir að stelast úr sóttkví. Starfsfólk hótelsins sem þau dvöldu á létu lögregluna vita að þau hefðu stolist út og komið heim með poka úr verslun og mat frá veitingastað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert